Júróvisjón og íslenska fábjánaþjóðin

Versta vondulagakeppni í heimi.

Júróvisjón keppnin er fáránleg.  Vondulagakeppni sem á sér engan sinn líkan í heiminum og þó víðar væri leitað í nálægum sólkerfum og stjörnuþokum.  Það sem er þó kostulegast við þetta allt er íslenska þjóðin og sá ótrúlegi þjóðrembingur sem birtist svo kristaltært á hverju einasta ári í kringum þessa keppni og má helst líkja við útrásina á árunum fyrir hrun þegar útrásarvíkinginarnir átu gull og skitu demöntum og almenningur hélt hvorki vatni né vindum yfir snillinni í þessu fólki sem kom að útrásinni.

Allt gengur þetta hraðar fyrir sig í júróvisjón því á hverju einasta ári kemur þessi þjóðernishroki hvað best í ljós þegar hver beturvitinn af öðrum hrósar sigurlagi í íslensku keppninni í hástert, jafnvel þó sigurlagið sé svo yfirmáta leiðinlegt að maður fær hreint ógeð á því við fyrstu hlutsun og ógeðið á því eykst bara eftir því sem það er spilað oftar og mært meira.

Síðan fer þetta jarm í keppnina úti og íslendingar jarma eins og rollur við garðann meðan verið er að undirbúa gjöf, jarma yfir því að þetta sé sko besta lagið, það komist ekkert annað lag í hálfkvist við „okkar“ framlag.  Öll önnur lög í keppninni séu bara rusl.
Svona svipað og með útrásarsnilldina árin fyrir hrun.

Svo fer keppnin fram.  Umferðin á götum og þjóðvegum hverfur, öll ónáttúruleg hljóð hverfa fyrir utan einstaka bíl eða mótorhjól en úr hverju húsi berst hljómur hins ógurlega júróvisjón hvar íslenskur keppandi í verstu, vondulagakeppni heims, gaular sitt framlag, handviss um að allur heimurinn muni falla í stafi, taka fram bænamottuna, krjúpa á hana og tilbiðja sig sem guðleg vera væri.
Svona svipað og útrásarvíkingana á árunum fyrir hrun.

Svo koma úrslitin.
Vantrú.
Vonbrigði.
Síðan öskrandi reiði.
Svona álíka og þegar Geir H. Haarde bað guð um að hjálpa íslandi þegar efnahagur íslands hrundi.

Núna þegar þetta er skrifað er ég búinn að lesa hundruði stöðufærsla og slatta af pistlum og umsögnum þess efnis að íslenska lagið hafi verið það besta og að Svala og co hefðu sko átt að komast áfram í aðalkeppnina.  Hvað vonda Evrópa sé illa gefin tónlistarlega séð og að enginn dómarana hafi vit á tónlist, hvað þá almúginn sem kaus ísland út.
Staðreyndin er bara að lagið var vont, flutningurinn la, la og búningurinn hreinasta hörmung svo ekki sé meira sagt og það er vægt að tala um að hann hafi verið fáránlega hallærislegur að auki.  Atriðið allt ömurlegt þegar á heildina var litið.
Svona svipað og allt coverið í kringum útrásina á sínum tíma var þetta bara eitt stórt flopp.

En íslenska þjóðin er snarbiluð og það sér maður á hverju einasta ári í kringum vondulagakeppni júróvisjón.  Hún er eins og útrásin á sínum tíma í huga margra íslendinga.  Fyrir hrunið, (fyrir vondulagakeppnina), keppast allir við að mæra og hrósa en þegar svo kemur í ljós að lagið og flutningurinn var rusl sem komst ekki áfram, þá brjálast allir og keppast við að kenna öðrum um, í þessu tilfelli Evrópu.
Svona svipað og það var aldrei Sjálfstæðisflokkinum að kenna að hér varð efnahagshrun.

Barnaskapur og heimska íslensku þjóðarinar sannar sig á hverju ári í verstu vondulagakeppni í heimi því þá auglýsa íslendingar heimsku sína, þröngsýni, smámennsku og þjóðrembinginn fyrir allan peninginn.
Svona svipað og að kjósa alltaf yfir þjóðina verstu og spilltustu glæpamennina til að stjórna landinu til að koma af stað öðru hruni.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 10. maí 2017 — 12:55