Tilgangslaust peningabruðl lögreglu á Selfossi

Lögreglubíll við innkeyrsluna hjá Vélsmiðjunni og mótorhjólalögga á planinu hinu megin.

Lögreglubíll við innkeyrsluna hjá Vélsmiðjunni og mótorhjólalögga á planinu hinu megin.

Ég hef oft heyrt lögregluna á lansbyggðinni kvarta sáran undan því að geta ekki sinnt þeim verkefnum sem upp koma hjá þeim um helgar og hér á Selfossi er það engin undantekning frekar en hjá öðrum umdæmum á landinu.
Svo mikið hefur verið skorið niður að ekki er hægt að halda úti eðlilegu eftirlit um helgar og hefur það mjög oft komið fyrir að lögreglan þarf að „úllen, dúllen, doffa“ í hvaða verkefni hún á að henda sér ef margir hlutir gerast á sama tíma í umdæminu.

Því brá manni vægast sagt nokkuð hressilega núna í kvöld þegar ég var á leiðinni í afmælisgrillveislu hjá bifhjólaklúbbi hér í bæ, að þegar ég beygji inn á Gagnheiðina, þá er hún víggirt af sex lögregluþjónum, fjórum einstaklingum á tveim bílum og tveim bifhjólalögreglumönnum sem skipuðu mér að stoppa, kröfðust ökuskírteinis og persónulegra upplýsinga um mig, hvaða samtökum eða klúbbi ég tilheyrði.

Ég skal játa að ég varð frekar hvumsa við og fannst þetta í hæsta máta undarlegt háttarlag, snemma á laugardagskvöldi og ekki bættu útskýringar lögreglumannsins úr skák þegar hann svaraði því til að þetta væri bara „venjubundið“ eftirlit hjá þeim.
Ég skal alveg játa að þarna fauk í mig.
Hélt lögreglumaðurinn að ég væri hálfviti með hor og slef?
Greinilega, miðað við útskýringuna.

Vel vaktað frá vestri líka og setið fyrir öllum sem komu inn í Gagnheiðna

Vel vaktað frá vestri líka og setið fyrir öllum sem komu inn í Gagnheiðna

Þrátt fyrir að verða alveg fjúkandi vondur ákvað ég að halda kúlinu og segja ekki orð, en það slapp samt út úr mér ein setning og hún var: „Einmitt það já“.

En skýringin var svo sannarlega ekki sú að þetta væri „venjubundið eftirlit“, ekki frekar en ég væri kóngurinn í Svíþjóð eða Noregi, því lögreglan mætir ekki og lokar heilli götu í iðnaðarhverfi á laugardagskvöldi til að vera með „eftirlit“ og þaðan af síður „venjubundið“ því lögregluhjól sjást ekki á Selfossi nema á ferðinni í gegnum bæinn og aldrei í iðnaðarhverfinu.

Nei ástæðan var sú að bifhjólaklúbbur sem heitir Skull & Bones var með afmælisgrill hjá sér og von var á fleira hjólafólki og fjölskyldum þeirra, þar með talið konur, börn og unglingar að hittast, fá sér grillmat og hafa gaman eina kvöldstund.
Það er virkilega slæmt orðspor sem lögreglan fær á sig þegar hún hagar sér með þessum hætti, að bruðla með þær fjárveitingar sem hún fær til að hafa eftirlit með bifhjólafólki sem kemur samatn til að grilla og halda upp á afmæli ásamt fjölskyldum og vinum.  Slík sóun á almannafé er hreint út sagt ámælisverð og ættu yfirmenn lögreglunar sem tóku þessa heimskulegu og illa grunduðu ákvörðun sem byggð er á fordómum einum saman aðeins að fara að hugsa sinn gang og hvort þeir yfir höfuð séu hæfir til að fara með stjórn lögreglunar.

Þetta er í alla staði skammarleg hegðun og ekki síst þegar haft er í huga hversu heimskulega lögreglumenn á vettvangi haga sér með því að reyna að ljúga sig út úr þessari ömurlegu stöðu sem þeir voru settir í af yfirmönnum sínum.
Ég skil aumingja mennina vel.
Þeir dauðskömmuðust sín fyrir ákvörðun yfirmanna sinna og við sem vorum í grillveislunni gátum ekki annað en vorkennt þeim fyrir að hafa yfir sér svona fordómafulla og afburðarheimska yfirmenn sem kunna ekkert með fjárveitingar lögreglunar að fara.

Nú verður spennandi að vera á hjólinu næstu daga og sjá hvað ég verð oft stoppaður vegna þessa pistils.

Updated: 7. maí 2016 — 23:00