Til hvers að halda áfram?

Sá er líknar.

Sá er líknar.

Það undarlega ferðalag sem kallað er í daglegu tali mannsævi er mislangt og farsælt eins og við erum mörg á þessari pláhnetu og þó svo margir hafi upplifað sömu hluti um lengri eða skemmri tíma þá er æviskeið hvers einstaklings einstakt því enginn gengur í spor annara allt sitt líf.

Það er stundum sagt að lífið byrji fyrst eftir fimmtugt, (sumir segja fertugt) en allt ber það að sama brunni fyrir rest.  Því líkur nefnilega með því að við deyjum.  Og þegar við skiljum við þetta líf þá förum við eins og við komum, nakin, allslaus og ein.

Þá skiptir engu máli hvað við höfum sankað að okkur af veraldlegum auð, hann tökum við ekki með okkur þegar við skiljum við en við getum látið minnast okkar fyrir það sem við höfum gert og sagt þann tíma sem við lifðum og þá skiptir algjörlega í tvö horn hvað það varðar.

Sumir velja það að lifa sínu lífi í efnishyggju með því að raka að sér auð og dauðum hlutum en gefa dauðann og djöfullinn í allt og alla í kringum sig svo lengi sem þeir geta miklast af auð sínum og sýnt velgengni sína í eignum sínum og fjármunum meðan aðrir kjósa nægjusemi og skapa sér og sínum góða afkomu sem dugar þeim til lífsviðurværis, tómstunda og fyrir jarðarför sinni þegar þar að kemur.

Þetta fólk sem er í fyrri hópinum, hikar ekki við að ljúga, svíkja og jafnvel stela til að auka auð sinn og sumir ganga svo langt í þessu að þeir gera allt til að komast til valda í þjóðfélaginu til að geta traðkað á og sölsað undir sem mest af auði þjóðarinar og þeim er svo nákvæmlega sama um fólkið í landinu meðan þeir sjálfir, fjölskyldur þeirra og vildarvinir geta auðgast sem mest.

Á sama tíma hika þeir ekki við að traðka á fólkinu sem skapar auðinn, verkafólki, sjómönnum og lægst launuðu stéttum landsins.  Hika heldur ekki við að einkavæða allar stofnanir sem heyra undir ríkið og ríkið á í raun að fjármagna með sköttum fólks, sbr heilbrigðis og velferðarkerfið.

Þeir hika ekki við að hagræða sannleikanum sér i vil til að blekkja almenning með fallegum hugtökum eins og: „Í þágu fólksins“, „Fyrir heimilin í landinu“ en það sem er þó verst af öllu og mesta lygin: „Stétt með stétt“.

Þegar síðan það er borið upp á svona fólk að það hafi svikið, logið og stolið eru viðbrögðin hrokafull.  Talað niður til allra sem ekki eru þeim sammála og gagnrýna, sagt að þeir séu bara öfundsjúkir og kunni ekki að meta það sem snillingarnir gera.

Þeir neita að horfast í augu við sjálfa sig.  Neita að viðurkenna að þeir hafi rangt fyrir sér.  Neita að þeir steli frá þeim fátækustu til að gefa þeim ríkustu en hreykja sér af verkum sínum með því að vitna í tölur sem allir vita að eru ekkert annað en blekking til að réttlæta gerðir þeirra.

Þeir neita að horfast í augu við þá staðreynd að þeir hafa með verkum sínum sett þúsundir manns á vergang vegna stefnu sinnar þar sem aldraðir, öryrkjar, atvinnulausir og lægst launuðu stéttir landsins ná ekki endur saman yfir mánuðinn.

Þeir hafa hækkað alla skatta á þá sem eru í lægstu þrepum tekjulega séð meðan þeir hafa afnumið og lækkað skatta hjá þeim best settu í þjóðfélaginu og síðan hreykja þeir sér af því að hafa aukið jöfnuð í þjóðfélaginu þó allir sjái hið gagnstæða.

