„Öll hús hafa burðarveggi, svo þau hrynji hreinlega ekki. Hjúkrunarfræðingar eru burðarveggir spítalans. Án þeirra verður engin spítali. Að það sé í alvöru 2015 og engin vilji sé fyrir því að borga þessu sprenglærða fólki mannsæmandi laun er til hábornar skammar. Í dag skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur, að vera hluti af þjóð sem gerir ekki meira fyrir þá sem vinna svo stórt hlutverk í samfélaginu.“
Þetta skrifar kona í stöðufærslu á Facebook sem þekkir báðar hliðar hjúkrunarfræðinar þar sem móðir hennar og vinkona hafa báðar starfað á sjúkrahúsi og móðir hennar einnig verið hinu megin borðsins sem sjúklingur og því þurft að njóta umönnunar og aðstoðar hjúkrunarfræðinga.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig einn sjálfstæðismaður, Þorsteinn nokkur Sigurlaugsson, lítur á störf hjúkrunarfræðinga. Því miður er hann ekki sá eini sem hugsar svona og tjáir sig með þessum hætti því þetta er sá hugsunarháttur sem er því miður, sjálfstæðismönnum og siðblindingjum tamur og þykir sjálfsagður.
Við skulum halda áfram og sjá hvað Dagbjört skrifar seinna í pistli sínum á facebook, en hún rekur söguna alla þar í stöðufærslu sinni:
Mamma mín hefur líka prófað að vera „hinum megin við borðið“. Þar er hún stödd núna. Í hverri viku kemur yndislegur hjúkrunarfræðingur heim til okkar. Léttir okkur lífið og hjálpar meira en orð geta lýst.
Þegar mamma lá inn á spítala var hugsað um hana af alúð og það var ekki ein einasta stund sem ég var hrædd um að hún fengi ekki það sem hún þurfti. Henni var gefið að borða, gefin lyf, gefið súrefni þegar þess þurfti, tekið utan um hana þegar allt virtist vera að hrynja. Það voru allt hjúkrunarfræðingar.
Þegar ég stóð á spítala ganginum, grátandi, titrandi og ofandaði auk þess að geta varla staðið í lappirnar eftir að hafa horft á mömmu fara í sitt fyrsta flog kom að mér yndisleg kona, tók utan um mig, róaði mig og sagði mér að ég þyrfti sykur í líkaman. Kom hún svo færandi hendi með djús og kaffibolla fyrir mig. Þetta var hjúkrunarfræðingur.
Eitt skipti datt mamma inn á spítalanum. Ég einhvernvegin náði að hringja bjölluni en að öðru leiti gat ég ekki hreyft legg né lið, mér brá svo. Kona kom inn, kallaði svo á fjórar konur í viðbót. Þær tóku mömmu, létu hana i rúmið, gáfu henni súrefni, lyf og það sem mér fannst mikilvægast, þær tóku utan um hana, róuðu hana niður og létu henni líða betur. Þetta voru hjúkrunarfræðingar.
Það sem þó slær mig mest er það algjöra skilningsleysi og sú ótrúlega heimska sem margur almenni borgarinn hefur skrifað í athugasemdir við fréttir fjölmiðla um lagasetninguna á verkfall BHM og hjúkrunarfræðinga þar sem stjórnvöldum er hrósað fyrir lagasetninguna en því starfsfólki sem samningsrétturinn var tekin af ásamt því að brjóta á stjórnarskrárbundnum réttindum þeirra, er úthrópað fyrir að sinna ekki starfsskyldum sínum og það kallað svikarar og rakkað niður í skítinn.
Stundum heldur maður að meiri hluti þessarar þjóðar þjáist af Stokkhólmsheilkenninu þar sem það tekur ástfóstri við kúgara sína og ver þá fram í rauðan dauðan meðan kúgarinn sargar hausinn af viðkomandi með bitlausum búrhníf.
Þó söngur þessi í meðfylgjandi myndbandi hjómi ekki hástöfum um torg og stræti hjá stuðningsmönnum stjórnvalda og þeim sem fylgja þeim að málum, þá er hann algjörlega lýsandi fyrir þetta fólk og maður getur ekki annað en vorkennt því fyrir heimskuna og skammsýnina sem það þjáist af.
