Fordómar „beturvitana“ gagnvart öryrkjum

Orð hafa þýðingu.

Orð hafa þýðingu.

Þeir eru margir og misjafnir „beturvitarnir“ sem tjá sig á samfélagsmiðlunum þessa dagana eða senda pillur í einkaskilaboðum eða tölvupóstum til fólks sem vogar sér að kvarta yfir því að eiga ekki fyrir nauðsynjum út mánuðinn.
Ég held fyrir mína parta að ég sé búinn að fá hátt í 200 skilaboð og tölvupósta vegna minna skrifa um málefni öryrkja og launastefnu stjórnvalda þar sem „beturvitarnir“ hafa fundið út ágæta leið fyrir mig og aðra í minni stöðu til að komast af.  Allir, hver einn og einasti af þessum einstaklingum sem ég kalla beturvita, hafa sagt mér að selja þá hluti sem veita mér fróun og ánægju í lífinu.
Seldu mótorhjólið segja þeir.
Gott og vel, það sem ég fengi fyrir það, sirka hálf milljón mundi duga í nokkra mánuði mér til framfærslu en þá er ég líka búinn að fórna einu af því fáa sem veitir mér hvað mesta ánægju í lífinu, sem er að þeysast um þjóðvegi landsins á mótorfáknum mér til andlegrar lífsfyllingar.
Sjálfur efast ég um að þessir „beturvitar“ myndu í fjárhagserfiðleikum sínum selja frá sér það sem veitti þeim mesta ánægju í lífinu.

Unnusta mín hefur fengið að heyra það að hún eigi bara að selja hestana sína til að eiga fyrir nauðsynjum en þar gildir hið sama um þá sem í heimsku sinni koma með slíkar ráðleggingar, hví að selja það sem veitir manni ómælda ánægju og lífsfyllingu og sitja síðan eftir með innantómt líf?

Hvað er það sem fær þessa beturvita til að halda að það hjálpi fólki eitthvað að selja frá sér þá hluti sem gefa manni lífsfyllingu og ángægju?
Sú skammtímahugsun sem einkennir þessa „beturvita“ kallast í besta falli heimska, því þegar þú ert búinn að selja frá þér lífsfyllinguna og ánægjuna sem þú getur veitt þér, klárað síðan þá aura sem fengust fyrir hlutina til að komast af, á þá bara að byrja að ganga á húsgögn og heimilistæki?

Nei.  Svona ráðleggingar lýsa heimsku þeirra sem ráðleggja.
Þetta er svona eins og að pissa í skóinn sinn í hörkufrosti til að hlýja sér.

Ég fer ekki eftir ráðleggingum „beturvitana“ enda eru þetta fordómar hins heimska og illa upplýsta einstaklings.

Góðar stundir.

Updated: 14. október 2014 — 09:39