Fjölskylduhjálpin og Mæðrastyrksnefnd höfum við öll heyrt minnst á og oftar en ekki eru fluttar fréttir af því hvað margir leita sér hjálpar hjá þessum stofnunum. Einn er sá árstími sem sker sig úr og það er Desember mánuður. Jólamánuðurinn. Aldrei hefur annars eins fjöldi sótt um aðstoð fyrir þessi jól eins og árin á undan. Bara hjá þessum tveim stofnunum reiknaðist mér til að um 24.700 hafi leitað sér hjálpar núna í desember. þetta er há tala en reiknast þannig út, að á bak við hverja umsókn eru 2,6 einstaklingar og í fréttum á dögunum kom fram að sex þúsund hafi leitað hjálpar hjá Fjölskylduhjálpinni og milli þrjú og fjögur þúsund hjá Mæðrastyrksnefnd.
Það er ljóst að neyðin er meiri en nokkurn tíma áður þrátt fyrir loforð ríkisstjórnar sem kennir sig við hina norrænu velferðarstjórn um að hlífa þeim tekjulægstu í þjóðfélaginu þegar hún tók við völdum og hafa hendur í hári þrjótana sem gerðu landið gjaldþrota. Allt hefur þetta verið svikið og álögurnar sem almenningur hefur þurft að taka á sig í formi skattahækkana, hækkunnar vöruverðs, skerðinga á lífeyri og svo mætti lengi telja hafa aldrei verið meiri. Samt gortar þessi ríkisstjórn sig af því að kaupmáttur hafi aukist og allt sé hérna á bullandi uppleið en á sama tíma segir velferðarráðherra í Kastljóssviðtali, að lífeyrisþegar geti étið það sem úti frýs, þeir fái ekki krónu meir í hækkunn en þegar hafi verið gefið upp þó hann viti upp á hár hvernig ástandið er. Ekki sveltur hann um jólin eins og fjölmargir lífeyrisþegar, atvinnulausir og láglaunafólk.
En hvernig getur allt verið á uppleið þegar nærri 8% þjóðarinnar þarf að leita til hjálparstofnanna til að geta haldið jól? Er þetta allt saman lygi sem stjórnin er að segja okkur? Er þetta sagt til að blekkja almenning og láta hann halda að það sé bullandi góðæri handan við hornið?
Ef marka má fréttir og viðtöl við fólk núna í Desember, þá er alveg morgunnljóst, að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra ráðherra sem tala fyrir bættum efnahag og auknum kaupmætti á síðustu 12 mánuðum. Hvernig sem það er farið að því að reikna það út er mér hulin ráðgáta því það er vonlaust fyrir barnlaust par að komast af með rúmlega 300 þúsund á mánuði. Það er bara ekki nokkur einasti möguleiki. Það var hægt fyrir ári síðan en alls ekki í dag.
Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins stendur í 76. gr. Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
Þetta er alveg skýrt og er ekki hægt að mistúlka nema þá viðkomandi sé svo gjörsamlega siðblindur að honum stendur gjörsamlega á sama um allt og alla nema sjálfan sig og að hann / hún hagnist sem allra mest á kostnað annarra.
En ef nú ráðherra, ríkisstjórn eða þingið lætur það viðgangast að þessi grein stjórnarskrárinnar sé brotin, hvað þá? Hver eru viðurlögin og refsingarnar?
Eru einhverjar?
Skoðum lög um ráðherraábyrgð.
2. gr. Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
Þarna er strax komið ákvæði sem segir að hægt sé að kæra ráðherra og veit það á gott. Það er gjörsamlega óþolandi að horfa upp á fólk í þúsundavís þurfa að leita til hjálparstofnana vegna vísvitandi hirðuleysis ráðherra velferðarmála sem augljóslega í samstarfi við ríkisstjórnina og þingið, brotið 76. grein stjórnarskrárinnar.
Um það er enginn efi.
En hver á að kæra? Er það sá sem fyrir stjórnarskrárbrotinu verður eða ef um stóran hóp er að ræða, þá þau samtök sem hópurinn tilheyrir?
Það er kominn tími á umræðu um þessi mál og þó fyrr hefði verið.
Almenningur þarf að vakna og taka í taumana í þessum málum. Það er óþolandi að horfa upp á örfáa einstaklinga skipta með sér sameiginlegri eign þjóðarinnar og lifa í vellystingum meðan tæplega 10% þjóðarinnar þarf að leita til hjálparstofnanna til að fæða sig og klæða. Þennan þjófnað þarf að stöðva og ef ekki með góðu, þá með illu.
Að lokum er hér lítið jólalag handa ykkur.
Jól á götunni er jólalag sem samið var á sínum tíma til að styrkja Götusmiðjuna og til að minna á, að á Íslandi er líka fátækt og börn sem hafa ekkert skjól yfir jólin vegna heimilisaðstæðna.
Lagið er eftir Steinar Gunnarsson og Bjarna Tryggvason, texti eftir Bjarna Tryggvason.
Við upptöku lagsins gáfu allir vinnu sína, tónlistarfólk, hljóðver og tæknimenn.
Guðmundur Guðjónsson: Hljóðver og tæknivinna.
Eysteinn Eysteinsson á trommur, Steinar Gunnarsson á bassa, Telma Ágústsdóttir söngur, Þórir Úlfars píanó, Palli Eyjólfs nikka eða orgel, Dan Cassidy fiðla, Bjarni Halldór Kristjánsson gítar, Bjarni Tryggvason söngur.
Myndband unnið í stofunni hjá Bjarna Tryggva þann 11. des 2012 af Jack H. Daníels og Bjarna Tryggvasyni.
Lítið var rifist enda kærleikurinn og samhugur allsráðandi hjá okkur vinunum.
Tileinkað fjölskyldum og vinum lífs og liðnum.