Sjúkratryggingar Íslands brýtur á fötluðum með fáránlegum reglugerðum

Buguð en ekki brotin eftir að vera hunsuð af fötluðum, TR og Sí.

Buguð en ekki brotin eftir að vera hunsuð af fötluðum, TR og Sí.

Einn ágætur vinur minn spurði mig á dögunum af hverju ég væri ekki skrifandi á netið öllum stundum til að kynna mig og framboð mitt í prófkjör Pírata i suðurkjördæmi svo sem flestir gætu kynnt sér hver ég væri og hvaða málefni ég legði mesta áherslu á í mínu framboði.
Ég sagði honum að það hefði lítið upp á sig að vera skrifandi alla daga því fólk sem hefði eitthvað fylgst með mér og mínum skrifum vissi ágætlega hvar ég stæði og hvað það væri sem ég legði mesta áherslu á í mínu framboði því fólk hefði alla jafna lesið það sem ég skrifa hér á mínu bloggi og eins pistlana mína á Kvennablaðinu þar sem ég gerði kjör alraðra og öryrkja að aðalumfjöllunarefni mínu.
„Þú þarft samt að vera duglegri að skrifa“ sagði hann við mig.

Jæja.  Það er hér með bætt úr því og nú ætla ég aðeins að taka fyrir Sjúkratryggingar Íslands og hvernig þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vera til vandræða og bölvunar fyrir sína umbjóðendur vegna fáránlegra reglugerða sem skerða oft ótrúlega réttindi þeirra sem eiga við fötlun að stríða.

Við höfum heyrt fjöldann allann af sögum þar sem fólk er dæmt af SÍ til að vera í stofufangelsi heima hjá sér vegna þess að SÍ neitar hreinlega fólki um þau hjálpartæki sem það þarfnast sárlega og kemst ekki ferða sinna án.  Hjólastólar, spelkur, hækjur, göngugrindur og svo mætti lengi telja.  Oft margra mánaða og jafnvel áralöng bið eftir að fá nauðsynleg hjálpartæki og oft tæki sem eru úr sér gengin og varahlutir fást ekki, ekki hægt að fá dekk eða gert við tækin.  Á meðan er fólkið sem þarfnast þessara tækja lokað af heima hjá sér og kemst hvorki lönd né strönd.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi í vor og sumar að vinna með tveim frábærum konum sem báðar eru bundnar í hjólastól og hafa staðið í endalausu stríði við SÍ síðustu árin vegna þess sem að ofan er talið og þær stofnuðu hóp á fésinu, buðu mér að vera með og saman hafa þær barist með kjafti og klóm fyrir réttindum fatlaðra gegn yfirgangi, frekju og óbilgirni SÍ í málefnum fatlaðra og safnað reynslusögum einstaklinga sem hafa ekki fengið þau hjálpartæki sem þeir þarfnast.  Og það sem verst er í þessu að stundum fást ekki einu sinni svör frá SÍ við fyrirspurnum þeirra sem til þeirra leita.

Barátta þeirra hefur vakið gífurlega athygli og margir hafa stigið fram og sagt sögu sína, sent pósta og bréf til þeirra og vakið athygli á því hvað það er ofboðslega illa komið fram við fatlað fólk á íslandi, ekki bara af TR og SÍ, heldur einnig af hinu opinbera sem á að standa vörð um mannréttindi og almannaheill en brýtur það svo hvað eftir annað á þeim sem eiga við fötlun að stríða.  Sama má segja um alla uppbyggingu, bæði mannvirkja og aðgengi fyrir fatlaða því þeir gleymast oftast þegar verið er að hanna mannvirkin upp á nýtt, sbr. þegar Hverfisgatan var löguð og henni breytt, þá er hvergi á öllum nýju köflunum gert ráð fyrir því að fatlaðir komist inn í verslanir eða fyrirtæki við götuna.

Þetta er eitt af þeim fjölmörgu málefnum sem ég ætla að halda áfram að berjast fyrir í mínu framboði og þó svo ég komist ekki á lista fyrir kosningar til alþingis eða hvar sem ég lendi á listanum, þá mun ég halda áfram að berjast fyrir þá sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi, en komist ég á þing þá mun ég láta hart að mér kveða á vettvangi heilbrigðis og velferðarmála eins og ég hef gert í skrifum mínum hingað til og ég mun krefjast þess, hvort sem ég kemst á þing eða ekki, að mitt fólk, Píratar, lagi þessa hluti og einfaldi á þann hátt, að þeir sem þurfa á hjálpartækjum að halda, fái þau sér að kostnaðarlausu ásamt því viðhaldi sem þessi tæki þarfnast og eins að reglur verði einfaldaðar og að þessi stofnun sinni því hlutverki sem henni var ætlað og starfsfólkið verði þjálfað í það að vera hæft í sínu starfi.

Það er ekki hægt að þola það lengur, að á 21. öldinni sé enn komið fram við fatlað fólk eins og gert var á hinum myrku miðöldum, en það er greinilegt af öllu því sem gengið hefur á síðan á þeim tíma, að ráðamenn þjóða og valdamenn sem setja lögin og reglurnar, hafa ekkert þroskast og ekkert lært þegar kemur að heiðarleika og siðferði gagnvart þeim sem þeir þó ættu að hafa þroska til, bæði andlega og líkamlega, að vinna fyrir og gera lífið bærilegra.

Ég mun næstu daga halda áfram að fjalla um þessi málefni og ég stend og fell með mínum áherslum í pólitík en ég mun aldrei svíkja þá sem ég berst fyrir og það vita þeir sem mig þekkja því ég þoli ekki óréttlæti, svik, lygar og óheiðarleika.

Hér efst á síðunni er tengill inn á framboðið mitt hjá Pírötum í Suðurkjördæmi og eins minni ég á að kosning til Prófkjörs hjá Pírötum í suðurkjördæmi er hafið og stendur til miðnættis þann 12. ágúst næstkomandi.
Hvet alla sem hafa tök á því að kjósa sinn frambjóðanda í prófkjörinu.

YARRR!

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa