Það er með því leiðinlegasta sem ég veit og í raun ömurlegt að þurfa þess, að fara í staðreyndatékk á öllu sem ráðherrar og fjandi margir þingmenn láta út úr sér í ræðustól Alþingis, í viðtölum við fréttamiðla eða í skrifum sínum á alnetinu.
Það að vera í vinnu hjá þjóðinni og hafa hagsmuni hennar að leiðarljósi, vera þjónn fólksins er það sem ráðherrar og þingmenn eru skyldugir að gera. Ég held að fæstir kæmust upp með það að ljúga nánast stanslaust að vinnuveitendum sínum á almennum vinnumarkaði án þess að missa vinnuna og æruna að auki en sem stjórnmálamaður virðist það vera regla frekar en undantekning og engin eru viðrlögin við því.
Hvað þá heldur að svíkja allt sem lofað hefur verið og ljúga því svo blákalt framan í þá sem svikin bitna harðast á að það hafi verið gert 100 sinnum meira fyrir þá en raunin er.
Þetta horfum við upp á oft á dag hjá núverandi ríkisstjórn og þingmönnum þeirra flokka sem þar sitja.