Það er mögnuð lífsreynsla að fara á sjúkrahús í dag og þurfa að liggja inni í sólarhring vegna hjaraþræðingar. Það fékk ég að reyna síðastliðin miðvikudag þegar ég þurfti að fara í slíka aðgerð og þá sá maður frá fyrstu hendi hvað illa er komið fyrir heilbrigðiskerfinu í landinu og hvað það er orðið miklu dýrara og óhagkvæmara en það þyrfti í raun að vera. Álagið á starfsfólkið er gífurlegt og þó allt væri reynt að gera til að maður hefði það sem best þarna inni þá sá maður og fann vel þá pressu sem lagt er á starfsfólkið enda minna vinnubrögðin þarna meira á verksmiðju og færibandavinnu heldur en sjúkrahús eins og staðan er í dag.
Plássleysi, útskrift sjúklinga allt of snemma og amk fimm til sjö skjúklingar liggjandi í rúmum á göngum og skotum var það sem blasti við manni svona meðal annars þó ég hafi sjálfur fengið inni á besta stað þegar ég mætti og eins yfir nóttina sem ég var þarna.
Læknirinn sem framkvæmdi þræðinguna, yndisleg kona sem gerði þetta vel hafði engan tíma í eftirfylgni nema rétt til að segja mér hvernig staðan væri eftir aðgerðina og síðan morguninn eftir til að útskrifa mig, varð hreinlega bara pirruð þegar mig langaði að fræðast meira enda mitt tilfelli þannig vaxið að ég er með hægri kransæðina gjörsamlega stíflaða af kalki og það var ekki minnsti möguleiki að komast í gegnum hana. Hún er því stífluð áfram og verður það þangað til annað verður ákveðið eða þá að ég hrekk upp af. Vinstri æðin var með talsverða þrengingu sem náðist að laga til að auka blóðflæðið og það vonandi skilar sér í auknu þreki og bættri líðan.
Þarna sá ég og fann vel hvað þetta er orðin mikil færibandavinna því læknar hafa hreinlega ekki tíma til að fara í þá eftirfylgni sem þarf í svona tilfellum og alls ekki við þá að sakast á nokkurn hátt, þetta er algjörlega á ábyrgð stjórnvalda og sérstaklega fjármála og heilbrigðisráðherrana. Það er bullandi læknaskortur á þessu sviði og það vantar líka starfsfólk á deildirnar og fleiri legupláss og stærri deildir. Það sér hver sá sem þarna fer inn og stundum er álagið svo mikið að það má skera andrúmsloftið með hníf þegar verst lætur.
Ég veit, af biturri reynslu, að núverandi stjórnvöld munu ekki bæta í rekstur sjúkrahúsana það sem af er þessu kjörtímabili né heldur í heilbrigðiskerfið almennt því þeim finnst þeim hafa gert nóg og tala sífellt um besta heilbrigðiskerfi í heimi þó svo hvert dæmið af öðru sanni annað, þvert á orð þeirra.
Það er von mín og trú, að landsmenn hafi þá gæfu til að bera í komandi kosningum, hvort sem þær verða í haust eða næsta vor, að þeir hafi vit og rænu á því að kjósa fólk og flokka sem vilja gera úrbætur í þessum málum sem og mörgum öðrum og sjálfur ætla ég að bjóða mig fram til alþingis því ég er búinn að sjá að ef ég geri ekkert í því að reyna að laga það ófremdarástand sem öryrkjar, aldraðir, sjúkir og láglaunastéttir í landinu þurfa að lifa við, þá gerir það enginn því ég þekki alla þessa hluti frá fyrstu hendi. Ja? Nema að vera aldraður reyndar.
Ég vona bara að mér endist heilsa og aldur til að klára það verkefni sem ég stefni að svo ég geti þá látið aðra taka við keflinu en mín stefna er sú, ef fólk vill mig á þing, að sitja ekki lengur en tvö kjörtímabil að hámarki en helst minna, nái ég mínum stefnumálum í gegn og þau verði að veruleika.