Í síðustu viku kom enn einu sinni upp ljótt mál sem snýr að löggæslu í landinu og því fólki sem þar starfar.
Upphaf þess máls var viðtal við mann í þættinum Harmageddon sem varð vitni að því þegar lögreglan í Kópavogi var kölluð til út í Bryggjuvör til að fjarlægja mann sem hafði sofnað ölvunarsvefni í leigubíl.
Óhætt er að segja að vitnisburðurinn og lýsingar á framgangi lögreglu hafi hreint út sagt verið viðbjóðslegar svo ekki sé kveðið fastar að orði, en vitnið lýsir því hvernig lögreglan gjörsamlega misþyrmir manninum, meðal annars með óeirðakylfum sem eru kallaðar „rotarar“.
Vitnið lýsti hann því þegar tveir lögreglumenn hafi gengu í skrokk á manni sem var ofurölvi og notuðu þeir bæði kylfur og piparúða á manninn sem var í mjög annarlegu ástandi. Vitnið segir að fórnarlambið hafi lengi legið í blóði sínu án þess að fá nokkra aðhlynningu.
Hann segir að lögreglumennirnir, stór og mikill maður á fimmtugsaldri og ung ljóshærð kona, hafi reynt að vekja manninn með harkalegum hætti eftir að hann sofnaði í leigubíl.
Samkvæmt vitinu tókst lögreglumönnunum að vekja piltinn sem hafi þá reynt að ýta lögreglunni frá sér og ganga í burtu. Þá hafi lögreglumennirnir hafi tekið upp kylfur, svokallaðar rotkylfur, og piparúða. Vitnið segir að pilturinn hafi fengið yfir 20 högg frá lögreglumönnunum og á endanum féll hann tvo metra niður af brún og á járnbita.
Síðan segir hann:
Ég kem svolítið ofarlega að þessu en ég sé manninn sem liggur í blóði sínu, það blæðir úr munninum á honum og andlitinu. Það var mikið blóð þarna.
Hægt er að hlusta á lýsingar vitnis hérna og hér og hér eru síðan fréttir af atburðinum og eftirmálum hans.
Útskýringar Gylfa Sigurðssonar, aðalvarðstjóra í lögreglu Kópavogs eru, hreint út sagt, algjört bull og kjaftæði.
Einstaklingur sem er gjörsamlega ofurövli og er vakinn upp hefur enga burði til að berja frá sér eins og berserkur, eins og Gylfi heldur fram í frétt DV um málið.
Allt þetta mál setur allar viðvörunarbjöllur í gang hjá fólki sem þekkir og hefur orðið vitni að lögregluofbeldi því þær eru því miður ófáar sögurnar um aðferðir lögreglunar og ofbeldi einstakra lögreglumann í gegnum tíðina. Skemmst er að minnast þess þegar ung kona sem var ofurölvi á Laugavegi 8. júlí 2013 var handtekin með „norsku“ aðferðinni svo hún hlaut stórskaða af þegar lögreglan henti henni utan í bekk við hliðina á lögreglubílnum. Því miður er myndbandið sem fyldi fréttinni horfið en ég mæli með að fólk skoði „Tengdar Greinar“ neðan við fréttina.
Hér er eitt dæmi um ótrúlega hegðun lögreglumanns gagnvart borgara sem tók mynd.
Þetta er ekki bara ég, þetta snertir fjölskylduna mína líka. Ef þú birtir þessa mynd þá drep ég þig. Ég kannast allveg við þig og veit allveg hver þú ert.
Það er löngu orðið ljóst, öllum þeim sem hafa fylgst með þessum málum í gegnum tíðina sem og þeim sem hafa lent í lögreglumönnum sem beita ofbeldi gagnvart borgurum þessa lands, að það verður að taka á þessum málum af gífurlegri hörku með ytra og óháður eftirliti á starfsháttum lögreglunar.
Þær eru því miður ófáar sögurnar sem sagðar hafa verið af því þegar fólk hefur verið barið og misþyrmt í lyftunni á Hverfisgötu og eins þegar fólk var keyrt ýmist upp að Rauðavatni eða út á Granda af lögreglunni og því hent þar út og það jafnvel barið sundur og saman og skilið svo eftir.
Tvær fréttir standa þó upp úr frá lögreglunni á Suðurlandi en það er þessi og þessi.
Í hvert einasta skipti sem upp kemst um ofbeldi einstakra lögreglumanna, stíga fram varðstjórar og hika ekki við að ljúga sig algjörlega bláa án þess að blikna. Þessi hegðun er orðin óþolandi og þegar maður horfir á ímyndarherferð lögreglunar á Instagram og allar krúttmyndirnar sem eiga að sýna hvað löggan er líberal, þá ofbýður manni hreinlega.
Læt þessu lokið að sinni en bendi þó á þá staðreynd, að lögreglumenn sem beita almenning ofbeldi, ráðast á og berja fólk og hafa enga stjórn á skapsmunum sínum eiga að finna sér eitthvað annað að gera því það er aldrei, ALDREI réttlætanlegt að lögreglan beiti almenna borgara ofbeldi og allra síst að misþyrma fólki þó það sé ofurölvi.