Það er ömurlegt til þess að hugsa að á morgunn, 17. júní mun einhver mesti lýðskrumari og lygari sem hefur sest í stól forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stíga í pontu á Austurvelli til að halda þjóðhátíðarræðu vegna lýðveldisstofnunarinnar og afmælis Jóns Sigurðssonar og reyna að ljúga að því fólki sem þar verður samankomið, að aldrei í sögu landsins hafi hagvöxtur og jöfnuður verið meiri í landinu.
Þetta mun hann gera gegn betri vitund þar sem börn, unglingar og fullorðið fólk verður saman komið með sultardropa á nefinu og garnagaul af hungri því það nær ekki endum saman í þessu velferðarþjóðfélagi sem þessi lygari og lýðskrumari er á góðri leið með að gera að rjúkandi rústum með aðgerðum sínum. Framan við hann og vel varðir af illa launaðri og fámennri lögreglu munu svo viðhlæjendur hans og trygglynd hundsspottin stija og klappa fyrir lygaranum.
Sem betur fer er þó hópur fólks í þessu þjóðfélagi sem hefur boðað til mótmæla undir ræðu lýðskrumarans þar sem vonandi verður gert hróp að honum og þeim lygum sem hann mun gala yfir landslýð á torginu.
Það er líka ömurlegt að sjá hvernig framsóknarmenn í borginni tjá sig um komandi mótmæli og þar fer fremst í flokki Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi, sem sendir mótmælendum tóninn á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagðist vonast til þess að þeir gætu „rifið hausinn út úr rassgatinu á sér“ þennan eina dag.
Einnig segir hún: „Ég held að við ættum að hugsa aðeins meira til barnanna og hvernig fyrirmyndir við erum.“
Ef einhver er kyrfilega með hausinn í einhverju rassgati, þá er það áðurnefnd Guðfinna því eins og segir hér ofar, þá er hætt við að mest verði þetta samankomin börn fátækra foreldra sem ná ekki endum saman með tekjum sínum, vegna aðgerða stjórnvalda, og því verði þau grátandi úr hungri ef eitthvað er og garnagaul þeirra og foreldrana leika svo þjóðhátíðarstefið undir fyrir ráðamenn þessarar þjóðar.
Betur væri því fyrir þetta konugrey að þegja en opinbera heimsku sína og siðblindu á torgum samskiptamiðla og fréttamiðla.
Í ljósi þess hvernig ráðamenn og tryggir hundsrakkar stjórnvalda haga sér, þá er enginn ástæða til að mæta ekki á fyrirhuguð mótmæli og láta vel í sér heyra þegar Simmi flytur lygaræðu sína og púa hann niður svo hann komist ekki að fyrir hávaða. Nóg er að hlusta á mannskrípið ljúga í viðtölum á erlendum fréttastofum eins og hann varð uppvís að á Channal 4 í vikunni sem leið.
Yfirskrift mótmælanna er svohljóðandi:
Ríkisstjórnin hefur tekið verkfallsréttinn af launafólki og gert alvarlega aðför að heilbrigðiskerfinu. Þau lækka skatta og gjöld á útgerðina á meðan þau fullyrða að ekki séu til peningar í túlkasjóð heyrnarlausra. Ríkisstjórnin hefur gengið á bak orða sinna margoft og svikið hvert kosningaloforðið á fætur öðru. Stjórnvöld hafa vanrækt skyldur sínar gagnvart þeim sem minna mega sín, fátækum, heimilislausum og öldruðum. Lýðræði er ekki aðeins á fjögurra ára fresti, ríkisstjórnin starfar ekki í umboði fólksins í landinu.
Mætum öll á Austurvöll 17. júní kl. 11:00 og sendum stjórnvöldum sterk skilaboð: Þið starfið ekki í okkar umboði! Tökum með okkur skilti og áhöld. Við mótmælum öll vanhæfni ríkisstjórnar Íslands!
Þeir sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús og hafa notið umönnunar hjúkrunarfræðinga er bent á að hugsa um hvernig það hefði verið fyrir þá ef það hefði enginn hjúkrunarfræðingur í vinnu þar sem þeir voru en í staðinn hefði verið pillusjálfssali við rúmið.
Villt þú ekki standa með réttlætinu og þeim sem brotið er á í þessu þjóðfélagi af stjórnvöldum?
Ef svarið er já, þá mætir þú.