Persónunjósnir í anda Stasi teknar upp hjá TR

Nýtt yfirheyrsluherbergi á vegum TR.

Nýtt yfirheyrsluherbergi á vegum TR.

Það eru þokkalegar fréttir þegar einstakir stjórnmálamenn eru farnir að taka upp svipaða stjórnarhætti og tíðkuðust í ráðstjórnarríkjunum sálugu þegar Stasi njósnaði þar um óbreytta borgara.
Það var að mörgu leiti ástæðan fyrir því að hér á vesturlöndum voru sett lög um persónuvernd þar sem stjórnvöldum var með lögum bannað að hnýsast í einkamál fólks nema grunur lægi fyrir því að viðkomandi legði stund á athæfi þau er falla undir glæpamennsku.   En áður en hægt var að rannsaka viðkoamndi, lesa bréf, hlera síma, gera húsleitir og fylgjast með öllum hans samskiptum, þurfti uppáskrifað leyfi frá dómara.  Væri það ekki til staðar ef viðkomandi krafði lögreglu um það mátti lögregla eða saksóknari ekki nota þau gögn sem aflað var gegn viðkomandi.

Í dag er öldin önnur.  Eygló Harðardóttir hefur lagt fram lög á Alþingi þess efnis að allir þeir sem þiggja lífeyri af Tryggingastofnun Ríkisins skuli umsvifalaust settir undir eftirlit eins og það sem tíðkaðist í ráðstjórnarríkjunum sálugu.  Lífeyrisþegar skuli ekki eiga sér nein persónuleg réttindi en TR, hið nýja Stasi, hefur fullann rétt til að afla allra þeirra upplýsinga um viðkomandi sem þeim sýnist án nokkurra takmarkana, vonandi þó án þeirra líkamlegu pyntinga sem tíðkustu á tímum Stasi.
Eygló Harðardóttir er hinn nýi Heinrich Himler okkar íslendinga hvað svona lagasetningar varðar.

Skoðum dæmi um það sem TR er heimilt að gera samkvæmt nýju lögunum:

Tryggingastofnun fær auknar heimildir til eftirlits með umækjendum bóta, eftir breytingu Alþingis á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra. Þá þurfa þeir sem hafa áunnið sér réttindi hjá lífeyrissjóðum að sækja um þau áður en sótt er um hjá TR.

Þá er Tryggingastofnun heimilt að krefja bótaþega um endurgreiðslu auk 15 prósenta álags, ef í ljós kemur að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi ekki veitt nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur.

Ennfremur kveður á um upplýsingaskyldu annarra stofnana í lögunum, en skattyfirvöld, Þjóðskrá Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa, lífeyrissjóðir, sjúkrastofnanir, dvalar- og hjúkrunarheimili, sveitarfélög, Lánasjóður Íslenskra námsmanna, og viðurkenndar menntastofnanir skulu veita Tryggingastofnun upplýsingar um bótaþega. Þá skulu Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands skiptast á upplýsingum um mat á örorku og öðrum nauðsynlegum upplýsingum. Ennfremur fá læknar og heilbrigðisstarfsmenn Tryggingastofnunar aðgang að sjúkraskrám umsækjenda.

Jafnframt er umsækjendum eða greiðsluþegum og maka þeirra skylt að taka þátt í meðferð málsins meðal annars með því að koma til viðtals, ef óskað er, og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem teljast nauðsynlegar til að meta bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.

Samkvæmt lögunum skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, var flutningsmaður laganna. Samkvæmt tilkynnginu frá velferðarráðuneytinu eiga lögin að stuðla að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og dregið verði úr bótasvikum.

Ég fæ ekki betur séð en þessi lög stangist í flestum tilfellum á við persónuverndarlög og það sem meira er, stjórnarskrá lýðveldisins.

65. gr.  Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

71. gr.  Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.

Með þessum lögum á að brjóta þessar þrjár greinar stjórnarskrárinar á lífeyrisþegum hvað sem tautar og raular.
Nú þegar er 72. greinin þverbrotin og búin að vera það síðan 2009 þegar skerðingarákvæðin voru sett á því þeir sem fá lífeyri frá lífeyrissjóðum eru rændir honum með þeim ákvæðum, en það er efni í annan pistil þar sem færð verða rök fyrir því.

Í lögum um persónuvernd segir meðal annars:

1. gr.Markmið.
 Markmið laga þessara er að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
 Sérstök stofnun, Persónuvernd, annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglna sem settar verða samkvæmt þeim, sbr. nánar ákvæði 36. gr.
2. gr.Skilgreiningar.
 Merking orða og hugtaka í lögum þessum er sem hér segir:
1. Persónuupplýsingar: Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.
2. Vinnsla: Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.
3. Skrá: Sérhvert skipulagsbundið safn persónuupplýsinga þar sem finna má upplýsingar um einstaka menn.
4. Ábyrgðaraðili: Sá aðili sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna.
5. Vinnsluaðili: Sá sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila.
6. [Rafræn vöktun: Vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði. Hugtakið tekur til:
a. vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga, og
b. sjónvarpsvöktunar sem fer fram með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.]1)
7. Samþykki: Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.
8. Viðkvæmar persónuupplýsingar:
a. Upplýsingar um uppruna, litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir, svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir.
b. Upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.
c. Upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun.
d. Upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan.
e. Upplýsingar um stéttarfélagsaðild.
9. Sértæk ákvörðun: Ákvörðun sem afmarkar rétt og/eða skyldur eins eða fleiri tilgreindra einstaklinga.

Það verður ekki betur séð en þessi lög sem Eygló Harðardóttir gangi þvert á öll mannréttindi lífeyrisþega í landinu og brjóti öll lög um persónuvernd og einkalíf einstaklinga auk stjórnarskrárbrotana.

Hvar er siðferðið hjá þessu fólki sem situr við stjórnvölinn?  Hefur það yfir höfuð eitthvað?

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 4. febrúar 2014 — 07:51