Draga fram lífið með því að borða úr ruslatunnum

Ástandið á íslandi er komið á þetta stig.

Það eru sum málefni sem eru taboo hér á landi og má hreinlega ekki ræða um.  Eitt af þeim málum er vandi þess fólks sem hefur sótt til fjölskylduhjálpar íslands og mæðrastyrksnefndar eftir matarhjálp.
Nú þegar þessum stofnunum hefur verið lokað yfir sumartíman eru margir sem sjá ekki aðrar leiðir en að leita að matvælum í ruslatunnum veitingastaða, verzlana, skyndibitastaða, bakaría og jafnvel í heimilissorpi þeirra sem lifa við alsnægtir í betri hverfum borgarinar en fólk reynir þó með öllum ráðum að bjarga sér með öðrum hætti td með því að safna dósum og flöskum.  Það geta þó ekki allir og stundum er hreinlega ekkert að hafa og þá er eina lausnin að leita í ruslatunnurnar.

 Ég fékk fyrir stuttu bréf frá ungri einstæðri móður sem er í þeirri stöðu í hverjum mánuði að eiga ekki fyrir mat og nú þegar hjálparstofnanir eru lokaðar neyðist hún til að framfleyta sér og börnunum á mat sem hún hirðir úr ruslinu.
Hún segist ekki skilja í því að stjórnvöld skuli horfa fram hjá þörfum þeirra tekjulægstu í þjóðfélaginu  og endalaust skera niður hjá þeim meðan þeir sjálfir skammti sér launahækkanir á einu bretti sem nemi mánaðarlaunum öryrkja eða ellilífeyrisþega.

Hún lýsir í bréfi sínu hversu mikil niðurlæging það sé, að laumast í ruslatunnur og gáma verslana eftir lokun til að finna matvæli sem hefur verið hent þar sem þær séu komnar fram yfir síðasta neysludag.  Að finna grænmeti ávexti og brauð í rauslinu til að hún og börnin geti fengið að borða sé einhver sú versta niðurlæging sem hún hafi upplifað og það hafi komið upp sú hugsun hjá henni að stytta sér og börnunum aldur til að komast hjá skömminni og niðurlægingunni.  Hún hafi aldrei talað um neitt af þessu við aðra og skömmin við að framfleyta sér með þessum hætti komi í veg fyrir að hún segi nokkrum frá þessu.

Í niðurlagi bréfsins segir hún orðrétt;  „Það er von mín og ósk, að einhverjir reyni að setja sig í mín spor og sjái hvað þetta er ofboðslega mikil niðurlæging fyrir hvaða manneskju sem er.  Að stjórnvöld geri sér grein fyrir því, hvað þau eru að eyðileggja mörg líf með aðgerðum sínum, eiginhagsmunaspillingu, sjálfsdekri og síðast en ekki síst því dekri við mestu glæpamenn þjóðarinar.  Glæpamenn sem hreinsuðu bankakerfið innan frá og eru  núna verðlaunaðir með niðurfellingum upp á miljarða á miljarða ofan meðan fólkið í landinu er neytt til að taka á sig skuldir þessa óþjóðalýðs og leita sér matar í sorpinu.  Skömm þeirra sem landinu stjórna er mikil.  Mjög mikil“.  Segir hún að lokum.

Ég er sammála henni í því að þarna er um málefni að ræða sem þarf að opna og tala um.   Þeir sem eru í þessari stöðu þurfa að stíga fram og segja frá sínum aðstæðum hvort sem það er undir nafni eða nafnlaust.
Ég er tilbúinn að segja sögur þess fólks hér á síðunni ef það er einhver sem hefur áhuga á að tjá sig en vill ekki koma fram undir nafni.
Hægt er að senda mér póst hérna á síðuni eða á netfangið jack@jack-daniels.is því þetta eru málefni sem þarf að gera opinber.

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 25. maí 2015 — 20:45