„Þú ert forsjáslaust foreldri og því eru tilkynningar frá þér ekki marktækar, börnin þurfa ekkert talsmenn þar sem við erum þeirra talsmenn,“ er eitt af þeim svörum sem ágæt vinkona mín fékk frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar þegar hún tilkynnti til þeirra að börnum hennar, sem búa hjá föður sínum og fósturmóður liði illa, sættu andlegu ofbeldi og kúgun af þeirra hendi. En hvert er hlutverk barnaverndarnefnda?
Er það ekki að sjá um að börnum líði vel þar sem þau eru og koma þeim til hjálpar ef þeim líður illa eða þau eru kúguð, misnotuð eða beitt andlegu ofbeldi?
Ástæða þess að þessi kona er forsjárlaus er sú, að hún lenti í slæmum aðstæðum fyrir nokkrum árum og taldi því hag barna sinna betur komið hjá föður þeirra meðan hún var að vinna sig út úr þeim vanda sem hún hafði komið sér í. Það var hennar eina úrræði á þeim tímapunkti og það gerði hún þar sem hún elskaði börnin sín og vildi þeim aðeins það besta. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og fljótlega kom í ljós að börnunum leið ekki vel hjá föður sínum.
Hún hefur fengið að heyra frá börnunum sínum, að það sem þau kvarta aðalega yfir er að á heimili pabba þeirra eru þau beitt harðræði, hræðast skapið í pabba sínum og sambýliskonu hans, eru rökkuð niður og fleira í þessum dúr sem auðvitað flokkast undir bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þau fá litla hjálp við heimanámið bæði heima fyrir og í skólanum og samt er skólinn að tala um að þeir séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að standa sem best að námslegum stuðningi.
Samt finnst þeim hjá barnavernd í Hafnarfirði allt í lagi að brjóta trúnaði við börnin……eins og í þessu tilfelli þá sögðu börnin frá einhverju af því sem þau eru ekki sátt við og starfsmaður barnaverndar segir pabbanum frá þessu og pabbinn refsar börnunum fyrir að tjá sig við barnaverndarfulltrúan og þetta þykja fín vinnubrögð
Eldra barnið hennar er með mikla lesblindu og þar af leiðandi miklir námsörðuleikar hjá því og segir skólinn að þar sem barnið skori lágt í lesblinduprófinu þá sjá þeir ekki tilgang til að láta barnið taka prófið. En þá um leið hvernig ætlar skólinn að hjálpa barninu ef þeir eru ekki tilbúnir að gera þær greiningar sem þarf til að vita hvernig þeir geti hjálpað barninu?
Um tíma fékk hún ekki umgengi við börnin sín og fór til sýslumans og gekk frá dagssektum. Það var allt sent inn til barnaverndar til úrvinnslu en ekkert gerist síðan í málinu í talsverðan tíma. Að lokum fer málið á borð bæði hjá barnavernd í Hafnarfirði og barnavernd í Reykjavík og vonaðist hún auðvitað eftir því að eitthvað færi jafnvel að gerast í málinu. En nei. Hún fékk símtal frá barnavernd í Reykjavík um að þeir telji málið vera þannig komið að hún eigi að koma og skrifa undir umgengnissamning, en um það hefur málið ekki bara snúist, heldur um það hvað er í raun börnunum fyrir bestu. Það sem er enn erfiðara núna, er að börnin sem um ræðir eru 10 og 12 ára og samkvæmt alþjóðlega barnasáttmálanum, sem barnaverdarlögin eru alltaf að taka meira og meira í gildi, og þetta tiltekna ákvæði er í íslenskum barnaverndarlögum, að nú er farið að fara eftir aldri og þroska barnanna um það hvar þau vilja búa. Það er ekki lengur miðað við 12 ára aldurinn eins og gert var áður.
Hún sendi póst á velferðarráðherra. Fékk síðan póst frá innanríkisráðuneytinu um að málið væri á þeirra borði. Samt er ekkert að gerast í rauninni. Það er allt stopp. Hún er búin að vera vinna í máli barnana sinna núna í rúm 2 ár og það mjakast ekkert áfram.
Við erum að tala um að snigill fer harðar um en þetta mál.
Að lokum segir hún;
Það er aðeins eitt sem ég get sagt um þetta mál þegar upp er staðið. Þetta er fáránleikinn algjörlega uppmálaður í allri sinni mynd, því það virðist vera sama hvað ég segi og já ég er auðvitað bara ein og já ég er öryrki og bý í félagslegri íbúð, þar af leiðandi þá hlýtur að vera að ég sé með öllu ófær um að hugsa um börnin mín…..eða hvað á ég orðið að halda? Það virðist sama hvað ég reyni að gera og segja til að benda á það sem börnin mín eru að tala um, meira segja hef ég prófað að fá aðra manneskju til að vitna um það sem börnin sögðu og samt það er ekkert gert eða sagt. Það er óþolandi að þurfa endalaust að labba á veggi í öllu kerfinu, það er sama í hvaða lög og reglugerðir ég vitna í það er bara þannig að sama hvar í kerfinu maður þarf að leita, lög og reglugerðir eru bara túlkaðar eins og henntar kerfinu hverju sinni, ekki einstaklingum eða börnunum.
Það sem er í raun allra sorglegast er að þegar upp er staðið þá var ég að setja börnin mín úr öskunni í eldinn með að gera það sem ég taldi á þeim tíma vera þeim fyrir bestu.