Maður hlýtur að spyrja sig hvað er í gangi þegar fólk mætir með bráðveikt barn á bráðamóttökuna og er neitað um afgreiðslu en sagt að hringja í 112.
Sigrún Einarsdóttir skrifar eftirfarandi stöðufærslu á fésbókarsíðu sína:
Mætti á bráðavaktina í morgun og upplifði furðulegan farsa:
Ég: Góðan dag, er með astmaveikt barn hérna með brjóstverki sem þarf að skoða.
Kona í móttöku: Nei, við getum ekki sinnt því, þú verður að hringja í 112.
Ég: Ha?
Konan í móttöku: Já, það er læknaverkfall, hringdu í 112.
Þarna er ég farin að sjá fyrir mér sjúkrabíl koma brunandi frá, tja bráðavaktinni… og keyra barnið í ofboði uppá, ja… bráðavakt? Treysti mér ekki til að orða þessar fáránlegu hugsanir við mótökudömuna svo ég sagði bara: Ok, má ég hringja hjá þér?
Kona í móttöku um leið og hún réttir mér símann: Gjörðu svo vel.
Maður hjá 112: 112
Ég: Góðan dag, ég er stödd hér á bráðavaktinni með astmaveikt barn með brjóstverki og var beðin að hringja í 112.
Maður hjá 112: Já, nei, við tökum ekki við útköllum frá bráðavöktum á daginn.
Ég: Ok, ertu til í að endurtaka þetta við dömuna hérna í móttökunni?
Maður hjá 112: Alveg sjáflsagt.
Svo rétti ég henni símann og þau ræða eitthvað saman og svo kveður hún, segir mér að hinkra aðeins, fer svo á bakvið og ber málið undir her af konum sem var þarna á bakvið á einhverju iði og ég sest og bíð. Eftir 5 mín. er kallað á mig aftur.
Kona í móttöku: Já, þú verður að hringja í 112 úr þínum eigin síma.
Ég: Ha?
Konan í móttöku: Já, annars taka þeir ekki við útkallinu.
Þarna er ég farin að sjá fyrir mér að ég verði örugglega bara að fara heim aftur og hringja þaðan í 112 og láta þá senda sjúkrabíl af bráðavaktinni (!!) og keyra okkur niður á bráðavakt (!!!) aftur til að fá afgreiðslu á bráðavaktinni (!!!!) en fannst það svo fáránlegt að ég ákavð að hlýða bara.
Maður hjá 112: 112
Ég: Já góðan dag, ég er stödd hérna á bráðavaktinni með astmaveikt barn með brjóstverki og var beðin að hringja í 112 úr mínum eigin síma.
Maður hjá 112: Ég var að segja þér að við tökum ekki við símtölum frá bráðavaktinni á daginn, varst það ekki þú sem hringdir áðan?
Ég: Jú, en nú er ég að hringja úr mínum eigin síma, það átti víst að gera gæfumuninn.
Maður hjá 112: Leyfðu mér að tala aftur við þessa konu.
Ég: Gjörðu svo vel.
Svo rétti ég konunni símann sem varð alveg hissa og fór eitthvað að muldra um að hún væri nú bara að gera það sem sér væri sagt, tók svo við símanum og talaði við kallinn, kvaddi og lagði á og sagði svo eitthvað á þá leið að það væri bara enginn til að sinna þessu tilfelli og ekkert sem hún gæti gert í því, hún væri bara starfsmaður í móttöku. Þá missti ég aðeins kúlið og hvessti (eða hækkaði, sennilega bæði) röddina: Ertu að segja mér að enginn ætli að gera neitt fyrr en barnið lendir í andnauð?!?
Grey konan varð eitthvað hvumsi og sagði: Ja, ég verð nú að ræða þetta hérna við yfirmann, bíddu aðeins.
Ég fór og settist niður og eftir nokkrar mínútur var okkur vísað inn á bráðamóttöku þar sem hjúkrunarfræðingur tók á móti okkur. Hún þurfti auðvitað ekkert að gera annað en að mæla súrefnismettunina og hlusta lungun til að komast að því að verkirnir voru alls ótengdir öndunarfærum, sem var auðvitað það sem maður hafði mestar áhyggjur af. Eftir smá umræður og vangaveltur um einkennin var svo komist að þeirri niðurstöðu að líklegast væru þetta stoðverkir og að íbúfen og parkódín væri lausnin. Þar með var málið dautt og barnið gat farið í skólann.
Skil alveg að hjúkrunarfræðingar eigi ekki að vinna störf lækna en þegar astmaveikt barn með brjóstverki mætir á bráðamóttöku þarf einhver að vera tilbúinn til að bregðast við því. Er svo hneyksluð á þessu skipulags- og samskiptaleysi að ég næ hreinlega ekki upp í nefið á mér en ég er í alltof góðu skapi til að láta þetta eitthvað slá mig útaf laginu og finnst þetta eiginlega meira fyndið bara en nokkuð annað. Eigið þið góðan dag alle sammen og í guðsbænum ekki fara uppá bráðamóttöku nema þú sért hreinlega í andarslitrunum og ekki gleyma að hringja í 112 úr eigin síma fyrst.
Nú ætla ég ekki að dæma aumingja konuna sem var í afgreiðslunni því hún fer bara eftir því verklagi sem henni er sagt að fara eftir, en þarf ekki eitthvað að skoða hvort þetta verklag sé eitthvað verulega mikið bilað?
Dæmi hver fyrir sig.