Þegar ég staðfesti framboð mitt til prófkjörs innan Pírata í Suðurkjördæmi í gær, þá voru margir sem komu algjörlega af fjöllum og vissu greinilega ekki að ég er búinn að vera Pírati nánast frá því félagsskapurinn var stofnaður. Ástæða þess að ég stefni í framboð fyrir Pírata er sú að ég tel mig hafa margt fram að færa fyrir almenning í landinu, sérstaklega tekjulægstu hópana þar sem aldraðir og öryrkjar hafa verið sniðgengnir, sviknir og hreinlega stolið af þeim þeim litlu tekjum sem þeim eru skammtaðar af stjórnvöldum undanfarna áratugi.
Alltaf hafa þessir hópar verið látnir mæta afgangi, stjórnvöld hafa ítrekað komið fram við þá sem svikara við kerfið, afætur, þjófa og sett þá undir eftirlit sem gefur skattinum og alls konar eftirlitsaðilum óheftan aðgang að gögnum um þá, sbr. læknaskýrslum, bankareikningum og skattaupplýsingum. Einstaka þingmenn og ráðherrar hafa síðan ekkert verið að skafa utan af hatri sínu og fyrirlitningu á öldruðum og öryrkjum, vænt þá um að svíkja undan skatti og vinna svarta vinnu til að snuða ríkissjóð um það sem ríkissjóði ber. Fjölmiðlar hafa svo verið misnotaðir til að koma þessu hatri stjórnvalda á framfæri án nokkurar gagnrýni eða að þeir hafi leyft lífeyrisþegum að koma fram með sín sjónarmið fyrr en allt logar í illdeilum. Þá er talað við formann ÖBÍ í músarmynd til að friða örykja.
Nóg um það í bili en það er algjörlega ljóst að stjórnarháttum í landinu verður að breyta frá því sem nú er því það gengur hreinlega ekki að halda áfram þeirri helferð sem er í gangi í þjóðfélaginu, það verður að laga það sem aflaga hefur farið og koma á lýðræði í landinu.
Það er ástæðan fyrir því að Píratar eru alveg bráðnauðsynlegt afl til að bylta því kerfi sem við búum við í dag og koma á íbúalýðræði þar sem almenningur í landinu kemur að ákvörðunartöku í stórum málum sem snerta alla þjóðina, hag hennar og velferð.
Píratar eru ekki venjulegur stjórnálaflokkur eins og Framsókn, VG, Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn þar sem miðstýring ræður öllu um hverjir komist í stöður sem fleyta þeim svo inn á þing í kosningum. Píratar er hópur fólks úr öllum hópum þjóðfélagsins með mismunandi áherslur og bakgrunn með ólíkar hugmyndir að því hvernig best sé að haga stjórn landsins. Þess vegna hefur gengið svo illa fyrir þá sem lifa og hrærast inni í kassahugsunarhætti að skilgreina Pírata og koma þeim líka ofan í kassa. Píratar hugsa nefnilega út fyrir alla kassa og sjá fleiri og betri möguleika til hægri og vinstri heldur en hin dæmigerða flokksrotta sem einblínir bara á stefnu eigin flokks í gegnum sogrör og hvorki sér né heyrir neitt annað. Það kallast stöðnun þegar fólk er orðið þannig og það speglar líka hvernig komið er fyrir alþingi í dag, umræðum á þeim vettvangi sem minnir meira á rifrildi þriggja ára barna sem eru eftirlitslaus í sandkassa í nokkra klukkutíma.
Það er nóg að skoða Píratakóðann til að finna út hvort fólk eigi samleið með Pírötum og einnig er gott að glugga í grunnstefnu þeirra því með því að skoða þessa tvo þætti ættu allir að geta séð og skilið hvað Píratar standa fyrir.
Til að geta tekið þátt í því beina lýðræði sem Píratar standa að og til að geta kosið um þau stefnumál sem Píratar stefna að, þarf fólk að skrá sig á x.píratar.is því þar gefst almenningi kostur á að segja sína skoðun á þeim málum sem er verið að vinna að og eru að lokum sett í kosningu til samþykktar eða synjunar. Því fleiri sem skrá sig , því virkara lýðræði. Það er engum vísað frá því að taka þátt í lýðræðinu því þetta er fyrir alla landsmenn hvar í flokki sem þeir eru og hvaða stöðu sem þeir gegna í þjóðfélaginu.
Að lokum mæli ég með því að fólk skoði vef sem hefur fengið heitið Fuglabjargið en þar eru ýmsar umræður í gangi þar sem stefnumál eru sett fram, hugmyndir viðraðar og jafnvel heilu lagabálkarnir teknir til endurskoðunar og umræðu. Mjög góður vettvangur sem er nauðsynlegur öllum þeim sem vilja upplýsta umræðu og taka þátt í mótun betra samfélags til framtíðar.
Að lokum. Þeir sem hafa ekki kynnt sér Pírata en ætlið að gera það, byrjið á að kynna ykkur Píratakóðan og grunnstefnuna. Það hafa allt, allt of margir verið að tjá sig um Píratana án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um hvað þeir eru að tala.
Með vinsemd og virðingu.