Íslendingar gera ákveðnar kröfur á þá þingmenn og ráðherra sem fara með völd í landinu hverju sinni, að þessir hópur sem er valin í „lýðræðislegum“ kosningum af fólkinu í landinu, sinni sínum störfum fyrir þá sem fengu þeim völdin í hendur, þjóðina.
Þeir þingmenn og ráðherrar sem halda og trúa því að þeir séu þarna á eigin forsendum að starfa fyrir einhver samtök, fyrirtæki eða útgerðir, ættu að vera brottrækir af þingi um leið þeir verða uppvísir að því að vinna gegn hagsmunum almennings í landinu með ákvörðunum sínum. Á það bæði við um þingmenn og ráðherra því það er jú þjóðin, almenningur í landinu sem greiðir þeim launin.
Kristján Helgason skrifar opið bréf til ráðamanna þjóðarinar, starfsmanna sinna og okkar allra og ætlast til þess að honum sé svarað.
Bréfið hljóðar svona:
“Ágætu” ráðherrar !
Nú er það svo, að þegar öryrki nær þeim áfanga að verða 67 ára, gerir Almættið, af óendanlegri elsku sinni, kraftaverk á viðkomandi einstaklingi, (eða eru það stjórnvöld þessa lands, ég er ekki viss) ?
Öryrkinn, getur við 67 ára aldur hent stafnum sínum, hækjunni, göngugrindinni og jafnvel hjólastólnum sínum, eða hverju því hjálpartæki sem hann notaði til að koma sér á milli staða, því hann er ekki lengur öryrki, hann er orðinn ellilífeyrisþegi (gamalmenni). Það sama gerist þegar geðfatlaðir eiga í hlut, þeir munu ganga um alheilir á geði. Blindir fá sýn og mál og heyrnarlausir munu tala og heyra sem aldrei fyrr, Heyrnarlausir munu heyra saumnál detta á teppi og blindir munu sjá svik ríkisstjórnarinnar.
Þegar öryrki nær þeim merka áfanga að verða 67 ára (ef hann lifir svo lengi) þá er felld niður aldurstengd örorkuuppbót, sem getur numið allt að 34, 000,oo kr.á mánuði.
Samkvæmt þessu þá munu bætur skerðast um þessa upphæð.
Nú er það svo að lyfjakostnaður, heimsóknir til lækna, o.fl. mun, í nánast öllum tilfellum aukast eftir að öryrkinn nær þeim “eftirsóknarverða” áfanga að verða 67 ára, sem sagt orðinn ellilífeyrisþegi.
Öryrkinn, (nú eldri borgari), þarf á öllum sínum peningum að halda til að geta haldið lífi. Hann þarf að greiða húsaleigu/fasteignagjöld og afborganir lána, hann þarf að borða hollan mat (sem er dýrari en óhollur), hann þarf að komast á milli staða o.m.fl.
Öryrkinn/ellilífeyrisþeginn ÞARF ekki að eiga fyrir jólagjöfum til barnabarna sinna, en honum sárnar að geta það ekki vegna fátæktar. Þegar svo er komið virðist honum að ALLT sé af honum tekið.
Við þekkjum öll söguna af gömlu konunni í apótekinu sem tíndi alla aurana sína úr buddunni sinni til að eiga fyrir lífsnauðsynlegu lyfi, en átti ekki nóg og fór grátandi út. Einstaka sinnum heyrum við þá gleðifregn að góðviljaður viðskiptavinur greiði fyrir lyf gömlu konunnar, en að ríkisstjórnin geri svona nokkuð, það er borin von. Ríkisstjórnin reytir aurana af þeim sem minna mega sín eins og enginn sé morgundagurinn, þeir fátæku skulu borga, hvað sem á dynur.
Ætlar þessi ríkisstjórn, sem núna situr við völd, að gera eitthvað til að leiðrétta kjör öryrkja og eldri borgara þessa lands ? Eða mun hún, eins og svo oft áður, horfa sakleysislega til himins og segja: Étið það sem úti frýs, okkur kemur þetta ekki við.
Nú vil ég endilega benda þessum ungmennum, sem sviku sig inn á þing með fölskum loforðum og fagurgala, á að það voru ELDRI BORGARAR landsins sem unnu alla vinnuna og gerðu landið að því sem það er í dag.
ERU ÞETTA ÞAKKIRNAR ?VIÐ, ÖRYRKJAR OG ELDRI BORGARAR, EIGUM LÍKA RÉTT Á ÞVÍ AÐ VERA TIL. VIÐ EIGUM LÍKA RÉTT Á ÞVÍ AÐ LIFA MANNSÆMANDI LÍFI.
Unga fólkið okkar þarf á vinnu að halda, en það virðist borin von fyrir það að fá vinnu, þar sem útlendingar eru frekar ráðnir til flestra starfa, vegna þess að hægt er að greiða þeim lægri laun en lögboðin eru.
Er ekki kominn tími til að taka á þessu og bjóða OKKAR fólki vinnu í stað þess að greiða þeim smánarbætur úr atvinnuleysissjóði ?Ég óska eftir, nei ég KREFST svara frá þeim ráðherrum sem bréfið er stílað til.
Vonandi eru þeir ekki þær mannleysur og gungur að þora ekki að svara.Þingmenn og ráðherrar, hafið það hugfast að ÞIÐ ERUÐ Í VINNU HJÁ OKKUR, þ.e.a.s. hjá þjóðinni og við borgum launin ykkar, sem mættu gjarnan vera árangurstengd. VINNIÐ FYRIR OKKUR en ekki fyrir elítuna, hún getur bjargað sér sjálf.
Kristján A. Helgason.Höf. er öryrki.
Ég tek undir með Kristjáni og hvet alla sem lesa þetta til að deila því og hvetja aðra til að deila því svo ráðamenn þjóðarinar, sem við borgum launin, sjái þetta og þá komumst við að því hvort þeir eru menn eða mýs.