Umhverfishryðuverk á hálendinu og fjölmiðlar þegja.

Snjó og sandi rutt í háa ruðninga. Mynd: Benedikt Magnússon

Á facebookhópnum Ferðafrelsi hafa verið settar inn nokkrar myndir af einhverjum mestu  skemdum á hálendi Íslands hvar ruðst hefur verið með hefil í gegnum stórt landsvæði til að auðvelda kvikmyndaliði ferðir sínar á tökustaði á hálendinu.  Sá sem setti myndirnar inn heitir Benedikt Magnússon og er ábyrgur jeppamaður og þrautreyndur í fjalla og jöklaferðum.

Að undanförnu hafa fjölmiðlar verið ansi duglegir að birta myndir af hjólförum á hálendisleiðum með stórum upphrópunum um landskemmdir ásamt viðtölum við fólk sem aldrei hefur á þessa staði komið og frussar það út úr sér stórum yfirlýsingum á ástandi mála.  Sama fólk og vill láta loka öllu hálendinu fyrir umferð bíla svo aðeins göngufólk geti notið náttúru landsins á hálendinu.

Benni segir sjálfur frá þessari upplifun sinni með þessum orðum; „Ég var að koma niður af Vatnajökli sunnanverðum á sunnudaginn og rak þá í rogastans er ég kom niður undir styttinginn við Drekavatn. Þar kom ég inn á þennan líka fína heflaða veg sem að lá beint að gríðarmiklum framkvæmdum, að því er mér skilst vegna kvikmyndunar. Þarna hefur vegurinn um styttinginn verið heflaður á bilinu 20 – 50 cm ofaní jarðveginn og að auki verið bætt nokkrum kílómeturm af sambærilegum vegi við til að komast að hentugum tökustað. Vegurinn um styttinginn er eins og allir vita ógreinilegur, en stikaður slóði sem hefur til þessa horfið alveg á hverjum vetri – hann gerir það tæplega úr þessu… Á þessu sama svæði hefur allt farið á hliðina út af mótorhjólaförum í sandi sem að eru löngu horfin – en hvorki DV né MBL sjá ástæðu til að fjalla um þetta eða þann sóðaskap sem óhjákvæmilega fylgir þessum framkvæmdum þarna á svæðinu. Ætli Vatnajökulsþjóðgarður og UST hafi gefið sitt leyfi fyrir þessu ?  Mér skilst að þessi hefill hafi ekki verið á vegum Vegagerðarinnar heldur hafi þarna verið um einkaframtak kvikmyndagerðarfólksins að ræða. – Veit þó ekkert um hvaða, ef einhver, leyfi eru fyrir þessu.“

Það er alveg ljóst hverjum sem sér þessar myndir, að þarna hafa verið framkvæmdir í gangi sem koma til með að verða sár á landinu til langs tíma enda á þetta eftir að fyllast af vatni þar sem þetta er niðurgrafið og verða þá þarna aurbleytur sem aftur verða til þesss að fólk fer að keyra utan við hefluðu slóðina sem aftur kallar á enn meiri landskemmdir.
Þeir sem stóðu fyrir þessum gjörningi, hvort heldur með eða án leyfis þurfa að svara fyrir þetta afrek sitt og hvort þeir hafi haft leyfi til þessara framkvæmda.

Það er vonandi að fjölmiðlar taki við sér og reyni að komast að því hverjir voru þarna á ferð, hvers vegna og með hverra leyfi þessar framkvæmdir voru gerðar.

Hér má sjá allar myndirnar hans Benna.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 24. maí 2012 — 09:09