Minn veruleiki, þinn verululeiki

Íslenska menntakerfið.

Ég fæ einstaka sinnum sögur frá fólki, sérstaklega fólki sem hefur ekki úr miklu að spila peningalega séð sem langar að segja hvernig upplifun það er að geta ekki keypt sér nauðsynlega hluti sem öðru fólki finnst bara sjálfsagt að geta eignast.
Ein slík frásögn eða upplifun fer hér að neðan þar sem ónafngreind, ung kona sem er öryrki sendi mér og bað mig að birta.  Hún sagði í formála að hún upplifði algjört skilningsleysi og afneitun fólks á hennar stöðu í þjóðfélaginu og oft væri henni sagt að hún lifði bara um efni fram og hún þyrfti bara að hætta að eyða peningum í óþarfa.
En hvaða óþarfa er hægt að eyða peningum í þegar viðkomandi fær aðeins 198. þúsund krónur á mánuði útborgað?
Hún fær eingöngu tekjur frá Niðurlægingarstofnun Rikisins, (TR).

Frásögnin hér að neðan er hennar.

Ég brá mér í Kringluna til að skoða úlpur fyrir veturinn enda eina úlpan sem ég á er frekar þunn og hentar illa þegar fer að kólna í haust og vetur.  Ég ætla ekkert að útlista verðin á þeim sem ég skoðaði en þegar verðmiðinn á nauðsynlegum fatnaði er orðið það hátt að nærri fjórðungur þeirra tekna sem ég fæ í hverjum mánuði kostar að kaupa sér vetrarflík þá velti ég því fyrir mér hvað sé að í þessu þjóðfélagi.
Þegar ég stóð þarna og var að skoða úrvalið og verðin, heyrði ég á tal tveggja vinkvenna sem greinilega voru í sömu pælingum og ég en þær voru að skoða flíkur sem kostuðu hátt í tvöfalt það sem ég var að skoða.  Önnur sagðist svo sem eiga fína úlpu frá því síðasta vetur, aðeins notað hana í nokkra daga en hún væri „ekki í týsku“ lengur og því þyrfti hún alveg nauðsynlega að fá sér nýja til að líta ekki út eins og fátæklingur í augum vinkvennana í skólanum á komandi hausti.

Nei, aumingja stúlkan, hugsaði ég.  „Rich bich“ getur ekki litið út eins og fátæklingur í skólanum.  Það væri svo niðurlægjandi að ganga í rándýrum fötum sem kosta hátt í helminginn af mínum mánaðarlaunum hugsaði ég og hélt áfram að skoða „hallærislegar“ en hlýjar úlpur sem kostuðu frá 30 til 50 þúsund, vatnsvarðar og hentuðu mér ágætlega.  Fann eina sem mig langaði í en þar sem komið er langt inn í mánuðinn þá verður það að bíða þangað til ég fæ útborgað enda vantar mig bækur og ég á enga tölvu heldur og hef ekki efni á henni sem stendur en er þó að fara í skóla því mig langar að komast af örorkunni og geta séð fyrir mér í framtíðinni.

Áfram héldu vinkonurnar að tala um úlpuna sem hana langaði í og allt í einu tók önnur þeirra upp síman, sú sem kvartað hafði undan ársgamalli úlpu, ónotaðri og hringdi í pabba sinn og spurði hvort hann gæti lagt 100 þúsund kall inn á hana, hana langaði svo í nýja úlpu.  „Hún kostar ekki nema áttatíu þúsund og svo langar mig í smá meira sem kostar eiginlega ekkert“.
Mér blöskraði.
Er virkilega til fólk sem getur bara si svona í lok mánaðar hent hundrað þúsund kalli inn á börnin sín eins og ekkert sé?
Greinilega því hún þakkaði pabba sínum fyrir og lagði á, mátaði úlpuna, fann rétta stærð og labbaði sér að kassanum, borgaði og fór.

Ég stóð og horfði á 30 þúsund króna úlpuna og fann hvernig tárin fóru að renna.
Ég réð ekkert við það enda á ég ekki pabba til að hringja í, hann dó þegar ég var enn á barnsaldri.
Ég get ekki hringt í neinn til að slá lán eða fá gefins það sem mig langar í.
Ég þarf bara að gera mér að góðu að lifa af á tæplega 200 þúsund krónum á mánuði í Boði Katrínar Jakbosdóttur sem hefur yfir tvær milljónir í mánaðarlaun og Bjarna Ben sem veit ekki aura sinna tal og hefur sennielga ekki hugmynd um hvað mjólkurlíterinn kostar út úr búð.  Hvað þá heldur annað.

Ég er bara ekkert hissa á því að fjöldinn allur af ungu fólki reyni að taka sitt eigið líf í hverjum mánuði og mörgum takist það því stjórnvöld gera ekkert, nákvæmlega ekki neitt fyrir almenning á íslandi en allt fyrir auðvaldið, bankana og útgerðirnar og það gerir mig svo reiða að ég fæ líkamlega verki af því þegar ég hugsa um það.
Fólk sem hefur það skítsæmilegt og getur vel komist af og leyft sér ýmsa hluti sem við öryrkjarnir getum ekki einu sinni látið okkur dreyma um, neitar að horfast í augu við staðreyndir og þegar maður talar um hvað þetta sé í raun ömurlegt þá segir þetta fólk manni bara að hætta að væla og að maður hafi það fínt.
Þetta fólk ætti að prófa sjálft að reyna að komast af á tekjum undir 200 þúsund á mánuði og síðan tala um væl í manni.
Þoli ekki svona hræsni.

Mér fannst ég niðurlægð og með tárin í augunum gekk ég út úr búðinni, fór inn á næst klósett og grét af vonleysi og andlegri þreytu yfir því að geta aldrei veitt mér neitt sem öðrum finnst svo sjálfsagt og eðlilegt.

Nú veit ég að margir eru í verri stöðu en ég en það breytir engu um þá staðreynd að ungu fólki eins og mér, sem af einhverjum ástæðum eru öryrkjar en langar að mennta sig og komast af örorkunni er gert það nánast ókleyft því okkur er haldið í fátæktargildru sem við eigum litla sem enga möguleika á að komast úr.  Sama hvað við reynum og það er sama hvað við segjum við stjórnvöld og þá sem ráða þjóðfélaginu, það er ekki hlustað.

Með vinsemd og virðingu.