Jæja þá í þriðja sinn!

Myndin er fengin að láni úr Kvennablaðinu.

Myndin er fengin að láni úr Kvennablaðinu.

Nú er það þriðji mánudagur í mótmælum framan við Alþingi frá því Svavar Knútur kallaði fólk saman til friðsamra mótmæla fyrir þrem vikum síðan.
Hvað hefur áunnist síðan þá?
Hafa stjórnvöld eitthvað hlustað á mótmælendur?

Nei því miður, þeir hafa lýst yfir að þeir skilji ekki mótmælin og halda að það sé í raun ekki verið að mótmæla neinu.  Þessi mótmæli séu bara „hefð“.

Það verður því að segjast eins og er með fugla eins og Sigmund Davíð og Bjarna Ben ásamt hirðfólki þeirra, að skilningur er eitthvað sem þeim var greinilega ekki úthlutað í vöggugjöf en fengu þess í stað of mikið af hroka og sjálfsáliti.
Ég hef stundum líkt þeim við egg því þeir eru svo fullir af sjálfum sér að ekkert annað kemst að.
Stend við þá líkingu.

En í dag ættu mótmælin að koma að minnsta kosti einu atriði til skila til þessara manna og það er að fólk er búið að fá nóg af hroka, heimsku, yfirgangi og frekju ákveðinna ráðherra og þingmanna en þó sértstaklega „ráðherfu“ innanríkismál, eða lekamálaráðherra eins og Andri Þór Sturluson kallaði hana í pistli sínum í kvennablaðinu.
Má þar til sannsvegar færa að hann hitti sko naglann á hausinn hvað það varðar.

Viktor Orri Valgarðsson skrifar einnig pistil í Kvennablaðið í dag þar sem hann er með mjög góða samantekt yfir lekamálið í heild sinni og ég hvet alla til að lesa þann pistil og skoða tenglana sem hann vísar þar í enda tala staðreyndirnar sinu máli þegar allt skoðað, Hanna Birna Kristjánsdóttir ER Lekamálaráðherfa.

En yfirskrift mótmælana í dag eru, „Jæja, Hanna Birna! og ættu allir sem tök hafa á að mæta og krefjast afsagnar „lekamálaráðherfunar“.

Dagskráin er eftirfarandi:

Illugi Jökulsson og Bragi Páll Sigurðsson, höfundur greinarinnar Ísland er ónýtt, flytja ávörp. Hemúllinn verður á staðnum og Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir stýrir fundi.

Við hvetjum alla til að koma með fána, skilti, eitthvað til að slá taktinn og vera með læti, hljóðfæri og vasa-, höfuð- eða tjaldljós til að vísa stjórnmálamönnum veginn.
Að vanda verður lögð áhersla á kærleik og samstöðu óháð hlutverki í samfélaginu.

Við höldum áfram að safna fyrir þá fátækustu í okkar samfélagi. Saman getum við gert gagn!
Þetta eru ekki bara mótmæli, þetta eru líka meðmæli, þar sem við sýnum í verki hvað við getum verið frábært samfélag.

Því miður verð ég, eins og svo margir fleiri, að afboða komu mína á Austurvöll þar sem efnahagurinn leyfir það einfaldlega ekki.
Þó ekki sé um langan veg að fara þá er það svo þegar engir peningar eru til á heimilinu, hvorki fyrir mat né eldsneyti, þá fer maður ekki langt.
Ég er ekki einn í þessari stöðu, við skiptum þúsundum og flest okkar búsett utan Reykjavíkur þar sem mótmælin fara fram.

Ég hvet því alla sem hefðu viljað mæta á mótmælin að kveikja á kerti og setja út í glugga eða friðarkerti ef það er til og setja út fyrir dyrnar hjá sér til að sýna samstöðu með mótmælunum.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 17. nóvember 2014 — 11:52