Ég er búinn að sjá í gegnum plottið hjá ríkisstjórnarflokkunum.
Þetta er eiginlega svolítið sniðugt hjá þeim þegar maður fer að spá í þessu og almenningur fellur jafn auðveldlega fyrir þessu eins og kosningaloforðunum í vor, sem aftur segir manni hvað það er auðvelt að gabba íslendinga og ljúga þá stútfulla hvað eftir annað.
Þetta er að vísu illa gert og ljótt en eins og við vitum þá sitja núna við völd einstaklingar sem hafa hvorki til að bera neitt sem heitir samviska eða siðferði.
En hvernig stendur á því að hægt er að ginna fávísa íslendinga aftur og aftur með sömu lygunum?
Kanski vegna þess að meirihluti þessarar þjóðar eru auðtrúa bjálfar sem hafa ekki getu né vilja til að nota tróðið á milli eyrnana til að greina á milli þess sem núverandi ríkisstjórnarflokkar segja.
Ég veit að það er ljótt að segja þetta um landa sína en því miður sýnir reynslan eftir kosningarnar í vor að þetta er sannleikurinn.
En aftur að plottinu sem ég minntist á.
Loforðin í vor voru lygini líkust hjá Framsóknarflokkinum og Sjálfstæðisflokkinum og stór orð voru viðhöfð gagnvart þeim flokkum sem áður höfðu setið við stjórn landsins síðustu fjögur ár. Þeir flokkar voru ekki með gífuryrði og stór loforð enda sýnt að það væri ekki hægt að standa við þau. Hins vegar voru þeir með raunhæfar væntingar í ríkisfjármálunum miðað við það sem núverandi stjórnarflokkar buðu upp á.
Stjórnarflokkarnir núverandi, D og B, gerðu hins vegar í því að draga fram hvernig VG og Samfylkingin hefðu svikið fólkið í landinu með því lofa skjaldborg um heimilin sem síðan varð að skjaldborg um bankana og fjármálafyrirtækin. Það er sannleikur.
Hitt sem þeir sögðu ekki satt um eða afneituðu hvað eftir annað voru þeirra eigin orð og hegðun á þinginu en ástæða þess að ekki var hægt að klára mikið af þeim málum sem hefðu komið sér vel fyrir þjóðina voru stoppuð í þinginu með málþófi sem á sér enga hliðstæðu á alþingi íslendinga. Málum var þannig haldið í gíslingu vikum saman af þeim flokkum sem nú sitja við stjórnvölin en einhvern veginn tókst þeim að telja fólki trú um að allt þetta væri þáverandi stjórnarflokkum að kenna og fólk trúði lyginni og kaus yfir þjóðina siðblint hyski sem á með réttu heima á geðveikrahæli.
Síðan tóku Framsókn og Sjálfstæðisflokkur við völdum og haldið var sumarþing þar sem búið var að lofa í kosningabaráttunni að afnema tekjutengingu lífeyrisþega laga kjör þeirra aftur til ársins 2009.
Það var svikið því aðeins þeir efnamestu fengu þá leiðréttingu en enginn af þeim sem verst voru settir og með minnstu tekjurnar.
Veiðgjaldið sem átti að setja á útgerðirnar var fellt niður og fuku þar átta miljarðar út um gluggann af tekjum ríkisins og beint í vasa útgerðarmanna. Best og vel stæðustu einstaklingana á íslandi.
Virðisaukaskattur sem hefði getað skilað nokkrum miljörðum í ríkiskassan var slegin af.
Ekkert bólaði á skuldaniðurfellingu hjá skuldugum heimilum í landinu eins og lofað hafði verið með orðunum; „Engar nefndir aðeins aðgerðir“ eins og Bjarni Ben hafði hamrað á alla kosningabaráttuna og Sigmundur Davíð hafði haldið fram að 300 miljarðar lægju hreinlega á lausu til að efna það loforð strax.
Reyndin varð sú að allt fór þetta í nefnd og þegar fjallið tók joðsótt fæddist lítil mús sem Sigmundur kallaði „Heimsmetið“.
Litlir 80 miljarðar verða settir til bjargar heimilunum með ríkisábyrgð, skattafslætti og með því að nota aukalífeyrissparnað sinn, (sem fæstir reyndar eiga til) í stað þess að gera eins og lofað var.
Svikin eru út um allt, sama hvert litið er í störfum þessarar ríkisstjórnar.
Agnar Kristjánsson skrifar beittan pistil um hvernig starfsemin stjórnarinnar hefur verið síðsutu vikuna og hér er smá úrdráttur sem vert er að skoða mjög vel.
En nú er viðbúið að einhver segi:
„Bíddu, margt af þessu kemur frá Vigdísi Hauks.“
Það er rétt.
EN.
Framsóknarmenn hafa aldrei mótmælt málflutningi hennar fyrr en kannski aðeins nú þegar ljóst var að fólk varð það reitt yfir þeim að það gæti haft áhrif á flokkinn.
Þá er farið í „damage control“.
En áður hefur ekki heyrst múkk frá samflokksþingmönnum, flokksmönnum sem skrifa jafnvel pistla á vefmiðla Framsóknarflokksins um að Sigmundur Davíð sé líklegast leiðtoginn sem Íslendingar hafa verið að leita að, og heldur ekki stuðningsmönnum.
Það hefur heldur ekki haft áhrif á stöðu Vigdísar innan flokksins á síðasta kjörtímabili og hvað þá þessu.
