Þingmenn Íslands, siðferði þeirra og heiðarleiki.

Alþingi ber ábyrgð á stjórnarskrárbrotum ráðherra.

Alþingi ber ábyrgð á stjórnarskrárbrotum ráðherra.

Ástæða þess að ég ákvað að skrifa þennan pistil er sú, að ég las í gær grein sem tveir ungir menn skrifðu á vísir.is hvar þeir veltu upp spurningum sem snýr að nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.  Mig rak í rogastans við lestur þessa pistils og læt því fylgja hér nokkra punkta úr þeim ágæta pistli, enda ekki seinna vænna þar sem óðum styttist í kosningar hér á landi og þá veltir maður því fyrir sér hvort það sé forsvaranlegt að kjósa yfir sig þingmenn sem eru sumir hverjir dæmdir sakamenn?

En eru það Sjálfstæðismenn einir sem hafa vafasama einstaklinga innanborðs?
Ég hef ekki kynnt mér það, en ef maður skoðar þessa grein sem ég vitna í hér á eftir hvað varðar Sjálfstæðismennina, þá getur ekki verið að þeir einir séu bæði siðblindir og siðspilltir af þeim þingmönnum sem verða í framboði til næstu þingkosninga.

Þess má geta, að pistillinn sem ég vitna í er skrifaður í Jûní 2010 en á samt fullan rétt á sér í dag enda hefur lítið breyst innan Sjálfstæðisflokksins síðan þá.
Það sem sló mig helst er þetta;

Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem kennir sig við hægristefnu. Þingmenn flokksins eru sextán talsins. Þeirra á meðal eru Ásbjörn Óttarsson, sem játaði að hafa greitt sér tugi milljóna í arðgreiðslur með ólöglegum hætti, Árni Johnsen, dæmdur þjófur og Sigurður Kári Kristjánsson sem þáði 4,6 milljónir í prófkjörsstyrki en neitar að upplýsa hverjir styrkveitendurnir voru. Einnig situr Guðlaugur Þór Þórðarson enn á þingi, en hann þáði tæplega 25 milljónir í styrki fyrir prófskjörsbaráttu sína árið 2006, að mestu leyti frá útrásarvíkingum. Sama ár hafði hann milligöngu um 30 milljón króna styrk frá FL Group og 25 milljón króna styrk frá Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins. Styrkirnir eru sérstaklega vafasamir í ljósi þess að styrkveitendur höfðu beinna hagsmuna að gæta í ýmsum deilumálum þessara ára. Þegar þannig er í pottinn búið leitar orðið mútur óhjákvæmilega á hugann. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, tók þátt í milljarðabraski ásamt Wernersbræðrum skömmu fyrir hrun þegar hann var stjórnarformaður N1, eins stærsta olíufyrirtækis á Íslandi. Fleiri framámenn flokksins tengjast ýmsum vafasömum viðskiptaævintýrum fortíðarinnar, en erfitt er að ímynda sér að fólk í slíkri stöðu geti með trúverðugum hætti tryggt heilbrigða samkeppni í anda hægristefnu.

Mjög gott að draga þetta saman og þetta er engin lygi eða samsæriskenning þó svo sumir hörðustu fylgismenn Flokksins telji svo vera.  Gallinn hins vegar við marga af þeim sem mætti flokka sem harðlínumenn flokksins eru hins vegar svo blindir á allt sem telja mætti neikvætt í garð flokksins, að þeir myndu verja það með öllum mögulegum ráðum þó átrúnaðargoðið þeirra yrði uppvís að morði.  Slík er ofsatrúin.

En það er dregið fram fleira í þessum pistli sem áhugavert er að skoða.

 Þá skal nefna þau forkastanlegu vinnubrögð sem viðhöfð voru við einkavæðingu bankanna, en eins og Rannsóknarskýrsla Alþingis varpar ljósi á voru lögmál markaðarins þar að engu höfð. Að sögn Steingríms Ara Arasonar sem sat í Einkavæðingarnefnd var hér um pólitíska ákvörðun að ræða; Landsbankinn var ekki einu sinni seldur hæstbjóðanda heldur hreinlega afhentur flokksgæðingum.

Þetta vita allir sem á annað borð hafa eitthvað fylgst með þegar var verið að einkavæða bankana og þeir vita líka sem nenntu á annað borð að fylgjast með og horfðu upp á hvernig ýmsar stofnanir sem áttu að sjá um að hafa eftirlit með mörgum þáttum þjóðfélagsins voru hreinlega lagðar niður eða sveltar í hel fjárhagslega væru niðurstöður þeirra ekki þóknalegar þeim sem sátu í ríkisstjórn á þeim tíma.  Sorglegt en því miður satt.

Fleira er farið í gegnum í þessum pistli sem áhugavert þykir fyrir almenning en niðurlægjandi fyrir kjósendur Flokksins í því ljósi, að þar situr fólk sem hefur hreinlega ekki það siðferði sem ákjósanlegt þykir til að sitja á alþingi né hvað þá heldur í ríkisstjórn landsins.

En nóg af þessum hugleiðingum um Sjálfstæðisflokkinn í bili því mig langaði að velta upp þeirri spurningu hvort það sé raunin, að vafasamir einstaklingar séu á þingi í öðrum flokkum?  Eru þar einstaklingar sem hafa ekki siðferðisþrek til að gegna störfum sem þingmenn eða ráðherrar í stjórn landsins?

Mitt svar er já, en það verður efni í annan pistil og þá verður reynt að velta upp því hverjir það eru og hvers vegna.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 11. nóvember 2014 — 14:50