Það er ekki seinna vænna en að kalla eftir því að sunnlendingar fari að kynna sér það fólk sem ætlar að bjóða sig fram í prófkjöri Pírata í suðurkjördæmi fyrir næstu kosningar en fimmtudaginn fjórða ágúst næstkomandi ætla frambjóðendur að kynna sig og stefnumál sín á Hótel Örk í Hveragerði. Sunnlendingar eru hvattir til að mæta og bauna spurningum á frambjóðendur til að finna út áherslumál hvers og eins og einnig til að átta sig betur á stefnu flokksins í heild sinni.
Það er nú þegar hægt að kynna sér frambjóðendur með því að fara á heimasíðu Pírata og skoða listann og kynningu á hverjum og einum frambjóðanda en það segir sig sjálft að best er að hitta fólk í eigin persónu, ræða við það og mynda sér síðan skoðun út frá því þar sem þá er hægt að ræða nánar fyrir og eftir fundinn við hvern og einn og auka þannig og dýpka skilning sinn á viðkomandi frambjóðanda.
Internetið er gott upp að vissu marki en persónuleg kynning og samræður á staðnum skila alltaf meiri og dýpri þekkingu á þeirri persónu sem um er að ræða og því vil ég hvetja fólk til að gefa sér tíma til að láta á það reyna enda verður mikið spjallað og partí eru alltaf skemmtileg.
Hlakka til að sjá ykkur og ræða við ykkur í raunheimum um landsins gagn og nauðsynjar og minni líka á að hægt er að kynna sér stefnmótun Pírata í kosningakerfinu okkar.
YARR!