Minnihlutahópar ERU nú þegar undir forvirku eftirliti

MYND: Gys.is

MYND: Gys.is

Nú hefur verið talsvert fjaðrafok um yfirlýsingar Ásmundar Friðrikssonar á facebooksíðu hans þar sem hann setti stöðufærslu um hvort bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á íslandi hafi verið skoðaður.  Viðbrögð þingmanna og ráðherra hafa verið öll með sama hætti, allir vísa í stjórnarksrá lýðveldisins og lög um mannréttindi þar sem þeir vísa í að slíkt sé með öllu ólöglegt að stunda þannig rannsóknir eða forvirkar rannsóknir eins og einhver kallaði það.

Gott og vel, því staðreyndin er sú, að það eru fleiri minnihlutahópar hér á íslandi heldur en múslimar.
Hér eru atvinnulausir.
Það eru aldraðir.
Það eru öryrkjar.
En síðast en ekki síst eru það þeir sem eiga engin réttindi nema aðstoð frá sveitarfélögunum.

Allir þessir hópar ofantaldir eru settir undir lög sem brjóta 65. grein, 71. grein og 72. grein stjórnarskrárinar.

Í stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins segir í eftirfarandi greinum:

65. gr. [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.]1)

71. gr.  [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1)

72. gr.  [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.]1)

Allar þessar greinar stjórnarskrárinnar eru brotnar þegar kemur að lögum um almannatryggingar, atvinnuleysisbætur og félagslega aðstoð sveitarfélaga.

Á síðasta ári, nánar tiltekið 4. febrúar, 2014, voru samþykkt lög frá Alþingi sem gefa Trygginagstofnun Ríkisins, Vinnumálastofnun, skattayfirvöldum, LÍN, Útlendingastofnun, Ríkislögreglustjóra og fleiri stofnunum á vegum hins opinbera, heimild til að skoða allar upplýsingar um þá minnihlutahópa á íslandi sem þurfa á þjónustu þessara stofnana að halda.

Það er því átakanlegt að horfa upp á þingmennina sem samþykktu þessi lög um forvirkar rannsóknir á ofantöldum minnihlutahópum, stíga fram og fordæma orð Ásmundar.  Þetta kallast í mínum huga tvískinnungur og hræsni af hendi viðkomandi þingmanna og ráðherra.

Í ljósi þessara upplýsinga, legg ég til að allir sem bjóða sig fram til alþingis, sveitarstjórna og forseta, sæti bakgrunnsrannsóknum um hvort þeir séu hæfir til að sinna því starfi sem þeir bjóða sig fram til.
Einnig að gert verði sálfræðimat á þeim og geðpróf til að koma í veg fyrir að í þessi embætti verði kosnir siðblindir lygarar og hagsmunaaðilar auðmanna, fyrirtækja og útgerða í landinu enda sé það sanngjörn krafa almennings í landinu að það sé heiðarlegt og sannsögult fólk sem stjórni landinu.

En að öllu gamni eða kaldhæðni slepptri, þá verður að endurskoða þessi lög sem heimila opinberum stofnunum að valsa um eins og þeim sýnist um bankareikninga okkar, læknaskýrslur, lyfjaskrár og í raun allt sem snertir okkur persónulega.  Það er bara ekki boðlegt og þessi lög eru illa samin af fólki sem hefur enga siðferðiskennd til að bera enda er þetta brot á stjórnarskránni og lögum um mannréttindi að auki.

Þegar kemur að eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinar, þá er það brotið líka með lögum sem heimila TR eignaupptöku á lífeyrisgreiðslum einstaklinga.

Það er ekkert að ástæðulausu sem reiðin og hefitin í skrifum á samfélagsmiðla og umsagnakerfi fjölmiðla er alltaf að aukast.  Fólk er einfaldlega búið að fá algert ógeð á því fólki sem situr í stjórn landsins vegna þeirra lyga, svika, óheiðarleika, hræsni og siðblindu sem þetta fólk sýnir almenningi með framkomu sinni, svörum og staðhæfingum.
Fyrir slíku fólki er ekki hægt að bera nokkra einustu virðingu.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 26. nóvember 2015 — 21:51