Því hefur mikið verið haldið á lofti á samfélagsmiðlum undanfarið að Píratar séu flokkur með enga stefnu í þjóðmálunum fyrir næstu kosningar þrátt fyrir að fjöldi fólks hafi stöðugt verið að benda á þær stefnur sem mótaðar hafa verið og samþykktar í kosningakerfi Pírata. Fjöldi fólks hefur einnig verið með ótrúlegustu skilgreiningar á flokkinum og haldið fram hlutum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, samanber að Píratar vilji óheftann innflutning á flóttafólki og hvetji til ólöglegs niðurhals og þjófnað á hugverkum listamanna.
Í flestum tilfellum er þarna um að ræða fólk sem einfaldlega hefur ekki kynnt sér stefnu Pírata en er tilbúið að alhæfa um þessa hluti án þess að hafa kynnt sér þá til hlýtar. Það sem ég hef helst fengið fyrirspurnir um varðandi stefnumál okkar snýr fyrst og fremst að velferðar og heilbrigðismálum enda hafa þeir flokkar verið mér hugleiknastir síðastliðin einn og hálfan áratuginn eftir að ég missti heilsuna og hef þurft að lifa á bótum almannatrygginga og barist fyrir þeim málaflokki með þeim aðferðum sem ég hef haft tök á, en algjörlega án árangurs því þeir sem sitja við völdin hverju sinni hafa ekki einu sinni hlustað á þau rök sem ég og fleiri höfum haft fram að færa máli okkar til stuðnings.
Þegar kemur að stefnumótun Pírata í velferðar og heilbrigðismálum þá er þegar búið að samþykkja grunn að bættri velferð fyrir sjúka og aldraða sem hægt væri að hrinda í framkvæmd strax eftir næstu kosningar.
- Að lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi.
- Að standa þurfi vörð um atvinnufrelsið og að allir einstaklingar geti nýtt sér þá þekkingu sem viðkomandi býr yfir sér til atvinnuvegs.
- Að bjóða þurfi bótaþegum, hvort sem það eru öryrkjar, fatlaðir eða atvinnulausir upp á fjölbreytta atvinnu, frístunda og menntunarmöguleika. Tryggja þarf þó að enginn sé skyldaður til þess að nýta sér úrræðin, meta þarf hvert mál fyrir sig. Tryggja þarf að bætur séu ekki skertar kjósi einstaklingurinn að nýta sér þessa möguleika og auka þarf svigrúm innan bótakerfisins til verksins, t.d. með takmörkun á skrifræði og með aðkomu fyrirtækja og eða með styrkjum frá ríkinu. Efla þarf núverandi mögleika.
- Einfalda framfærslukerfið, þ.e.a.s. atvinnuleysisbóta, örorkubóta og önnur bótakerfi. Afnema ætti hugtakið ‘bótakerfi’.
Þetta eru aðeins fjögur af níu atriðum sem tekin eru saman í þessum málaflokki og ég hvet fólk til að kynna sér restina af samþykktum tillögum í þessu skjali.
Hér eru svo sjö tillögur sem samþykktar hafa verið og varða heilbrigðiskerfið og bætur að því.
- Að allir hópar sjúklinga hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu, hlúa þarf betur að fötluðum, geðfötluðum og fíklum en nú er gert og setja þarf upp víðtæk úrræði fyrir þennann hóp sjúklinga. Ekki gengur að vísa sjúku fólki frá þjónustu heilbrigðiskerfisins og efla þarf núverandi þjónustu og leita nýrra leiða.
- Að bæta aðgengi sjúklinga að endurhæfingarstöðum og að fræðsla og ráðgjöf bjóðist aðstandendum þeirra um málefni sjúklinga.
- Að fólki sem svipt er sjálfræði sé tryggð sú þjónusta sem bati þeirra byggist á.
- Að tryggja sjúkrahúsum örugg tækjakaup með lögum á eins góðum búnaði og völ er á.
- Að lögfesta lágmarksstarfsmannafjölda á spítölum sem tryggir gæði hans upp að því marki sem lög gera ráð fyrir.
- Að þegar sýnt hefur verið með ótvíræðum vísindalegum hætti fram á jákvæða virkni lækningar- og meðferðaraðferða, þó þær séu taldar til náttúrulækninga eða óhefðbundinna lækninga, fái þær lækningaaðferðir og þeir aðilar sem starfa við þær sambærilega meðferð og löggildingu innan almannatryggingakerfisins og aðrar vísindalega sannaðar aðferðir fá, þar með talið tannlækningar.
- Þessum markmiðum skal ná fram með hagræðingu á fjárhag heilbrigðiskerfisins, fækkun millistjórnenda og með aðgerðum sem minnka þörf almennings á heilbrigðiskerfinu, ásamt lækkun fjárlaga til Þjóðkirkju Íslands og samsvarandi hækkun á fjárlögum til heilbrigðiskerfisins.
Síðan ætti fólk að kynna sér betur heildarmálefni í sambandi við heilbrigðiskerfið og einstaka málaflokka sem bæði eru í kosningu og hafa verið samþykkt, en í kosningu eru núna tvö mál sem snúa að því að sálfræðiþjónusta verði hluti af heilbriðiskerfinu og niðurgreidd fyrir þá sem þurfa á því að halda og eins að tannlækningar verði niðurgreiddar af sjúkratryggingum í framtíðinni í meira mæli en nú er.
Ég vil hvetja fólk til að kynna sér heildarstefnumál Pírata með því að smella hérna og það sem meira er, hætta að fullyrða um eitthvað sem stenst ekki þegar kemur að stefnumótun Pírata til bætts hags almennings í landinu heldur kynna sér hlutina af eigin raun áður en það fullyrðir eitthvað sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Píratar eru flokkur sem vinnur út frá grasrótinni og því öflugri sem grasrótin er, því betra fyrir Pírata og allann almenning í landinu enda viljum við að almenningur móti með okkur stefnuna í öllum málaflokkum því þannig virkar raunverulegt lýðræði þegar stefnan getur tekið breytingum á öllum tímapunktum enda er það ávísun á bættan haga allra landsmanna.
Þingmenn Pírata líta ekki svo á að þeir stjórni almenningi í landinu heldur séu þjónar almennings og vinni samkvæmt því þegar inn á alþingi er komið því þeir sem raunverulega ráða ferðinni og stefnumálunum eru þegnar landsins og þannig á lýðræði að virka.
Það er aðeins til ein leið að bættum kjörum allra landsmanna og það er samvinna og samræður um þau mál sem þarf að fara í að laga og ábyrgð allra landsmann verður aldrei dregin í efa þegar kemur að því, því hver einasti einstaklingur í landinu ber ábyrgð á því hvernig landinu er stjórnað með því að tala við sína þingmenn, þjóna sína á alþingi til að unnið sé eftir þeirri stefnumörkun sem almenningur óskar eftir.
Ég hef oft sagt áður að það sé undir okkur sjálfum komið hvernig ríkisstjórn við fáum eftir kosningar hverju sinni og ég held að núverandi ríkisstjórn sé klassískt dæmi um stjórnarfar sem enginn íslendingur með fullu viti vilji hafa við stjórnvölinn.
Það er því alfarið undir ÞÉR komið hvernig næsta ríkisstjórn verður því þegar upp er staðið þá ert það ÞÚ sem hefur ákvörðunarréttinn þegar í kjörklefan er komið.
Góðar stundir.