Meðfylgjandi mynd tók Elín Ívarsdóttir og birti í fésbókarhópnum Sauðfjárbændur.
Þar má sjá ærfilet, það er að segja hryggvöðva úr fullorðinni kind og verðmiðinn er ekkert slor eða 9.698,- krónur pr. kíló.
Þar segir hún einnig að verð til bænda frá Norðlenska sé í dag 112,- krónur á kíló af rollunni til bænda og getur því hver sem er reiknað út hvort bændur séu vel haldnir af því að senda fullorðið fé í slátur þegar upp er staðið.
Neytendur þurfa að fara að átta sig á því að bændur eru ekkert sérstaklega vel launaðir þegar kemur að því að senda framleiðslu sína í slátur því samkeppnin er nákvæmlega engin á sláturmarkaði hér á landi og því geta sláturleyfishafar hagað sér eins og þeim sýnist hvað varðar verðlagningu til bænda. Það sýnir sig best á því að nú hafa allir sláturleyfishafar ákveðið það einhliða að lækka verð til bænda í komandi sláturtíð um 10% á lambið og allt að 38% á fullorðnu. Þetta gera þeir þrátt fyrir að verðin til neytenda hafi hækkað talsvert mikið það sem af er ári.
Það er algjörlega ljost að lögum um landbúnað og slátrun þarf að breyta og spurning hvort það væri ekki úr vegi að taka upp Nýsjálensku leiðina í ljósi þess að hvar sem fólk kemur í verslanir í heiminum i dag er hægt að kaupa Nýsjálenskt lambakjöt en þú finnur hvergi íslenskt lambakjöt.
Hér á landi eru bændur snuðaðir um eðlilegt verð fyrir framleiðslu sína en sláturleyfishafar og verslunin mokgræðir vegna rangra lagasetninga og niðurgreiðslna sem renna beint í vasa sláturleyfishafana og verslunareigenda.
Þessu verður að breyta.