Jack H. Daniels

Svarthol Hugans

Hegðun Pírata hefur kallað yfir þá óvild stjórnmálamanna sem kunna á fagið og það sem því fylgir.

Bjarni Benediktsson í Sjálfstæðisflokknum, hefur efast um að þau séu alvöruflokkur og sagði þá hafa „skriðið inn á þing“ tímabundið.

Óþol annarra stjórnmálamanna gagnvart Pírötum ristir dýpra en svo að það snúist um mismunandi stefnur í stjórnmálum. Píratar eru þeim óskiljanlegir, óæskilegir og jafnvel ógeðfelldir.

Fyrsti íslenski alþingismaðurinn til þess að vera úrskurðaður brotlegur við siðareglur þingmanna var Pírati, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þegar hún vildi rannsaka háar endurgreiðslur á aksturskostnaði þingmanna

Nú síðast í þessari viku kröfðust tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þess að þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, segði af sér sem formaður forsætisnefndar Alþingis.

Ástæðan aftur að Jón Þór tjáði sig um að á fundi nefndarinnar hefðu komið fram vísbendingar í vitnisburði lögreglustjórans og ráðherrans á fundi nefndarinnar um að atferli ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem flestir myndu telja siðferðislega vafasamt, verðskuldaði nánari athygli.

Annar Sjálfstæðismannanna, Brynjar Níelsson, hafði reyndar sett sig upp á móti því að Jón Þór fengi að vera formaður forsætisnefndar áður en hann varð það í fyrra, þrátt fyrir samkomulag flokkanna á Alþingi um að Píratar hefðu formennsku í nefndinni. „Hug­mynd­ir þeirra eru með þeim hætti að þau eru ekki réttu aðilarn­ir til að leiða þetta starf,“ sagði hann um Pírata.

Píratar hafa ítrekað unnið gegn fjárhagslegum einkahagsmunum þingmanna. Þetta birtist meðal annars í því þegar Jón Þór Ólafsson og fleiri settu sig upp á móti launahækkunum þingmanna upp á 45% á kjördag fyrir rúmum fjórum árum.Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, var andsnúinn umræðu um málið á Alþingi og sagði „alveg gjörsamlega óþolandi“ að þurfa að ræða þetta.

Fyrirspurnir Björns Levís hafa verið teknar til opinberrar umræðu sem eitt helsta vandamálið við Pírata.

Björn Leví hafði lagt fram fleiri fyrirspurnir en um akstursgreiðslurnar sem þingmenn oftóku.

Hann hefur meðal annars spurt um kaup ráðuneyta og stofnana á fjölmiðlaáskriftum, sem leiddu til dæmis í ljós að ríkið greiðir Morgunblaðinu, undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, 26 sinnum meira fyrir áskriftir en Stundinni.

Fyrirspurnir Björns Levís eru í samræmi við grunnstefnu Pírata þar sem segir: „Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku“ og „upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi“.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var svo ósáttur við fyrirspurnafjölda Björns Levís, vegna kostnaðar, að hann ákvað að leggja fram níu fyrirspurnir á ráðuneyti til að spyrja út í kostnaðinn við fyrirspurnir, og þá sérstaklega fyrirspurnir Pírata.

Í ljós kom að Brynjar sjálfur hafði fram að þessu aðeins lagt fram eina fyrirspurn á þingferlinum og eitt frumvarp, sem snerist um að refsa foreldrum fyrir tálmun á umgengni.

„Alls fóru 3 vinnustundir í að taka þetta svar saman,“ sagði í svari utanríkisráðuneytisins um fyrirspurn Brynjars um fyrirspurnir.

Í desember 2018 fór Ásmundur Friðriksson í útvarpsviðtal að tala um skóleysi Björns Levís, auk þess sem hann tók upp umræður um gallabuxur á þingfundi.

Hálftímaumræður voru á Alþingi í júní í fyrra um jakkaleysi Björns Levís. Tilgangur klæðaburðarreglna á Alþingi er að merkja þingmenn út frá valdastöðu þeirra í samfélaginu og auka trúverðugleika.

Jakkafötin eru tákn.

En táknin geta snúist upp í andhverfu sína með reynslunni.

Viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins var svo reiður yfir því fyrr á þessu ári að Björn Leví væri bindislaus í stóli forseta Alþingis, að hann vildi að honum yrði meinað að sinna hlutverkinu: „Á einfaldlega ekki að hleypa manninum í stólinn,“ sagði hann á Facebook. Þetta var að hans mati „lágkúra“, „vanvirðing við þingræðið og helstu stofnun landsins“, en Björn Leví var í jakka, hvítri skyrtu og gallabuxum.

En þarna síðasta sumar, í júní, þótti þingmanni Miðflokksins, Þorsteini Sæmundssyni, „ömurlegt“ að Björn Leví væri jakkalaus.

Eftir að Ásmundur Friðriksson hvíslaði í eyra Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis og eins helsta foringja vinstri manna á Íslandi, sagði Steingrímur „af miklum þunga og mikilli alvöru“: „Nú telur forseti komið út fyrir mörkin“.

