Sú staðreynd að konur á öllum aldri stundi í einhvern tíma vændi til að drýgja afkomu sína er bæði gömul saga og ný um allan heim. En þegar stjórnvöld í lýðræðisríki stunda efnahagsstefnu sem vísvitandi verður til þess að einstæðar mæður og konur sem eru á lægstu bótum almannatrygginga eru neyddar út í vændi til að sjá börnum sínum og sjálfum sér farborða þá ber öllum heiðvirðum borgurum að staldra við og spyrja upphátt hver ábyrgð þeirra sem sitja að völdum sé í raun.
Í Fréttatímanum í gær, 4. ágúst var grein sem slær mann all rækilega á kjammann og maður þarf í raun að lesa hana nokkrum sinnum til að trúa því að ástandið sé í raun orðið svona slæmt sem raun ber vitni en þar er talað við konu um fimmtugt, móður og öryrkja sem hóf að stunda vændi til að geta veitt börnunum sínum eitthvert annað líf en að ganga í notuðum fötum af öðrum og lifa á lélegu fæði eða jafnvel engu.
Hún hafi einfaldlega búið sér til falskan Facebook-aðgang og sótt um að fá að ganga í hópinn. Málið sé að velja passlega ögrandi mynd. Það sé engin þörf á því að segja neitt um vændi eða bjóða sig til sölu. Karlarnir renna einfaldlega á lyktina. „Það liðu ekki fimm mínútur áður en skilaboðin fóru að hrúgast inn,“ segir hún. „Það er gríðarleg eftirspurn. Eftir tvo daga var ég komin með 400 einkaskilaboð frá mönnum sem vildu kaupa vændi. Sumir fóru hægt í sakirnar og fikruðu sig áfram með almennu spjalli. Aðrir spurðu bara beint, hvort ég væri til sölu eða hvort ég væri laus. Mér fannst þetta svolítið yfirþyrmandi fyrst en síðan vandist ég þessu.
Athugið að þetta er kona sem er háskólamenntuð og í hafði fín laun áður en hún varð fyrir líkamsárás þar sem hún var stórslösuð og í kjölfarið hrundi heilsan hjá henni.
Það var ekki fyrr enn í vor að hún fór að reyna fyrir sér í vændi: „Ég tek tuttugu þúsund fyrir skiptið,“ segir hún. „Yfirleitt tekur þetta um korter til tuttugu mínútur, stundum vilja þeir vera aðeins lengur og ég leyfi það. Ég hitti þá bara á dagvinnutíma, aldrei á kvöldin eða um helgar. Með því að afgreiða um 20 til 30 menn á mánuði hef ég um hálfa milljón í tekjur, skattfrjálsar.“
„Ég get hjálpað börnunum mínum í lífinu og líka föður mínum sem er mikill sjúklingur. Ég hef ekkert samviskubit, að gera það sem ég geri. En mér finnst auðvitað ógeðslegt að vera sett í þessa stöðu. En ég gat ekki lifað af fjörutíu þúsund krónum á mánuði eins og mér var uppálagt að gera. Ég get ekki unnið fulla vinnu en hálfa vinnu myndi ég vel ráða við en þá taka þeir bæturnar.
Takið eftir síðustu setningunni því hún skiptir svo gífurlega miklu máli í þessu sambandi því lögin um skerðingar bóta eru svo ómannúðlegar og í raun glæpsamlegar að það er ekki hægt að fordæma það nógsamlega enda er þetta brot á stjórnarskránni þar sem þetta er ekkert annað en hrein og klár eignaupptaka.
Hún segir að skömmin sem fylgi fátæktinni sé síst minni en sú sem fylgi vændinu. Það langi alla til að geta hjálpað börnunum sínum og tekið þátt í samfélaginu. Það sé erfitt að vera sú sem þarf að afþakka allt, vegna þess að það eru ekki til peningar fyrir neinu. Varla mat. „Fyrir konu á mínum aldri, er það einfaldlega ömurlegt.“
Það er nefnilega málið. Það er hægt að nauðga fólki andlega líka alveg eins og líkamlega og það er nákvæmlega það sem stjórnvöld gera við þúsundir íslendinga á hverjum einasta degi með því að skerða réttindi fólks til að lifa með reisn.
Allar þessar þvinganir, lágar bætur almannatrygginga og síðast en ekki síst, tekjutengingar og tekjuskerðingar eru algjörlega í boði íslenskra stjórnvalda, þingmanna og ráðherra stjórnarflokkana sem sviku lífeyrisþega fyrir jólin síðustu þegar þeir NEITUÐU AÐ FARA AÐ LÖGUM OG HÆKKA BÆTUR AFTURVIRKT! Það má því alveg segja með réttu og sanni að allir þessir einstaklingar sem hér eru listaðir, bera á því fulla ábyrgð hvernig komið er fyrir þessari konu og mörgum kynsystrum hennar sem þurfa að komast af á bótum almannatrygginga.
Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þessu því þetta er staðreynd sem þingmenn og ráðherrar núverandi stjórnarflokka neyðast til að lifa með alla sína ævi enda samþykktu þeir þetta.
„Nei, ég er ekki fórnarlamb. Ég neita í raun og veru að vera fórnarlamb og láta þvinga mig til að lifa í þeirri niðurlægingu að þurfa að neita mér um allt,“ segir hún. Hún segist heldur ekki hafa verið félagslega einangruð þótt það sé oft og tíðum fylgifiskur örorkunnar: „Nei, ég á marga vini og kunningja og stóra fjölskyldu, ég var ekkert einmana en margir öryrkjar einangrast auðvitað félagslega. Það er ömurlegt að þurfa að selja sig til að komast af en þetta er bara miklu algengara en fólk heldur. Frá mínum bæjardyrum séð, þaðan sem ég er núna, virðist um helmingur þjóðarinnar vera að gera það sem ekki þolir dagsins ljós. Fólk er með sérstakar Facebook-síður til að skiptast á læknadópi og kaupa vændi. Karlar úr öllum stéttum eru að kaupa sér vændi og það eru læknar á háu kaupi sem skrifa upp á læknadópið. Ég fer til hárgreiðslukonunnar í hverfinu og fæ mér klippingu og borga með peningum svo hún geti svikið undan skatti. Það eru fæstir í þessu þjóðfélagi alveg sjúklega heiðarlegir og kerfið er að molna í sundur. Ég er kannski komin á jarðsprengjusvæði með því að tala um þetta. Það er skrítið en ég upplifi einhvern náungakærleika í vændinu. Ég leggst ekki bara á bakið og glenni mig. Það eru menn úti í samfélaginu sem borga peninga fyrir að nota líkamann minn. Ég nota peningana til að hjálpa sjálfri mér og öðrum. Þannig er þetta bara.“
Greinina má lesa hér í heild sinni og ég hvet fólk til að gera það svo það fari að skilja hvernig þetta þjóðfélag er orðið í boði Sjálfstæðis og Framsóknarflokksins. Flokkana sem voru við völd í átján ár áður en bankahrunið varð og það er vegna þeirra og lagasetninga þeirra ásamt einkavinavæðingunni sem tröllreið öllu hér eftir aldamótin sem ástandið er orðið svona í dag og fer versnandi dag frá degi.
Við sitjum uppi með svo gjörspillta einstaklinga á alþingi og svo siðblinda og hrokafulla ráðherra og þingmenn að það er leitun að öðru eins. Yfirleitt finnast svona einstaklingar aðeins inni á lokuðum deildum geðsjúkrahúsa eða þá að þetta eru skáldaðar persónur í bíómyndum. Þetta fólk á ekki heima á alþingi neins þjóðríkis nema kjósendur landsins séu algjörlega steiktir á milli eyrnana og leyfi þetta.
Íslendingar hafa tækifæri til að breyta þessu og laga þetta þjóðfélag að þörfum íbúana, fólksins í landinu og þá sérstaklega því fólki sem er í sporum þessarar konu sem vísað er í hér að ofan sem og margra annara, bæði kvenna og karla sem eru í hennar sporum, að þurfa að selja líkama sinn til að eiga fyrir mat.
Eigum við eitthvað að tala um ógeðslegt þjóðfélag sem leyfir svona?
Eigum við eitthvað að ræða fólkið sem neitar að horfast í augu við að þetta er að gerast framan við augun á þeim en það kýs að horfa í hina áttina?
Eigum við eitthvað að ræða siðferði þeirra kjósenda sem kjósa stjórnmálamenn til valda fyrir þjóðina sem neyða svo konur og menn sem eru öryrkjar til að stunda vændi til að eiga fyrir mat?
Fyrir mér eru allir þeir sem neita að horfast í augu við þessar staðreyndir og neita að viðurkenna þær en halda áfram að kjósa þá stjórnmálamenn sem nauðga andlega, af ásetningi þúsundum íslendinga á hverjum degi, alveg jafn sekir og þeir hefðu ráðist á barn og nauðgað því á almannafæri.
Það er mín skoðun og þess vegna verðum við, almenningur í landinu að axla ábyrgð á því sem orðið er og kjósa rétt í næstu kosningum en henda siðblindingjunum og nauðgurunum á ruslahuginn sem þeir eiga heima á og fá til valda fólk sem vill stuðla að bættu þjóðfélagi þar sem allir hafa jafnan rétt á að komast af og lifa mannsæmandi lífi, án þess að þurfa að stunda vændi til þess.
Ég veit að þetta er harkalega orðað en því miður þarf stundum að slá fólk rækilega utan undir svo það rakni úr rotinu og átti sig á því sem er að gerast í kringum það.