Ég hef verið að spá í að endurvekja skrifin á þessari síðu meðan ég get lítið annað gert en að hanga í tölvunni eða glápa á sjónvarp vegna hruns í stoðkerfi líkamans.
Bakið fór eina ferðina enn og þetta byrjaði í lok janúar eða byrjun febrúar með seiðingsverkjum niður í hægri fót, ekkert það mikið að það plagaði mig og ég fór í mína göngutúra daglega enda bjóst ég við að þetta mundi lagast með því að hreyfa mig, labba og gera æfingar ásamt því að sinna því á heimilinu sem þarf að gera alla jafna.
Skrapp í tvær vikur til íslands í mars og þá fóru verkirnir að aukast aðeins en ekkert þannig að það væri til vandræða. Kom síðan heim og þetta fór að smá versna þangað til í byrjun maí að ég vakan einn morguninn með þessa þokkalegu verkina niður allan fótinn og út í tær en drattaðist samt á fætur með herkjum og komst fram í sofa við illan leik.
Fékk loksins tíma hjá lækni í gær, 3. júní og hann vill senda mig í rannsókn en biðtíminn eftir myndatökum getur orðið allt að þrír til fjórir mánuðir enda eru stjórnvöld hér í Svíþjóð búin að læra mikið af íslendingum í því hvernig spara skal í heilbrigðis og velferðarkerfunum og að sjálfsögðu kemur það verst niður á þeim sem þurfa að notast við þessi kerfi.
Nóg í bili, ég á eitthvað eftir að bomba hérna á minn hátt, þarf ekkert að vera neitt að fara í kringum hlutina frekar en fyrri daginn og læt bara allt flakka.
Já og ef einhver hefur undir höndum hina frægu leyniskýrslu um Lindarhvol þá má alveg leka henni í mig og ég skal birta hana fyrst aðrir þora því ekki.
Góðar stundir.