Nú styttist í að Ólympíuleikarnir sem standa nú yfir ljúki. RÚV hefur komið þar vel ð málum og sýnt daglega frá atburðum ýmist beint eða eftir á ef viðburðir hafa verið á sama tíma. Vel að verki staðið þar en betur má ef duga skal því Rúv hefur fleiri hlutverkum að gegna og nú er ljóst að þeir hafa ekki tryggt sér sýningarrétt frá ólympíuleikum fatlaðra. Hvers vegna ekki?
Fatlaðir íþróttamenn þurfa að leggja mun meira á sig til að ná þeim árangri að komast á ólympíuleikana heldur en ófatlaðir og það er líka staðreynd, að þeir fá ekki eins mikið af styrkjum til að þjálfa sig eða til að taka þátt á alþjóðlegum mótum.
Hlutverk Rúv er skýrt í lögum og þar segir meðal annars; „9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.“
Strax þarna er skýrt brotið á þessum hópi með því að sýna ekki frá þessum leikum, því það er fullt af fólki sem vill fylgjast með og hefur áhuga.
Einnig má bæta því við, að þetta er gífurleg niðurlæging fyrir það frábæra íþróttafólk sem er að fara að keppa á þessum leikum, að sú stofnun sem það er tilneytt til að greiða afnotagjöld af, skuli ekki sýna því þá virðingu sem það á skilið og Rúv til ævarandi skammar.
Stofnaður hefur verið hópur á Facebook til að hvetja Rúv til að snúa við blaðinu og sýna frá leikunum enda er þetta síður en svo minni viðburður en hinir almennu Ólympíuleikar nema síður sé enda eru þeir Íslendingar sem þarna keppa búnir að vinna til fjölda verðlauna og eiga örugglega eftir að vinna til fleiri á þessum leikum. Það má alveg búast við að íslenski þjóðsöngurinn eigi eftir að hljóma við verðlaunaafhendingu á ólympíuleikum fatlaðra og það væri alveg til að bíta höfuðið af skömminni sýni Rúv ekki frá leikunum.
Hvetjum því Rúv til að sýna frá Olympiuleikum fatlaðra með því að ganga í hópinn á Facebook.