Svo er það reyndar þriðji hópurinn.  Sá sem hefur gefist upp og horfir út í horn þar sem kuflklæddur skuggi með beittann ljá vomir yfir þeim og bíður síns tíma.  Það er fólkið sem bíður eftir líkn því það sér enga framtíð í fátæktinni sem fyrsti hópurinn hefur skapað og enga leið út nema sá kuflklæddi miskunni sig yfir þau og losi þau úr eymdinni.

Ég sjálfur er að detta inn í þriðja hópinn því í mörg ár hef ég reynt að berjast fyrir réttlæti og gegn græðgis-auðvaldinu sem stjórnar þessu landi og allt er að leggja í rúst, en því miður með litlum árangri.

Genatísk heimska íslendinga og síðan almenn heimska fólks sem gleypir við lygum núverandi ráðamanna og fylgir þeim í blindni hefur komið þjóðinni í þá stöðu sem hún er.  Fyrst með einkavæðingunni um og upp úr aldamótunum að meðtöldu hruninu og síðan aftur núna þegar aðgerðir þeirra stefnir þjóðinni aftur lóðbeint í annað hrun.

Ástæaðn er sú að það lærði enginn neitt á því sem gerðist árið 2008.  Hvorki stjórnmálamenn, hagfræðingar eða almenningur í landinu.  Auðtrúa landinn gleypti við loforðum gjörspilltra og siðblindra stjórnmálamanna sem lofuðu fólki peningum í stórum stíl til að komast til valda en voru varla sestir í stólana þegar allt var svikið.

Það er vægast sagt ömurlegt þegar maður fer erlendis og skammast sín fyrir að segjast vera íslendingur, vitandi að þjóðin lærir aldrei af reynslunni og kýs endalaust yfir sig siðblindingja, lygara og svikara sem gera aldrei neitt fyrir þjóðina en hygla auðvaldinu á kostnað fólksins.

Með tímanum deyfist maður og hættir að hrópa út í tómið þar sem illa gefnir landar manns reyna að skrimta í tveim til þrem vinnum til að ná endum saman segja manni að halda kjafti af því við íslendingar höfum það í raun svo gott.

Þetta sama fólk þekkir ekki fjölskyldu sína, vinir þekkjast ekki og þeir eiga sér aðeins eitt líf sem er að vinna nógu lengi og nógu mikið til að vera komnir á örorku með útslitinn skrokk fyrir fertugt.

Þegar síðan þetta fólk er komið á bætur frá ríkinu, þá vaknar það upp við vonadan draum, draum sem breytist í martröð staðreynda þar sem almenningur er í raun bundinn í fjötra fátæktar með allskonar hömlum, skerðingum og lágum tekjum.

Í þeirri stöðu gefast margir upp og taka líf sitt því þeir sjá enga aðra leið út úr fátæktinni.  Hvert líf er dýrmætt og bak við hvert sjálfsmorð er fjölskylda, vinir og samstarfsfólk sem er í sárum á eftir.

Ábyrðgina ber fólkið sem stjórnar landinu á hverjum tíma og gerir ekkert til að bæta líf eða afkomu þessa fólks en heldur áfram í hroka sínum, afneitun og sjálfumgleði að ljúga, bæði að sjálfu sér og þjóðinni að það sé að gera rétt og að sé að hugsa um hag þeirra verst settu.

Nú styttist í versta árstíma fyrir aldraða og öryrkja.
Jólin.

Þetta er tíminn sem flest sjálfsmorð verða innan þessa hóps því það sér enga leið til að halda jól eða gefa afkomendum sínum gjafir eða eiga fyrir jólamat.
Ábyrgðin er áfram og mest þeirra sem stjórna landinu hverju sinni því lygar þeirra og svik eru orsök sjálfsmorðana.

Í sjálfumgleði sinni og hroka sest þetta fólk á kirkjubekk á aðfangadag þegar jólin eru hringd inn, með helgislepjusvip á andlitinu og blóðugar hendur.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa