Í tvö ár hafa öryrkjar beðið eftir að dómur í máli gegn ríkinu og TR vegna brota á 76. grein stjórnarskrár verði felldur.
Tilgangur málsins er að fá staðfestingu dómstóla á því að bætur til einstaklingsins dugi ekki til eðlilegrar framfærslu og að ríkið hafi þannig ekki uppfyllt skyldu sína til fullnægjandi aðstoðar eins og stjórnarskrá lýðveldisins kveður á um.
Málið er rekið til þess að fá viðurkenningu dómstóla á því að bætur þurfi að hækka verulega (tæplega tvöfaldast) til að duga sem framfærsla. Einnig er gerð krafa um að dómstólar viðurkenni að bætur eigi að hækka milli ára og að hækkunin taki mið af launaþróun en þó þannig að bætur hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs samanber 69. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Ríkið og TR kröfðust frávísunar málsins en því var hafnað með úrskurði héraðsdóms 25. október 2013.
Stefnandi óskaði eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður og óvilhallur matsmaður til að meta hversu miklar tekjur stefnandi þarf að hafa á mánuði til þess að vera kleift að lifa mannsæmandi, eðlilegu lífi. Ríkið og TR kröfðust frávísunar á matsbeiðninni en með úrskurði 20. mars 2014 var þeirri kröfu hafnað.
Ríkið og TR kærðu síðastnefndan úrskurð til Hæstaréttar.
Ekkert hefur síðan heyrst af málinu frá því í apríl á þessu ári.
Þróun bóta öryrkja frá TR 2008 til 2013.
Þegar um svona mikið hagsmunamál fyrir stóran hóp fólks er að ræða, fólk sem nær aldrei endum saman yfir mánuðinn og þarf að leita til hjálparstofnana eftir mat og fatnaði, þá er það gjörsamlega óþolandi að horfa upp á dómstóla draga málin á langinn svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir.
Það er heldur ekki stjórnvöldum til framdráttar eða þeim ráðherrum sem hafa með velferðarmálin í landinu að gera, að krefjast frávísunar á réttindamálum eins og stjórnarskrárbundinn skylda þeirra sé eitthvað sem þeim komi ekki við. Í þeim efnum hlýtur maður að horfa til ábyrðgar viðkomandi ráðuneytis og ráðherra hvernig hann vinnur störf sín.
Allt þetta mál er áfellisdómur yfir þeim ráðherrum sem komið hafa að því sem og Tryggingastofnun Rikisins og ber starfsemi þeirra vitni um einbeittann brotavilja á 76. grein stjórnarskrárinnar sem vitnað er í hér að ofan.
Öryrkjar þurfa að fara að láta í sér heyra og Öryrkjabandalagið að fara að vinna sína vinnu sem er að standa vörð um hagsmuni öryrkja í landinu og kjarabaráttu þeirra en ekki þegja þunnu hljóði mánuðum saman eins og nú hefur verið.