„Það kemur ekki á óvart að yngstu, óreyndustu kjósendur hneigist meir að því að kjósa Pírata en þeir sem hafa reynsluþekkingu. Sum áherzlumál Pírata höfða til fíkniefnaneytenda og niðurhlaðenda ólöglegs efnis af internetinu, enda virða Píratar ekki höfundarrétt og persónuvernd í þeim skilningi og skella skollaeyrum við því, að listamenn og rithöfundar, ungir ekki síður en eldri, eru mjög háðir því að fá greitt fyrir listsköpun sína og vinnu.“
Svo mælir Jón Valur Jensson á bloggsíðu sinni snemma í dag og fer hörðum orðum um flokk Pírata og einstaklinga innan flokksins í skrifum sínum sem vægast sagt eru stútfull af rangfærslum og oftar en ekki hreinum lygum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.
Jón Valur segist hafa skoðað í tunnu Pírata og segir þar vera tómahljóð og vinnsla þeirra á frumvörpum bágborin.
Vissulega eru frumvörp bágborin og fá, því Píratar eru ekki í frumvarpasmíði heldur eru þeir að vinna í breytingum á ýmsum málum sem eru í gangi á Alþingi til að gera þau betri og skilvirkari fyrir þjóðina.
Þegar svona einstaklingar eins og Jón Valur eru að tjá sig með þessum hætti, menn sem þykjast vera trúaðir og þykjast vera hinir heilögu réttlætissinnar kristinna manna, þá segi ég fyrir mína parta, að mikið er ég feginn að tilheyra hinum heiðna hluta þjóðarinar þar sem fyrirgefning og skilningur gagnvart þeim sem minna mega sín er höfð í heiðri, annað en hjá sértrúarsöfnuðum hinna kristnu.
Ég set ekki tengil á bloggið hjá Jóni Vali því ég vill engum svo illt leggja til að neyðast til að lesa bullið eftir hann, en ég tók skjáskot af þessum pistli og þá getur hver dæmt fyrir sig þann mann sem bloggarinn títtnefndi hefur að geyma.