Verbúðarlíf: Formáli

Mikið er rætt og ritað um þessar mundir um þættina Verbúðin sem sýnd er í sjónvarpinu og allir virðast hafa skoðun á og deila sinni upplifun af þeim, hvort heldur þeir voru íbúar þeirra þorpa þar sem verbúðir voru en einnig nokkrir sem lýsa sinni upplifun af verbúðarlífinu.  Lífi sem var brjáluð vinna og langur vinnutími, góð laun en líka skuggahliðum þessa lífs því margir þeirra sem þarna komu og störfuðu áttu við sína djöfla að etja sem gat verið alkahólismi eða eiturlyfjaneysla og margir réðu illa eða ekki við hana þegar á reyndi og var það áberandi í brælutíð eða þegar aflabrestur var af öðrum orsökum.

Við sem lifðum þessa tíma munum þá vel og þó ég persónulega hafi ekki séð þættina en lesið lýsingar annara af því sem gerist í þáttunum inni á verbúðunum og í fiskverkuninni, þá get ég sagt að ég hef kinkað kolli og sagt við sjálfann mig; -Nákvæmlega svona var þetta.  Slysin, drykkjan, kynlífið, slagsmálin, drykkjan og eiturlyfjaneyslan, þetta var allt þarna og sumt verra í raunveruleikanum en í þáttunum.

Ég er að spá í að setja inn á næstunni stutt minningarbrot frá mínum verbúðarárum en ég nefni hvorki staðsetningu, ár né dag og nöfnum verður breytt þar sem sumt af því fólki sem nefnt verður til sögunar er látið og annað á við sína djöfla að glíma enn þann dag í dag.  Þetta verður ekkert samhangandi, bara stutt minningarbrot úr daglegu lífi verbúðarmanns yfir nokkurra ára tímabil.

Updated: 15. janúar 2022 — 09:23