Ég legg það til, lesandi góður, að þú staldrir aðeins við eftir næstu málsgrein og setjir þig í spor þeirra sem allra lægstar hafa tekjurnar hér á landi áður en þú tjáir þig um málefnið.
Gætir þú náð endum saman yfir mánuðinn með aðeins 164 þúsund til 184 þúsund krónum á mánuði?
Þetta er sá raunveruleiki sem öryrkjum og öldruðum er boðið upp á árið 2014 á íslandi.
Ekki nóg með það, heldur eru uppi áform um að hækka neðra skattþrep virðisaukans úr 7% í 12% en það er 71% raunhækkun á virðisaukanum og þýðir að matur og aðrar nauðsynjavörur sem eru í lægra þrepinu hækka um allt að 5 prósentustig.
Þetta sýnast ekkert svo miklar hækkanir en þegar fólk sem nú þegar nær ekki endum saman yfir mánuðinn þarf að taka þetta á sig, þá hlýtur það að vera hverjum manni ljóst að hlutirnir ganga ekki upp.
Velferðarráðuneytið hefur til langs tíma verið með neysluviðmið á sinni síðu og þar kemur í ljós, þegar reiknað er út hvað einstaklingur þarf háa fjárhæð til að framfleyta sér yfir mánuðinn. Þar segir að einstaklingur, búsettur á höfuðborgarsvæðinu þurfi 234.564 krónur til að framfleyta sér yfir mánuðinn.
Og inn í þá upphæð er ekki reiknað með húsnæðiskostnaði.
Barnlaust par á landsbyggðinni þarf amk 342.265 krónur á mánuði samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins, húsnæðiskostnaður ekki reiknaður með, til að komast af. Að vísu eru þarna inni fáránlegir útreikningar sem varla eiga sér stoð í raunveruleikanum og allra síst hjá öryrkjum.
Ég tók gróflega saman raunútgjöld okkar heimilis og lagaði þær upplýsingar sem voru rangar, tók út það sem við höfum engin efni á að veita okkur og eftir þá útreikninga stóð upphæðin í 425.428 krónum. Þá er eftir að reikna inn húsnæði sem í okkar tilfelli kostar okkur 125 þúsund á mánuði.
Samanlagðar tekjur okkar eru 346 þúsund útborgaðar.
Svona er þetta búið að vera frá hruni og ástandið er ekkert að lagast.
Ekkert.
Það er ekkert verið að gera fyrir þessa hópa á alþingi íslands eða í stjórnarráðinu nema reyna að drepa þetta fólk með því að auka á það allskyns álögur í sambandi við heilsugæslu og lyfjakostnað. Nýjasta dæmið er að hækka komugjöld á heilsugæslu, göngudeildir, sjúkrahús og svo mætti lengi telja. Einnig er verið að hækka kostnað þessara hópa vegna lyfja.
Á sama tíma klóra stjórnmálamenn sér í höfðinu og skilja ekkert í því að hér fjölgar þunglyndissjúklingum og öryrkjum meira en í öðrum löndum.
Sjálfsmorðstíðni hefur aukist á síðustu árum og reyna að jafnaði um 400 manns að stytta sér aldur á hverju ári.
30 til 40 tekst það.
Það er hroðalegt að horfa upp á stjórnvöld hrekja ungt fólk fram af hengifluginu ofan í sjálfsmorðsgjánna en þau gera þetta vísvitandi með aðgerðum sínum.
Aðgerðum sem koma sér verst fyrir almenning í landinu meðan það er púkkað og malað undir rassgatið á auðvaldsstéttunum í landinu. Útgerðargreifarnir fá miljarða í skattaafslætti meðan fólkið sem skapar þeim auðinn, sjómenn og landverkafólk, fær mylsnuna sem hrýtur af borði þessara glæpamanna.
Segi og skrifa glæpamanna því ríkisstjórnarflokkarnir eru strengjabrúður LÍÚ og kvótagreifana sem stöðugt gefa almenningi í landinu puttann.
Það er bara þannig.
Nú er eitt sem við verðum að skoða og það eru almenn laun og vinnutími á íslandi.
Er það eðlilegt að fólk þurfi að vinna 14 til 18 tíma á dag til að hafa fyrir helstu nauðsynjum?
Mitt svar er nei og þegar við horfum til hinna norðurlandana, þá sér maður þúsundir íslendinga sem þangað hafa flutt, vinna sína átta tíma á dag, fimm daga vikunnar og hafa það gott. Geta komið heim seinnipart dags og notið tímans um helgar í faðmi sinnar fjölskyldu og haft nóg að bíta og brenna.
Mikið af því fólki sem flutti til Noregs á árunum eftir hrun, eftir að það missti allt sitt hér á landi, hefur keypt sér hús eða íbúð og þrátt fyrir að vinna aðeins átta tíma vinnudag, nær það að greiða af lánum og hafa nóg fyrir sig út mánuðinn.
Hvað segir þetta um ísland?
Ungt fólk sem fer í nám erelndis lætur ekki hvarfla að sér að flytja til baka á skerið vegna ástandsins, vitandi að það fær aldrei þau kjör sem það fær erlendis.
Læknum fækkar vegna þess að fólk í læknanámi er ekki að koma til baka í þær aðstæður og launakjör sem hér bjóðast.
Tæknimenntað fólk flytur umvörpum úr landi þar sem hér er ekkert að hafa og kaup og kjör langt neðan við það sem því býðst erlendis.
Haldi fram sem horfir, þá verða hér eingöngu útgerðarmenn, fyrirtækjaeigendur, öryrkjar og aldraðir ásamt nokkrum bændaræflum eftir, því allir vilja lifa mannsæmandi lífi og það er ekki minnsti möguleiki á því með það stjórnarfar sem hér er.
Jú eitt sem ég gleymi og það eru útlendingarnir sem eru fluttir inn frá Kína og öðrum austantjaldslöndum til að þræla á algerum lágmarkslaunum og jafnvel minna fyrir elítuna á Íslandi.
En hvert getur öryrkjaræfill flúið þegar hann getur ekki lifað af því sem honum er skammtað?
Á hann einhverja aðra kosti í stöðunni en að svifta sig lífi í stað þess að vera baggi á því vinnandi fólki sem hér býr?
Það eru engir smáræðis fordómar sem öryrkjar verða fyrir af hendi almennings, bæði ljóst og leynt og þeir fordómar hafa hrakið marga fram af brún sjálfsmorsðhengiflugsins.
Þeir eiga eftir að verða fleiri áður en yfir líkur og ég segi og skrifa, að með aðgerðum sínum gætu ráðherrar þeir sem nú stjórna, alveg eins smeygt snörunni um hálsinn á sjálfsmorðingjanum, neytt lyfin ofan í hann eða sett byssuhlaupið við höfuð hans og hleypt af, því aðgerðum fylgir ábyrgð og stjórnvöldum er lögð sú skylda á herðar að sjá um að fólkinu í landinu líði vel.
Það á svo sannarlega ekki við á íslandi.
Svo því spyr ég, hvert getur öryrkjaræfill flúið þar sem hann getur lifað sæmilegu lífi?
Pistillinn birtist einnig í Kvennablaðinu.