Ástæður fyrir fjölgun öryrkja eru ekki flóknar

Formáli:

Þunglyndi meðal þess sem er orsakavaldur örorku hjá ungu fólki.

Þunglyndi meðal þess sem er orsakavaldur örorku hjá ungu fólki.

Það sem hér fer á eftir eru hugleiðingar leikmanns, amatörs en ekki fræðimanns eða sérfræðings og eru dregnar saman út frá persónulegri reynslu, samtölum við annað fólk í svipaðri eða álíka stöðu sem og fólk sem hefur komið að greiningu öryrkja, svo sem lækna, sálfræðinga og geðlækna auk þess sem undirritaður hefur lesið tuga skýrsla og ritgerða um þau mál sem fjallað er um hér að neðan.  Einnig styðst undirritaður við eigin reynslu og skrifar að hluta til út frá henni.

Öryrkjum á íslandi hefur fjölgað mikið síðasta áratugin og hafa margir furðað sig á þeirri þróun.  Frá 2009 til ársins í ár hefur þeim einstaklingum fjölgað um 3000 en mest var þó fjölgunin á þeim tíma sem kennd eru við góðærin fyrir hrun og kemur það þeim er hafa þessi mál á sinni könnu hvað mest á óvart.

Margar nefndir hafa verið skipaðar og margir sérfræðingar kallaðir til svo hægt sé að komast að því hvað það er sem veldur því að öryrkjar eru fleiri á íslandi en á hinum norðurlöndunum en lítið hefur orðið um árangur og þessir sprenglærðu fræðingar fátt annað gert eftir að hafa þvælt með málin fram og aftur, spáð og spekúlerað, reitt hár sitt og skegg ásamt því að hafa klórað ótal göt á sinn sprenglærða haus.  Kanski er ástæðan sú að þeir er sprenglærðir á mjög þröngu og sértæku sviði og sjá því ekki heildarmyndina.
Það er ein skýringin.

Kanski er þá best að amatörinn sem aldrei hefur sérhæft sig, heldur aðeins spáð í heildarmyndinni og velt fyrir sér hlutunum, slái fram kenningu?
Kenningu sem gæti mögulega fengið alla þessa fræðinga til að staldra við og sjá hlutina í víðara samhengi heldur en bara frá sínu sérfræðisviði.

Staðreyndir.

Til að byrja með þurfum við að skoða nokkrar staðreyndir um íslendinga og íslenska menningu svo hægt sé að sigta þá þætti út sem við ætlum að skoða.
Enn og aftur verður að taka það fram að sá sem setur þetta fram er ekki „fræðingur“ eða á nokkurn hátt menntaður til að fást við þessa hluti en er vel lesinn og hefur kynnt sér það sem hann er að fjalla um.

Allir vita að íslendingar eru harðduglegir og víla ekki fyrir sér að vinna langa og stranga vinnudaga, tólf tímar þykir bara normalt hér á landi og margir sem setja ekkert fyrir sig að vinna sextán til átján tíma á dag ef svo ber undir og jafnvel allar helgar líka.
Margir af þeim sem vinna mikið telja það vera letingja og jafnvel aumingjar sem vinna bara átta tíma á dag.

Þegar maður fer að spá í þessa óhóflegu vinnu og álagið sem því fylgir að vinna svona mikið, þá spyr maður sig hvort þar geti legið ein ástæða þess að fólk er komið á örorku fyrir fertugt og jafnvel fyrr?
Svarið getur ekki orðið annað en já.
Það heldur það ekki nokkur manneskja heilsunni með því að vinna sextán til átján tíma á dag mánuðum og jafnvel árum saman.  Þeir sem það gera slíta likamlegri og andlegri heilsu sinni helmingi hraðar heldur en sá sem vinnur sína átta tíma enda sá sem vinnur svona langa vinnudaga undir miklu meira andlegu álagi heldur en eðlilegt er og að auki nær hann aldrei þeirri líkamlegu og andlegu hvíld sem líkamanum er nauðsynleg á aðeins sex til átta tímum.

