Hugljúft bréf Bjarna Ben til Sjálfstæðismanna. Ég segi nú bara: Árangur áfram, ekkert stopp!
Kæri félagi!
Atburðarásin undanfarna daga hefur verið hröð og ég get vel játað að hún kom mér á óvart. Fyrst og fremst olli hún mér þó vonbrigðum. Þeim mun vænna hefur mér þótt um að fá ótal hlýjar og góðar kveðjur frá fólki hvaðanæva af landinu. Ég met þær mikils.
Ég get ekki svarað fyrir þá ákvörðun föður míns að veita einstaklingi umsögn þegar hann sótti um uppreist æru. Undirskrift hans var hluti af úreltu og meingölluðu ferli sem núverandi dómsmálaráðherra hafði þegar í maí hafið vinnu við að afnema. Sú vinna hófst áður en málin komust í hámæli en brotaþolar og aðstandendur þeirra eiga heiður skilið fyrir að knýja fast á um breytingar.
Viðbrögð samstarfsflokka okkar við meintum trúnaðarbresti, sem var að vísu enginn í huga annars flokksformannsins og tók nokkra daga að verða til í huga hins, voru fráleit og ábyrgðarlaus gagnvart fólkinu í landinu. Samstarfinu var slitið án þess að minnsta viðleitni væri gerð til að eiga samtal um það mál sem deilt var um.
Sjálfstæðisflokkurinn hleypst ekki undan ábyrgð. Við munum stýra starfsstjórn fram til kosninga hinn 28. október, en þá leggja kjósendur dóm á störf okkar og stefnu.
Í dag eru einungis 36 dagar til kosninga. Við eigum mikið verk fyrir höndum á stuttum tíma.
Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að fá aftur traust og festu í stjórnmálin í landinu. Kannanir sýna að líkur eru á að smáflokkum fari enn fjölgandi með tilheyrandi glundroða. Við slíkar aðstæður er sterk staða Sjálfstæðisflokksins enn þýðingarmeiri en ella. Við munum ótrauð sækja fram, styrkja stöðu okkar og verða áfram kjölfestan í íslenskri pólitík.
Árangur okkar er ótvíræður. Við finnum að fólk kann að meta það og það treystir því að við höldum áfram á sömu braut.
Við siglum tæpast lygnan sjó næstu vikur. Framundan er snörp kosningabarátta. Hún verður vafalaust óvægin á köflum en Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei óttast kjósendur. Við erum ævinlega tilbúin til kosninga og hlökkum til að fara um landið, eiga samtal við landsmenn og kynna stefnumál okkar.
Við hefjum kosningabaráttuna með baráttufundi á Hilton Reykjavik Nordica í Reykjavík á laugardaginn klukkan 11. Ég vona að þú eigir þess kost að mæta þangað.
Bjarni Benediktsson
Formaður Sjálfstæðisflokksins
Þarna lýsir Bjarni því best hvernig það er, engin iðrun, engin eftirsjá af gerðum þingmanna, ráðherra og þeim sem starfa fyrir flokkinn eina. Þetta er nefnilega allt saman öðrum að kenna þó svo staðtreyndin sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi síðustu þrjú skipti í ríkisstjórnarsamstarfi, hrökklast frá völdum áður en kjörtímabilið er úti.
Ég gerði ekkert rangt.
Hinir eru fávitar.
Kjósið mig aftur svo ég geti haldið áfram að ræna þetta sker að innan.
Takk lömbin mín fyrir óbilandi trú á mér í blindni.
Það er ekki nokkur einasti vilji til að líta í eigin barm og skoða hvort sökin gæti mögulega legið hjá Bjarna sjálfum, samstarfsfólki hans eða í gjörðum flokksins.
Nei, þetta er allt einhverjum öðrum að kenna.
Meðfylgjandi mynd segir svo allt sem segja þarf um hvernig Bjarni sér íslenska kjósendur.