Það er alltaf dálítið kaldhæðnislega gaman að fylgjast með umræðum spekinga um júróvisjón keppnina vikuna fyrir keppni. Þar keppast allir við að sýna hversu miklir spekingar þeir eru, rýna í lögin sem taka þátt og spá og spekúlera. En hversu áræðanlegir eru svo þessir júróvisjónspekingar? Jú þeir ganga fram og spá venjulega íslenska laginu í topp fimm þó þeir svartsýnustu fari alveg niður í áttunda sætið. Það kostar venjulega að þeir eru skotnir niður sem amatörar sem hafa ekki hundsvit á keppninni.
Nánast alltaf kemur svo í ljós þegar aðalkeppninni er lokið og niðurstaðan liggur fyrir, að íslendingar verma sætin neðan við miðju listans og svo var einnig í keppninni í gær. Maður fer því að velta fyrir sér hvernig þessir sjálfskipuðu spekingar, sem liggja yfir þessum keppnum, keppendum og lögum, geta fengið það út að ísland sé ár eftir ár í toppsætunum hjá þeim þrátt fyrir að lokaniðurstöðurnar sýni annað á hverju ári.
Eru þetta kanski þegar upp er staðið engir spekingar heldur ofurbjartsýnir einstaklingar sem hafa enn þá trú, að allt sem íslendingar geri á erlendum vettvangi sé mest, best og stæðst og þeir sem efist um það séu hreinlega bara illa upplýst flón sem hafi ekki vit á þessum málum? Maður spyr sig þá hver er flónið þegar niðurstöðurnar liggja fyrir?
Nú ætla ég ekki að gera lítið úr flutningi íslenska hópsins, þau stóðu sig í alla staði vel með sitt atriði og lítið hægt að setja út það þó eitt og annað hefði mátt fara betur. Jónsi var ekki alveg að halda tóni á tveim stöðum og Gréta reyndar líka. Hreyfingaleysi á sviðinu var hópnum ekki til framdráttar, þar hefði mátt vera aðeins meira líf.
En hvernig verður þetta svo með alla júróspekingana að ári? Verður ekki sama uppi á teningnum þá? Þá byrjar sennilega ballið aftur bæði hjá spekingunum og svo almúganum sem ekkert veit eða kann þar sem íslandi verður spáð einhverju af topp fimm sætunum.
Ég er svo sannarlega farinn að hlakka til.