Þessa dagana fer fram önnur umræða á alþingi um fjárlög fyrir árið 2015 og sýnist sitt hverjum um þau. Stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu sameiginlega fram tillögu til breytinga á ákveðnum þáttum í fjárlögunum en enginn þeirra, ekki einn einast hefur lagt til að afturkalla 0,5% lækkun á árlegri hækkun örorku og ellilífeyrisbóta sem Fjárlaganefnd hefur úrskurðað að skuli koma til framkvæmda um áramót.
Skoðum nokkur dæmi um fordómana sem við fáum yfir okkur reglulega.
„Hvahh? Þetta er nú bara hálft prósent sem um er að ræða“; Gætu einhverjir haft á orði.
Hafa öryrkjar það hvort sem er ekki svo helvíti gott?
Geta hangið heima hjá sér alla daga á kostnað þeirra sem þræla baki brotnu til að eiga í sig og á?
Fullt af öryrkjum sem ekkert er að og geta alveg drullast til að fara í vinnu.
Helvítis letingjar sem nenna ekki að sjá fyrir sér og ætlast til að fá allt fyrir ekkert.
Þeim sem svona haga sér skal bent á nokkur einföld atriði.
Það fer enginn á örorku að gamni sínu og allra síst að ástæðulausu.
Þeir sem hafa haldið því fram að það sé svo auðvelt eru einfaldlega að ljúga því þar sem það tekur að lágmarki eitt til eitt og hálft ár með endalausum læknaviðtölum, skoðunum og rannsóknum áður en viðkomandi er „dæmdur“ öryrki.
Ég segi og skrifa dæmdur, því þetta er dómur um ömurlegt líf hjá öllum sem verða fyrir því að missa heilsuna og þurfa að lifa á örorkubótum því það er svo margt sem glatast annað en bara líkamleg heilsa því þegar fólk dettur út af vinnumarkaðinum þá tapast svo gott sem öll félagsleg tengsl og fólk fer að loka sig af heima hjá sér, fer sjaldnar út úr húsi nema í algerri neyð og sumir sem verst eru settir hvað þetta varðar hafa þróað mér sér gífurlegt þunglyndi og óbærilega félagsfælni sem síðan getur brotist út í ofsakvíða bara við þá tilhugsun að þurfa að fara út svo dæmi sé tekið.
En aftur að vandamálinu með stjórnarandstöðuflokkana, ALLA sem einn, en enginn þeirra, meira að segja sá sem ég treysti hvað helst á, hefur svikið mig.
Ekki bara mig heldur alla öryrkja og ellilífeyrisþega sem treystu á að þeir mundu ganga fram fyrir skjöldu og mótmæla því að þessi lús sem við fáum um hver áramót, (skitinn 3 til 5 þúsund) yrði skorin niður um 1.500 til 2.000 kall, (þessar tölur eru eftir að skattur hefur verið slitinn af bótunum).
Allir sviku þeir okkur þessir flokkar sem kenna sig við velferð.
þeir eru þar með lítið skárri en þeir flokkar sem nú ráða lögum og lofum í landinu með daglegum svikum við fólkið í landinu.
Þriðja umræðan er þó eftir og það er von mín og ósk, að einhver stjórnarandstöðuflokkurinn hafi kjark til að koma fram og verja okkur sem eigum okkur enga málsvara á alþingi og aðeins eina grúmáttlausa druslu hjá Öryrkjabandalagi íslands sem minnir mann helst á gufuna sem kemur uppa hlandbununni þegar maður pissar að morgni dags.
Það er með mikilli sorg í hjarta að þurfa að senda þessi skilaboð til stjórnarandstöðuflokkana en því miður nauðsynlegt.
Takið ykkur tak og mótmælið fyrir okkar hönd hvernig ríkisstjórnin kemur fram við okkur og krefjist þess að við fáum mannsæmandi hækkun um áramótin ef þið hafið einhvern snefil af manndómi í ykkur því annars, (máttlaus hótun sem verður örugglega bara hlegið að), mun ég setja alla mína orku í að skrifa jafn illa um ykkur eins og ég skrifa um ríkisstjórnarflokkana og gagnrýna öll ykkar verk, jafnvel það sem þið „segist“ ætla að gera vel.
Takið til ykkar sem eigið.
Lesið, lækið, deilið og ræðið.