Ástæðan var að Björn Leví var ekki klæddur í jakka.

Orsök þess var að það var heitt inni því gluggar voru lokaðir.

Það var brunalykt yfir miðbænum. Á sama tíma og klæðaburður Björns Levís var til umræðu á Alþingi var að brenna hús við Bræðraborgarstíg 3.

Þar létust þrír.

Fólk sem kom til Íslands til að vinna og bjó við hættulegar og heilsuspillandi aðstæður 650 metrum frá Alþingi.

Kannski er hluti af þessu öllu ástæðan fyrir því hvernig Björn Leví svaraði spurningu til sjálfs sín í vikunni um hvers vegna hann vildi bjóða sig fram til Alþingis í prófkjöri Pírata sem lýkur núna um helgina: „Það ætti enginn að vilja komast inn á Alþingi eins og það er í dag. Þar er ofbeldisumhverfi.

Fólk sem stígur þangað inn þarf óhjákvæmilega að glíma við ofbeldi á einn eða annan hátt í þeirri vinnu.

Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hversu gegnumgangandi þetta ástand var áður en ég fór inn á þing.

Spurningin fyrir mig væri því frekar, af hverju viltu fara aftur inn á Alþingi?

Ég hef mjög mikla reynslu af því að vinna í ofbeldisumhverfi og hef mjög mikinn áhuga á að upplýsa um hvernig það virkar og vinna að því að úthýsa því.“

Píratar fara hins vegar engum silkihönskum um aðra þingmenn.

Píratar hafa helst gagnrýnt snýst hins vegar um að stjórnmálamenn taki eigur almennings sem þeir eigi ekki heimtingu á: Peninga eða völd.

Eitt af því sem gerir Pírata illskiljanlega fyrir mörgum þingmönnum er þegar þeir hætta á þingi, til dæmis til að fara að malbika eða vinna sem stöðumælaverðir.

Samtals er helmingurinn af sex þingmönnum Pírata búinn að ákveða að hætta og ætla að sinna umbótaverkefnum innan flokksins utan þings.

Almenna reglan er að stjórnmálamenn hætta ekki á Alþingi til þess að vera á gólfinu í flokksstarfinu.

Hefðbundinn atvinnustjórnmálamaður stefnir á ráðherrastólinn eftir Alþingi, en ef allt um þrýtur er von á því að flokkurinn leysi þá út með góðri stöðu.

Til dæmis sendiherrastöðu, eins og Miðflokksmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson taldi sig eiga heimtingu á frá Sjálfstæðismönnum, fyrir að hafa gert Geir H. Haarde, fyrrverandi formann þeirra, að sendiherra Íslands í Washington.

Kannski hefur þetta eitthvað með bakgrunn þeirra að gera og atvinnumöguleika.

Þekkt er að Gunnar Bragi rak sjoppu á Sauðárkróki áður en hann komst á þing fyrir Framsóknarflokkinn.

Algengara er að Píratar komi úr nýsköpunargeiranum.

Helgi Hrafn er forritari.

Björn Leví vann fyrir CCP og Meniga.

Smári McCarthy, sem hættir í haust, hefur sömuleiðis unnið við forritun og hefur beitt þekkingu sinni til að berjast gegn einræði og spillingu á alþjóðavísu.

Vegna þessa starfa var reynt að gera Smára og Pírata tortryggilega fyrir kosningarnar 2016.

Viðskiptablaðinu þar sem birt var mynd af Smára með byssu í Afganistan, þar sem hann var við sjálfboðastörf við að byggja upp fjarskiptanet fyrir stríðshrjáða landsmenn.

Þótt Píratar séu gjarnan stimplaðir og jaðarsettir fyrir að valda óþægindum á Alþingi er hugmyndafræði þeirra vel undirbyggð fræðum.

Sem dæmi má taka umboðskenningar. Þegar einhver fer með vald, eins og ríkisvald, í umboði almennings, skapast hætta á hagsmunaárekstri. Viðkomandi getur til dæmis notað ríkisvaldið til að bæta eigin hag á kostnað annarra. Við þekkjum auðvitað mörg og misvel falin dæmi um þetta: Lífeyrisgreiðslur og launahækkanir til stjórnmálamanna, aukin fjárframlög til stjórnmálaflokka og leynilegar endurgreiðslur vegna aksturs sem ná langt umfram raunútgjöld. Þegar gegnsæi skortir verður til freistnivandi þar sem fólk getur misnotað  aðstöðu sína án afleiðinga.

En umboðskenningin nær langt út fyrir stjórnmálin sem slík. Sem dæmi um umboðsvanda er þegar forstöðumenn vistheimila beita börn ofbeldi, börn sem voru þar vistuð sér til hagsbóta í umboði okkar hinna.

Þessu efni er stolið af Stundinni og er skrifað af Jóni Trausta ritstjóra blaðsins.
Greinin er mikið lengri og hægt að lesa hana hér í heild sinni.

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Umsagnir

Svipað efni