Lítið bara á hvernig staða hennar er innan flokksins.
Hún er aðalþingmaður þeirra í öðru Reykjavíkur-kjördæminu.
Hún var gerð að formanni fjárlaganefndar.
Og hún var valin sérstaklega til að sinna störfum í hagræðingarhópnum svokallaða sem skilaði hinum Framsóknarmanni hópsins í aðstoðarmannastöðu ráðherra.
Svona um svipað leyti og hann skipti við Vigdísi um að vera formaður í Heimssýn.
Það er því alls ekki hægt að segja að hún hafi bara verið að tala „sóló“ þegar hún er verðlaunuð og vernduð svo.
Því hún talar hreinskilnislega fyrir hönd flokks og ríkisstjórnar.
Og er einlægt andlit beggja.
En þó sérstaklega plebbaflokkskomplexa Framsóknar.
Pistillinn er mun lengri og hlekkur á hann hér ofan við kvótið.
En steininn tók þó úr þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram því þar er skorið niður á öllum sviðm í kerfinu og í sumum málaflokkum er farið að brjóta bein. Heilbrigðiskerfið er gott dæmi um það.
Síðan þegar allt verður vitlaust og fylgið hrynur af stjórnarflokkunum, þá finna þeir óvænt fjármuni til að setja í málaflokkana og nú, eftir alla þá umræðu sem hefur verið um heilbrigðismálin, skal setja inn 300 miljónir í einum hvelli.
En þá kom skellurinn.
Fjármunirnir sem átti að nota, þessar 300 miljónir skyldi sækja á breiðustu bökin í landinu. Einstæðar mæður, öryrkja, aldraða og sjúka með því að skera niður vaxtabætur og barnabætur.
Þjóðin trylltist og ferlið varð að farsa.
Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa orðið tvísaga í fréttum og umræðum um hvort til hafi staðið að lækka barnabætur í komandi fjárlögum.
Helgi Hjörvar alþingismaður kallaði eftir upplýsingum úr ræðustól Alþingis í gær um hvort rétt væri að lækkun barnabóta væru ekki getgátur heldur formleg samþykkt ríkisstjórnarinnar sem birtist með formlegum hætti í formi minnisblaðs.
Fréttastofa Rúv hefur þetta minnisblað undir höndum. Þar kemur fram með skýrum hætti að ríkisstjórn Íslands leggur til að barnabætur verði lækkaðar um 300 milljónir króna.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum RÚV á sunnudag að til álita komi að lækka barnabætur til að skapa 600 milljóna svigrúm fyrir forgang í heilbrigðisþjónustu.
Á mánudagsmorgun staðfesti Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að þessi hugmynd væri uppi á borðinu.
Síðdegis í gær sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að umræður stjórnarandstöðuþingmanna um lækkun barnabóta væru hreinar getgátur og í kvöldfréttum RÚV í gær, þriðjudag, sagðist hann ekki gera ráð fyrir neinni lækkun barnabóta.
Helgi Hjörvar, formaður þingflokks Samfylkingarinnar. „Það er ljóst að forsætisráðherra var að villa um fyrir þingmönnum, með því að kalla það rangar getgátur, sem reynast hafa verið tillögur hans eigin ríkisstjórnar til fjárlaganefndar. Það er auðvitað fagnaðarefni að þeir hafa horfið frá lækkun barnabóta, en það er jafn fáheyrt að forsætisráðherra kannist ekki við skriflegar tillögur sinnar eigin ríkisstjórnar í ræðustól Alþingis.“
Plottið hjá stjórnvöldum er því meðal annars þetta.
- Leggja til gífurlegan niðurskurð sem kemur sér illa fyrir almenning í landinu og fá þannig athygli fólks.
- Koma nokkrum dögum seinna og segja að búið sé að finna fjármuni í málaflokkinn.
- Tilkynna að skorið verði niður á öðrum stöðum í þjóðfélaginu, helst hjá þeim sem síst mega við því.
- Finna óvænt leið til að koma í veg fyrir niðurskurðinn og afla sér vinsælda kjósenda með því.
Svo náttúrulega eins og lýst er hér fyrir ofan, að þykjast ekki kannast við eigin verk og reyna að ljúga að þingi og þjóð í stað þess að taka ábyrgð á eigin verkum og standa við það sem lofað hefur verið.
Sú ríkisstjórn sem nú situr er einhver sú lygnasta og óþveralegasta sem setið hefur við völd í þessu landi. Það líður ekki svo dagur að logið sé að fólki með einum eða öðrum hætti og ráðherrar og einstaka þingmenn ríkisstjórnarflokkana reyna stöðugt að ljúga sig út úr því sem þeir hafa sagt og gert án þess að skammast sín hið minnsta.
Hafa engan vilja til eða getu til að taka ábyrðg á verkum sínum eða því sem þeir láta frá sér en reyna stanslaust að koma sökinni á aðra og þá helst fyrri ríkisstjórn.
Enn og aftur verð ég persónulega að segja að fyrir mína parta dauðskammast ég mín fyrir samlanda mína að þeir sklui hafa kosið þennan óþvera yfir mig. Að almenningur skuli hafi trúað lygunum sem rann út úr þessu fólki fyrir kosningarnar í vor og sýnt af sér slíkan fádæma dómgreindarskort að hafa kosið þetta.
Ég skammast mín fyrir að tilheyra þjóð sem aldrei lærir af reynslunni.