Það er hreint með ólíkindum hvað það er mikið af algjörlega heiladauðum einstaklingum á ferðinni á þjóðvegum íslands. Fólk sem með réttu ætti ekki með nokkru móti að hafa réttindi til að aka því þarna eru einstaklingar sem víla ekki fyrir sér að traðka bensíngjöfina í botn til að komast fram úr næsta ökutæki á undan sér þó svo það sé á blindhæð, í blindbeygju eða á tvöfaldri óbrotinni línu þar sem framúrakstur er algjörlega bannaður og stofna ekki bara sjálfum sér í lífshættu heldur öllum sem eru á ferðinni þar á sama tíma.
Síðast í gær var ég á ferðinni á mótorhjóli og kærastan aftan á hjá mér þegar bíll kemur æðandi á móti mér á öfugum vegarhelmingi, hann var að taka framúr rútu og tveim fólksbílum þar sem er algjörlega blint svæði og tvöföld óbrotin lína en að auki mikið notaður afleggjari að bóndabæjum þar sem þarf að gæta talsvert mikillar varúðar, enda blint bæði ofan og neðan hans.
Þórhildur Þorsteinsdóttir býr í Norðurárdal og hún segir frá upplifun sinni í stöðufærslu á Facebook þar sem ferðalangar eru tilbúnir að hætta lífi sínu, barna sinna og fjölskyldna ásamt öllum þeim sem eru á ferðinni vegna leti og óþolinmæði.
Ég bý í sveit eins og flestir vita. Ég bý á ágætis bújörð en hennar helsti ókostur er sá að ræktunarmöguleikar eru takmarkaðir vegna hrauns sem ég hef afar takmörkuð not fyrir. Sumum finnst það afar fallegt en mér finnst það afar leiðinlegt þegar kemur að því t.d að smala. Þannig að við nýtum hér jörð framar í dalnum. En stæðsti ókostur Brekku er að þjóðvegur nr 1 fer í gegnum jörðina og túnin eru hinum megin við veginn. Dásemdin ein. Við hjón höfum reynt í gegnum tíðina að vera tillitsöm og kurteis og hirt rúllurnar okkar svona á þeim tímum sem ekki er mikil umferð, en ef við ætluðum að gera það í ár þá myndum við ekki hirða neina einustu rúllu fyrr en í september, umferðin er orðin slík að nóttu sem degi. Í gær vorum við að hirða í dásemdarveðurblíðu eins og er alltaf í dalnum og það var tölverð umferð. Þeir sem þekkja til vita að þegar maður þarf að fara fram í dal þarf að fara fyrir svokallað Nef, sem er blindbeyja. Ég er 34 sekúndur að keyra þessa blindbeygju á dráttarvél, þá er ég farin að sjá fram á veginn og get hleypt framúr mér. Skítt með hnefann sem ég fékk að sjá út um bílrúðuna, ég þurfti alveg nauðsynlega að rétta líka úr löngutöng.
En ég spyr er fólk tilbúið að fórna maka sínum og börnum fyrir 34 sekúndur?
Fjölskyldunni sem er að koma á móti og er að fara í sumarfríið sitt?
Já 34 sekúndur skiptu svo sannarlega máli í gær.
34 sekúndur skiptu það miklu máli að oft lá við stórslysi.
Fórnfýsn fólks er greinilega mikil og tímaleysið algjört.
Við hreinlega megum ekki missa 34 sekúndur af tímanum okkar en í staðinn koma heil heim.Í guðs bænum góða fólk HUGSUM!
Við erum ekki ein í heiminum.
Missum ekki af lífinu fyrir 34 sekúndur.
Þetta er 1. grein af þríleiknum “landeigandinn, þolinmæði og skítlegt eðli 2015″.
Ég held að það sé vilji okkar allra sem ferðumst á þjóðvegum landsins að koma heil heim og þeim heilalausu sem ætla að taka fram úr við aðstæður sem hér að ofan eru taldar segi ég einfaldlega að HUGSA áður en þú framkvæmir og skoðaðu þetta áður en þú ferð af stað út í umferðina því þú villt ekki að þú, fjölskylda þín eða aðrir í umferðinni endi ferðina með þessum hætti.
Þú tekur það ekki aftur þegar þú ert búinn að drepa einhvern eða limlesta, hvort sem það ert þú sjálfur, maki þinn, börnin þín eða annara.
Hafðu það hugfast.