Klíkuskapur, einelti og kúgun viðgengst á alþingi.

Lilja Mósesdóttir upplýsir um kúgun, einelti og klíkuskap á alþingi.

Lilja Mósesdóttir upplýsir athyglisverða staðreynd um hvernig hinn almenni þingmaður er kúgaður af flokksformönnum og meirihluta í stjórn flokkana til að láta af hugsjónum sínum og fylgja stefnu flokkana.  Lýsingarnar eru ekki fagrar og bera þess vitni, að á alþingi sé einelti, kúgun og klíkuskapur það eina sem blívar.
Hún segir að þingflokksfundir séu ein leiðin til að kúga hinn almenna þingmann til að fylgja stefnu flokks og foringja og dugi það ekki til  sé  farið í ófrægingarherferð gegn viðkomandi þingmanni sem fær yfir sig fúkkyrðaflauminn í tölvupóstum og á þinginu fær viðkomandi ekki að taka til máls, sé settur síðastur á mælendaskrá og vísað úr nefndum og ráðum.
Þingmenn fá sem sé ekki að fylgja sinni eigin sannfæringu, aðeins sannfæringu foringjans og flokksins.

Orðrétt segir Lilja á Fésbókarsíðu sinni:  ,,Merkilegt hvað mörgum finnst þeir eiga mikið erindi inn á þing. Skyldi þetta fólk vita að þingmennska er fyrir flesta þingmenn valdalaust tímabundið embætti nema þú látir undan gífurlegum þrýstingi og svíkir allt sem þú lofaðir kjósendum. Fyrir vikið hata kjósendur þig. Mannorð þeirra fáu sem hafa kjark til að halda fast í stefnumálin er svívirt – oft með aðstoð samherja viðkomandi sem eru blindir af eigin hégómagirnd. Ég óttast að flestir þeirra sem fara inn á þing í maí muni taka upp stefnu BF og vera með sem minnst vesen þegar á reynir. Því miður er tími baráttunnar og vesenisins ekki liðinn. Tryggja þarf að uppgjör þrotabúa gömlu bankanna verði almenningi hagstæð. Það mun ekki takast nema þingmenn búi yfir skarpskyggni, þekkingu og kænsku til að sjá í gegnum blekkingarvef hrægammasjóðanna. Höfum það í huga í næstu kosningum!“

Þegar hún í ummælum er beðin að skýra þetta nánar segir hún; ,,Þingflokksfundir eru notaðir til að sannfæra þingmenn um hver sé rétt afstaða og formaðurinn búinn að tryggja fyrirfram að sín skoðun verði í meirihluta. Ef þingflokksfundir duga ekki til, þá fer af stað ófræingarherferð og óþægi þingmaðurinn fær yfir sig skammir og fúkyrði í tölvupóstum og á flokksþingum. Inni á þingi hefst útilokunarleikurinn. Viðkomandi þingmaður fær ekki taka til máls, er settur neðst á mælendaskrá og er jafn vel tekin úr nefnd sem fulltrúi flokksins. … svona til að nefna eitthvað“

Þetta með að nefna ,,eitthvað“ segir í raun heilmikið því ljóst er að þetta er þá aðeins brot af því sem viðgengst á þinginu og ljótt ef satt er  því þarna er um skýlaust brot á stjórnarskrá að ræða sem og svardögum þingmanna sem taka sæti á alþingi þegar þeir lofa drengskaparheiti að fylgja sinni sannfæringu í hvívetna.

Ég kann Lilju Mósesdóttur best þakkir fyrir að upplýsa um þetta því þetta sýnir í raun hverslags óþverastofnun alþingi okkar íslendinga er orðið.  Þetta segir okkur líka að það er komin tími til að hætta með flokksræðið og taka upp persónukosningar því rotturnar lifa góðu lífi í flokksræðinu.  Rottur sem svífast einskis í hroka sínum og valdagræðgi til að kúga hinn almenna þingmann til hlýðni eins og Lilja lýsir hér að ofan.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 10. mars 2013 — 09:54