Engar fréttir eru góðar fréttir

Mynd fyrir athygli.

Ég talaði um það þegar ég fór í þetta ferðalag að ég ætlaði að vera duglegur að segja ferðasöguna og hvernig gengi hjá okkur en aðstæður hafa hagað því þannig að ég hef einhvern veginn ekki komið mér að því að skrifa neitt hingað til.  Eitt geta lesendur mínir þó huggað sig við og það er að engar fréttir eru góðar fréttir.

Við höfum verið að skoða eignir hérna í Svíþjóð og fundið nokkrar sem okkur hugnast en það strandar samt á því að við getum keypt að við eigum ekki fyrir útborun í eigninni nema selja hesthúsið okkar uppi á Íslandi.  Eigum góða von um lán fyrir rest en á síðustu tveimur árum hafa bankar hér í Svíþjóð hert mjög reglurnar varðandi útlán til húsnæðiskaupa.  Það gæti því farið svo að við yrðum að fresta kaupunum sem eru mikil vonbrigði fyrir okkur þar sem við fundum nánast draumaeignina og erum að berjast við að reyna að fá lán fyrir henni.

Svona þar fyrir utan er lítið að frétta, höfum þvælst mikið um og skoðað marga fallega staði, hitt og kynnst fullt af flottu og góðu fólki sem hefur auðgað líf okkar mikið og skemmt okkur í félagsskap tveggja mótorhjólaklúbba sem hafa tekið okkur opnum örmum.

Næst liggur leið okkar suður á bóginn en því miður verðum við að sleppa öllum útúrdúrum sem höfðu verið settir í ferðaplanið því efnahagurinn leyfir þá ekki í þetta sinn.  Noregur og Danmörk verða að mæta afgangi í þessari ferð nema maður vinni í lottó eða skafi lukkumiða sér til happs því tekjur öryrkjans duga skammt til ferðalaga og skemmtana þó ódýrara sé að ferðast hér erlendis og lifa heldur en á íslandi.

Hvenær ég skrifa næst veit ég ekki, það gæti jafnvel ekki orðið fyrr en við komum heim til Íslands því það styttist í ferðalokin hér í ríki Karls Gústafs og Silvíu drotningar.

Góðar stundir.

Updated: 14. mars 2017 — 08:16