Það hefur talsvert borið á því á samfélagsmiðlum sem og í greinum og pistlum á netinu að Píratar séu ekki með nein stefnumál í velferðar og heilbrigðismálum. Oftast eru þetta greinar og pistlar sem koma frá einstsaklingum sem hafa ekki haft fyrir því að kynna sér stefnumótun Pírata eða þá að þetta er komið frá andstæðingum og keppinautum Pírata sem reyna að sverta flokkinn á fölskum forsendum. Annað hvort af illvilja einum saman eða vegna þess að þeir óttast að Píratar nái í meira fylgi út á stefnumálin sem þegar hafa verið samþykkt í kosningakerfinu.
En hvort heldur sem það er þá þarf að fara að upplýsa almenning um áherslur Pírata, alla vega í velferðarmálum því hópar sem samanstanda af öryrkjum og öldruðum á samfélagsmiðlum hafa haldið á lofti áróðri gagnvart okkur til þess eins að sverta okkur í augum aldraðra og öryrkja í þessum hópum.
Persónulega finnst mér það verulega sárt að sjá það fólk sem ég hef verið að reyna að berjast fyrir að fái bætt kjör á undanförnum árum, snúast gegn mér með þeim hætti sem það hefur gert og senda mér einkaskilaboð eða tölvupósta þar sem það heldur því blákalt fram að ég sé að svíkja það og málstað þess með því að bjóða mig fram fyrir Pírata.
Ég sé svikari við það fólk sem ég hef barist fyrir af því ég styð ekki einn af þeim flokkum sem stofnaðir voru upp úr hópspjalli í þeirra eigin röðum.
Að ég komi aldrei til með að vinna að bættum kjörum þeirra vegna þess að ég sé Pírati og einnig hefur fólk vogað sér að kalla mig ræningja vegna þess að ég er Pírati.
En svona í fullri alvöru segi ég við þetta fólk hér og nú, að það ætti að líta í eigin barm því þegar ég hef boðið því að vinna fyrir það, vera málsvari þess og koma fram fyrir þess hönd, þá hafa alltaf sprottið upp nokkrir einstaklingar sem hafa fundið mér allt til foráttu, rakkað mann niður og drullað yfir mann með þeim hætti að maður dregur sig út úr umræðunni og hættir að taka þátt eða vera virkur í viðkomandi hópum. Hópum sem jafnvel þeir verstu í árásunum á mig hafa hvatt fólk til að sýna kurteisi og vera ekki með dónaskap í garð annara.
Hversu mikil hræsnarar getur slíkt fólk í raun verið?
En aftur að því sem máli skiptir og það eru stefnumál Pírata og markmið þeirra, (okkar) eftir kosningar.
Velferðarmálin skipa stóran sess hjá okkur og við erum nokkrir öryrkjar sem bjóðum fram krafta okkar og vonumst til að komast á þing eftir kosningar. Við erum öll því marki brennd að þekkja hvað það er að reyna að lifa á þeim bótum sem okkur eru skammtaðar og skertar af ríkinu svo við þekkjum einna best þau kjör og þær kjaraskerðingar sem við þurfum að búa við í dag og því viljum við breyta. Okkur hefur meira að segja tekist að sannfæra fólk innan Pírata sem þekkir ekki skort eða neyð, hvernig okkar líf er og það hryllir sig við þá hugsun að lenda sjálft í þeim aðstæðum sem við lifum við og höfum gert til fjölda ára.
Tekið beint úr stefnu Pírata um endurhæfingar og örorkulífeyri.
Örorkulífeyrir á ekki að skerða möguleika örorkulífeyrisþega til öflunar annarra tekna. Öryrkjar eru líklegri að sækja á vinnumarkað sé þessi skerðing ekki til staðar. Núverandi tekjuskerðing, skerðir hæfni örorkulífeyrisþega til atvinnumöguleika og vinnuhæfni. Þannig vilja Píratar afnema búsetuskilyrði, tekjuskerðingu og tímamörk lífeyrisbóta af öllu tagi. Óæskilegir fylgikvillar tekjuskerðingar eru félagsleg einangrun og atvinnuhæfni. Fjarlægja þarf öll ákvæði laga og tengdra reglugerða er heimila skerðingu lífeyrisbóta.
Endurhæfingarlífeyrir skal ekki takmarkast við 18. mánuði og skal vera ótímabundinn. Tryggingastofnun ákveður, samkvæmt þeim gögnum sem hún hefur hvort og hvenær endurhæfingarlífeyrisþegi færist yfir á almenna örorku.
Aðra leið, til sparnaðar fyrir samfélagið og skattgreiðendur væri að færa þetta ákvörðunarvald til heimilislækna fyrir endurhæfingarlífeyrir og viðkomandi sérfræðings eða teymis fyrir varanlegt örorkumat.
Í núverandi kerfi eru einnig lagðar miklar skyldur og kvaðir á bótaþega um upplýsingar og skýrslugerðir en slíkt eiga veikir einstaklingar sem eru að hefja endurhæfingu erfitt með að gera án aðstoðar. Einfalda þarf umsóknarferlið svo að læknir geti sent inn rafræna umsókn um endurhæfingu og örorku án þess að sjúklingur þurfi að standa í því sjálfur. Einnig má skoða betur orðalag almannatrygginga í samskiptum við umsækjendur og þjónustuþega þar sem neikvætt orðalag er ríkjandi í samskiptum við bótaþega.
Í raunheimum eru öll kerfi samtengd. Tryggingastofnun Ríkisins veit, innan við sólahrings, hvenær bótaþegi flytur lögheimili sitt eða fær launað starf (í gegnum kerfi Ríkisskattstjóra og Þjóðskrá) og því eru möguleikar á að gera brottför af endurhæfingu sjálfvirka að mestu leyti.
Stefnan hefur verið samþykkt og verður farið að vinna í þessum málum strax að loknum næstu kosningum.
Síðan langar mig að hvetja fólk til að lesa eftirfarandi stefnur sem hafa verið samþykktar hjá okkur því þar kennir margra grasa.
Tannlækningar verði almennur hluti af sjúkratryggingum
Þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum
Og að lokum vísa ég í öll okkar stefnumál sem hægt er að skoða og yfirfara.
Það er fátt ömurlegra og leiðinlegra en að standa í stöðugu stríði við það fólk sem maður býður sig fram til að vinna fyrir þegar það sjálft rær að því öllum árum að gera manni erfiðara fyrir með ósannindum um heilindi manns.
Þannig fólki vil ég ekki vinna með en ég skal vinna fyrir það af því það fólk er í sömu sporum og ég hef verið frá því ég missti heilsuna og ég get ekki lengur horft upp á það óréttlæti sem öryrkjar og aldraðir verða fyrir í þessu þjóðfélagi.
En hvernig á svo að fjármagna þetta, er spurt?
Jú, þetta er hægt að fjármagna með ýmsum hætti en sterkarst kemur inn stefna í sjávarútvegsmálum sem kynnt verður fyrir alþjóð á fimmtudaginn 11. ágúst í Þorlákshöfn og þá er ég hræddur um að árásirnar byrji fyrst af fullum þunga frá hagsmunaaðilum sem telja sig eiga fiskinn í sjónum kringum landið, en fyrir þá bendi ég sérstaklega á fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða og bið þá að skoða vandlega hvað merking þeirrar greinar þýðir í raun og veru.
Minni á að ég sækist sérstaklega eftir öðru sæti í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi en þygg að sjálfsögðu í auðmýkt hvert það sæti sem mér verður úthlutað af kjósendum.
YARRR!