Meðan hagkerfið hrekkur til baka nota hin ríku tækifærið og fjárfesta í sjálfum sér. Fyrst er borgaður 2,3 milljarðar króna í arð vegna ársins 2020 og síðan mun fyrirtækið kaupa eigin bréf, allt að 10% heildarhlutafjár. Það er ígildi 9,9 milljarða króna sem renna til eigendanna í formi aukins verðmæti bréfa þeirra. Samtals er þetta því 12,2 milljarða króna út úr Brim til eigendanna. Af þeirri upphæð renna um 6,2 milljarðar króna til fyrirtækja Guðmundar Kristjánssonar og bróður hans.
Þetta skrifar Gunnar Smári Egilsson á fésbókarsíðu sína og útskýrir síðan betur.
Til samanburðar innheimti ríkissjóður 4,8 milljarða króna í veiðigjöld vegna ársins 2020. Þeir Kristjánssynir, tveir menn, munu því fá 30% meira í arð af auðlindum almennings þetta árið en öll þjóðin.
Það er eitt. Hitt er að þetta linnulausa auðmannadekur ríkisstjórnarinnar, blind trú á að engir aðrir geti örvað efnahagslífið, byggir ekki á neinni reynslu né viti. Þvert á móti er vitað að í svona ástandi, óvissu í efnahagsmálum samhliða því sem Seðlabankinn eykur fé í umferð, þá nota hin ríku tækifærið og fjárfesta í sjálfum sér; nýta sér stöðuna til að auka við auð sinn en fjárfesta ekki krónu í nýjum atvinnutækifærum. Aðrar þjóðir hafa reynt þessa leið með ömurlegum afleiðingum.
Færslu Gunnars má lesa hérna í heild sinni.