Eins og allir vita sem mig þekkja þá framdi sonur minn sjálfsmorð aðfaranótt 20. oktober 2012.
Hann tók ekki bara sitt eigið líf heldur gerði hann það á þeim stað þar sem fólk með geðræn vandamál Á AÐ FÁ HJÁLP við sjúkdómi sínum.
Hann tók sig til og hengdi sig inni á Geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eftir að hafa verið á sjálfsmorðsvakt.
Hvað segir okkur þetta um það heilbrigðiskerfi sem við búum við í dag?
Hvað segir þetta okkur um það fólk sem starfar inni á þeim deildum sjúkrahúsa sem eiga að sjá um það fólk sem þjáist af andlegri vanlíðan, geðsjúkdómum og gífurlegu þunglyndi?
Hvað segir þetta okkur um stjórnmálamennina sem bera ábyrgð á því að heilbrigðiskerfið í landinu virki fyrir alla landsmenn?
Og að lokum, hvaða ábyrgð bera ofantaldir aðilar á því þegar fólk tekur sitt eigið líf af því það fær ekki þá hjálp og þann skilning sem það þarfnast?
Mér finnst hræðilegt að horfa upp á stöðufærslu vina minna sem þjást af þunglyndi og sjálfsvígshugsunum og ætla að reyna að leita sér hjálpar vegna þeirra en er hreinlega hent út á götu þegar í ljós kemur að um þunglyndi og sjálfsvígshugsanir er að ræða og þegar fólk í bráðamóttöku á LSH leyfir sér slíka vanrækslu í starfi vitandi að aðilinn sem starfsmaðurinn henti út án þess að hjálpa honum, kemur næst inn í líkpoka, ætli sá starfsmaður finni sig ábyrgan fyrir dauða viðkomandi?
Mér er spurn og ég er reiður þegar ég heyri af því að starfsfólk LSH hendir fólki út án þess að hjálpa því eða koma því undir hendur sérfræðinga því það er staðreynd að einn daginn situr þessi sami starfsmaður uppi með þá staðreynd, að sá sem hann henti út er kominn til baka sem liðið lík eftir nokkra tíma.
Það getur ekki verið þægilegt eða uppörvandi fyrir starfsmanninn.
Eða hvað?
Ungur maður sem ég þekki skrifaði inn á fésbókina um líðan sína og upplifun af því að leita sér aðstoðar vegna sjálfsvígshugsana sem hann var orðinn hræddur við og ég ætla að deila með ykkur broti af því sem hann skrifar:
Ég fór á bráðamóttökuna í Fossvogi í gær/nótt vegna sjálfsvígs hugsana og þunglyndis. Fékk þar að tala í fyrstu við hjúkrunarfræðing og svo lækni. Ég var og er eiginlega búin að vera mjög dapur í mjög langan tíma vegna margvíslegra ástæðna. Það er ekki eitt. Það er allt.
Ég hafði verið að glíma við leiðinlegar hugsanir mjög lengi og er eiginlega enn. Það sem kom út úr þessari heimsókn minni í gær var í raun og veru ekki neitt. Ég var sendur heim og við það sat.Ég er búin að spyrja mig svo oft þeirrar spurningar að undanförnu og þá sérstaklega í dag, afhverju að ég hafi ekki fengið meiri og betri aðstoð kerfisins í gær. Ég er eiginlega miður mín.
Mér finnst að ég hafi verið í bráða vanda í ca. 4-5 sólarhringa. En kerfið vill mig ekki. Sárt en svona er þetta nú bara.
Þetta er það sem maður heyrir frá fólki sem glímir við þunglyndi og kvíðaröskun, því er bara sagt að rífa sig upp úr þessu og hent út á götu.
Þegar þetta fólk svo reynir að fá meiri hjálp, þá er það bara hunsað.
Stjórnvöld verða og eru skyldug til að gera eitthvað róttækt í þessum málum því það er grafalvarleg staða í gangi í þessu landi. Það eru milli 30 og 40 ungmenni sem ná að kála sér á hverju ári vegna skorts á skilningi allt of margra sem vinna í þeim geira sem snýr að geðheilbrigði og það vantar fjármuni í þetta kerfi líka og verður að stórbæta það með virkari forvörnum. um 400 ungmenni reyna að taka líf sitt á hverju ári en eins og kemur fram að ofan, þá tekst það á milli 30 og 40 einstaklingar á ári hverju.
Það eru 30 til 40 of margir.
En áfram með það sem vinur minn segir.
Hvað getur maður eiginlega gert? Er með þessu verið að segja við mig! Þú ert ekki dýrmætur. Þú mátt alveg fara sex fetum neðar. Ég bara næ þessu ekki. Ég geri mér ferð niður á bráðadeild í Fossvogi í gær en fæ enga aðstoð kerfisins. Þetta er sorglegt.
Ég er allavegana farin að líta á þetta þannig augum að ég sé hreint ekki velkomin á spítalann og það að ég eigi helst að halda mig fjarri honum.
Mér finnst ömurlegt að vera vísa frá sjúkrahúsinu. Ég hef lent í mörgu í gegnum tíðina. EIns og einelti og bílslysum. En það er ekkert hugsað um það að kannski gæti ég verið með snert að áfallastreituröskun. Það gæti þó ekki verið.
En það sem mér finnst alvarlegast er þetta! Maður fær ekki aðstoð kerfisins. Maður fær ekki aðstoð Landspítalans. Það er ekki hlustað á mann.
Í hvernig landi bý ég. Ef ég væri með krabbamein, þá fengi ég aðstoð. En ég glími við alvarlegt þunglyndi og þá fæ ég ekki aðstoð. Það finnst mér ekki samgjanrt.
Hvernig þjóðfélag og hvernig stjórnmálamenn eru það sem koma svona fram við andlega veikt fólk?
Ég skal svara því fyrir ykkur svo þið skemmið engar heilafrumur á að brjóta heilann um það. Svarið er siðblindingjar. Siðblindir stjórnmálamenn sem ljúga sig til stjórnar landsins með loforðum um bættann hag almennings og öflugra heilbrigðiskerfi en svíkja það svo allt saman.
Það er þetta fólk sem ber ábyrgðina.
Það er þetta fólk sem ber ábyrgð á dauða hvers þess sem fær ekki þá aðstoð við sjúkómum sínum sem stórnarskrá íslenska lýðveldisins kveður á um.
Það eru þannig stjórnmálamenn sem sem hefðu sjálfir getað bundið snöruna um hálsinn á syni minum með dyggri aðstoð þeirra sem áttu að hjálpa honum inni á deildinni sem hann hengdi sig á og það eru stjórnmálamennirnir sem hafa ekki lagt fjármuni í geðheilbrigðiskerfið sem bera ábyrgð á dauða þeirra ungmenna sem tóku líf sitt eins og þeir sjálfir hefðu byrlað því eitrið, hnýtt snöruna, drekkt því, skotið eða stungið. Allt eftir því hvernig dauðdagi þess ungmennis var tilkominn.
Það er hreint út sagt svívirðileg framkoma hjá þeim stjórnmálamönnum og ráðherrum sem láta það líðast með fjársvelti við sjúkrastofnanir sem eiga að hjálpa fólki en drepur það í staðin vegna fjárskorts meðan útvaldir vinir og ættingjar þessara sömu stjórnmálamanna synda í milljörðum á milljaraða ofan vegna áhrifa og aðgerða ráðherra og þingmanna.
Þetta verður að stoppa og það ekki seinna en strax enda núverandi stjórnarflokkar og margir þingmanna þeirra aðeins á þingi fyrir sérhagsmuni en ekki almenning í landinu.
Ég hvet ykkur til að lesa stöðufærslu vinar míns og deila henni og þessum pistli beint til ráðamanna þessa þjóðfélags og minna þá á, að þeir bera ábyrgð. Líka á dauðsföllum þeirra sem taka sitt eigið líf.
Að lokum hvet ég ykkur til að hlusta á þessa ræðu Andrésar Inga Jónssonar, því hún er sláandi og segir svo margt um hvar áherslurnar liggja en ættu ekki að liggja.