Ég ætla bara að henda þessu út í kosmóið til ykkar sem fylgið mér hérna og óska ykkur gleðilegs nýs árs með þakklæti fyrir liðin ár bæði hér í netheimum sem og í raunheimum.
Árið 2017 er búið að vera viðburðarríkt og eftirminnilegt enda hafa gerst hlutir sem hafa sett mark sitt á lífið þar sem í upphafi árs, eða í janúar fór ég í rúmlega fjögurra tíma kransæðarþræðingu þar sem þrætt var fram hjá stíflaðri kransæð í hjartanu. Var vakandi allan tíman og þar sem verkjalyf virka bæði stutt og illa á mig var þetta mjög eftirminnilegt því allan tíman leið mér eins og ég væri í miðju hjartaáfalli og með þvílíkar kvalir í hægri upphandlegg því það var allan tíman eins og verið væri að rista í hann niður í bein með hálf bitlausum hníf. En aðgerðin heppnaðist vel og er ég einstaklega þakklátur öllu starfsfólki LSH sem kom að aðgerðinni og hugsa oft til þeirra því álagið sem þetta fólk er oft undir í starfi sínu er ekkert grín.
Í mars skruppum við Karen í rúmlega þriggja vikna ferð til Svíþjóðar til að kynna okkur betur aðstæður í því landi sem við vorum að fara flytja til, heimsóttum fólk og fjölda staða sem okkur þótti áhugaverðir til að undirbúa okkur fyrir flutningana.
Raunverulega ævintýrið hófst svo þann 13. júní þegar ég hlóð töskum á mótorhjólið, kyssti kelluna bless og lagði af stað til útlandsins, einn á mínum mótorfáki. Um þá ferð má nánar lesa hérna.
Við erum enn svona að koma okkur inn í kerfin hérna í Svíþjóð en okkur líður vel hérna en þyrftum að hafa meira fyrir stafni svona dags daglega yfir vetrartíman en það stendur allt til bóta á nýju ári.
Ég er algjörlega á þeirri skoðun að þessir flutningar hafi verið einhver sú besta ákvörðun sem við höfum tekið því hér duga örorkubæturnar fyrir öllu og vel það, eitthvað sem þær hafa ekki gert síðustu sex árin upp á íslandi, því miður enda er það meðvituð ákvörðun stjórnvalda að halda fólki í helgreipum fátæktar þó svo loforðin fyrir kosningar séu af allt öðrum toga, þá er allt svikið um leið og kosninganóttin er liðin.
Að lokum á þessum fyrsta degi nýs árs óska ég þess að árið komandi verði ykkur gott á allan hátt því þið eigið það svo sannarlega skilið.
Ást og virðing, Jack H. Daníels.