Það lítur allt út fyrir að hægt sé að bjarga Geitafjársetrinu að Háafelli í Borgarfirði en undanfarið hefur staðið yfir söfnun á vefnum Indegogo.com þar sem markmiðið var að safna 90. þúsund dollurum. Því markmiði er nú náð og þá er bara spurning hvort hægt er að semja við Arion Banka um framhaldið og er fólk bjartsýnt á að það takist.
Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir segir í Facebookhópnum; „Björgum geitunum á Háafelli“ að hún sé ótrúlega þakklát fyrir þetta framtak og óskar þess að það náist góðir samningar við bankann.
Ég er ótrúlega þakklát og glöð með þetta , þetta er fyrsta skrefið svo er bara að vona að góðir samningar náist við bankann og svo er bara að bretta upp ermar til að koma mjöltum og ostagerð í farveg. Heilbrigðiseftirlitið er enn að melta með sér hvort ég eigi að fá leyfi til ostagerðar í eldhúsi Geitfjárseturs, það er allt í lagi með vatn og annað en það eru að verða 3 vikur frá því að þau komu að taka út eldhúsið og þau eru enn að hugsa hvað ég megi framleiða.
Það er óskandi að allt gangi upp og samningar náist svo hún geti haldið áfram því frumkvöðlastarfi sem hún hefur staðið í árum saman og að framleiðsluleyfi fáist sem fyrst.
Hægt er að fylgjast með starfinu á facebook síðu Jóhönnu.
Hér má sjá skjáskot af því að markmiðið að safna 90 þúsund dollurum hefur náðst.