Önnur staðreynd sem litið er framhjá er launaliðurinn.
Lág laun sem fólk fær í sinni dagvinnu ýta stöðugt undir að fólk vinni yfirvinnu til að hækka hjá sér launin og þarna kemur strax fram vítahringur sem nánast vonlaust er að komast út úr og áður en fólk veit er það farið að vinna þessa sextán til átján tíma til að komast af fjárhagslega.

Þriðja staðreyndin er síðan þunglyndi og ýmsir sálrænir kvillar sem leggjast á fólk sem vinnur svona mikið því ungt fólk vill líka tíma til að skemmta sér og fara út með sínum vinum á lífið, fá sér í glas og hafa það gaman.  Það er bara eðlilegt.

En það er ekki eðlilegt þegar fólk vinnur sextán til átján tíma á dag, fær litla sem enga hvíld milli tarna og launin svo lélegt að fólk getur varla leyft sér að gera nokkurn hlut.
Unga fólkið sem vinnur svona og notar svo helgarnar í að hella í sig áfengi og skemmta sér brennir heilsunni enn hraðar upp en ella.  Eftirköstin eru síðna þunglyndi í mismiklum mæli.

Þeir sem eru í krefjandi námi og eru með mikið heimanám hafa það ekkert betra því sífelldar fjárhagsáhyggjur hjálpa því fólki ekkert áfram í náminu né heldur hjálpar það því að ná árangri þegar hugurinn er bundinn við það hvernig eigi að komast af fjárhagslega.

Skilningsleysið hjá stjórnvöldum er algert i þessum málum öllum.

Fjöldinn allur af skýrslum og allskonar skjölum hefur verið gefin út um ástæður fjölgunnar á öryrkjum á Íslandi og er efni þeirra og innihald allt frá því að vera hreinn skáldskapur þar sem hlutdrægir fúskarar á vegum stjórnvalda hafa verið með puttana á lyklaborðinu án þess að hafa í raun hundsvit á því sem þeir eru að fjalla um.  Gott dæmi er skýrsla Tryggva Þórs Herbertssonar frá árinu 2005 og er hún númer eitt í heimildaskránni.

Þar segir meðal annars strax í upphafi hennar:

Ísland er ekkert einsdæmi þegar kemur að algengi örorku — örorkulíkur hafa aukist í
öllum ríkjum OECD undanfarna áratugi. Ástæður þessarar fjölgunar eru langt frá því
að vera kunnar en helst er horft til þess hvernig fólk er metið inn á örorku og hve
ríflegar bæturnar eru.

Athugið að þetta er frá árinu 2005 eða fyrir níu árum síðan þegar hér á landi átti að ríkja bullandi góðæri þar sem allir höfðu það svo rosalega gott að sögn stjórnvalda í landinu á þeim tíma.
Málið var bar á þeim tíma að öryrkjar höfðu það ekkert sérstaklega gott þó þeir hafi á þeim tíma haft það margfallt betra en í dag.
Við verðum líka að horfa til þess að lægstu laun á þessum tíma voru ekkert sérstök þrátt fyrir þetta margrómaða góðæri.

Í skýrslunni er komið inn á einn mjög sterkan punkt sem gott er að hafa til hliðsjónar þegar verið er að fjalla um öryrkja og fjölgun þeirra.
Þar segir meðal annars á blaðsíðu fimm:

Fjárhagur öryrkja
Margvíslegar bætur og styrkir standa öryrkjum til boða. Til að draga upp heildstæða
mynd af afkomu öryrkja er nauðsynlegt að taka tillit til samspils afsláttar, styrkja og
bóta sem þeim standa til boða að viðbættum bótum vegna örorku frá Tryggingastofnun
ríkisins og lífeyrissjóðunum.
Í 3. kafla kemur í ljós að mikill fjárhagslegur hvati er fyrir láglaunafólk að leita eftir
örorkumati, enda getur það hækkað laun sín umtalsvert með því móti. Að sama skapi er
lítill hvati fyrir fólk að hverfa af örorkubótum nema þokkalega vel launuð vinna bíði
þeirra. Núverandi kerfi er verulega vinnuletjandi og fullljóst að það borgar sig ekki
fyrir öryrkja að fara út á vinnumarkað og hverfa af bótum fyrir lægri mánaðarlaun en
127 þúsund kr., eða jafnvel 165 þúsund kr. ef afsláttur sem örorkuskírteini veitir er
nýttur og nokkrar vægar forsendur eru uppfylltar. Þá ber á það að líta að allir þeir sem
hafa greitt í lífeyrissjóð í þrjú ár áður en þeir eru metnir öryrkjar fá örorkubætur úr
lífeyrissjóði. Þannig getur þrítugur einstaklingur með undir 160 þúsund kr. á mánuði í
atvinnutekjur fyrir örorku hækkað í ráðstöfunartekjum við það að vera metinn öryrki.
Hið sama gildir um 62 ára einstaklinga sem eru með undir 146 þúsund kr. í
mánaðarlaun.

Þetta atriði er eitt og sér alveg þess virði að skoða nánar, en ég mæli með að fólk lesi skýrsluna í heild sinni til að fá betri skilning á því sem þarna er verið að ræða um.

Ég ætla ekki að vitna meir í skýrslu Tryggva því af nógu er að taka og ég á eftir að koma með mínar skýringar á fjölgun öryrkja á íslandi og hverjar eru ástæðurnar fyrir þeirri fjölgun þó svo aðeins hafi verið tippað á því hér í upphafi.

Athyglisverðar upplýsingar úr skýrslu Stefáns Ólafssonar, (2) frá árinu 2005 þar sem hann fjallar um öroku og velferð á Íslandi og öðrum vestrænum löndum.

Íslenska leiðin í velferðarmálum er í senn skyld skandinavísku og
engilsaxnesku leiðunum, þeirri síðarnefndu einkum eins og hún var útfærð í Englandi
og á Nýja Sjálandi frekar en í Bandaríkjunum. Ísland er því með markverð frávik frá
skandinavísku velferðarkerfunum (Stefán Ólafsson 1999, Kildal og Kuhnle 2004).
Hlutur hins opinbera hefur verið heldur minni á Íslandi (sbr. stórt hlutverk
lífeyrissjóða vinnumarkaðsaðilanna, félagslegra sjálfsbjargarfélaga, sjúkrasjóða
launþegafélaga og kjarasamninga, sem og vegna mikillar atvinnuþátttöku og
sjálfsbjargar almennings til lengri tíma). Almannatryggingakerfið íslenska byggir þó á
þeim grunni, sem tíðkast í Skandinavíu, að réttindi séu borgararéttindi allra íbúa
landsins en ekki bara atvinnutengd.
Tryggingavernd almennings er því mikil en upphæðir lífeyrisbótakerfa
almannatrygginga hafa lengst af verið flatar, lágar og með miklum skerðingarreglum
(tekjutengingum) sem rýrt hafa lífeyrinn mjög hratt þegar fólk hefur fengið einhverja
aðra lífsbjörg en frá almannatryggingum. Þessi þáttur velferðarkerfisins hefur oft
skapað lífeyrisþegum frekar lök lífskjör og er sá þáttur skyldastur engilsaxnesku
velferðarkerfunum, þó jöfnunaráhrif íslenska kerfisins hafi verið heldur meira. Á móti
hefur svo komið að hvað snertir velferðarþjónustuna, þá hefur íslenska leiðin verið
mjög áþekk þeirri skandinavísku, með hátt gæðastig og mikið umfang opinberrar
þjónustu, svo sem á heilbrigðissviði, í félagsþjónustu og í menntamálum. Það má því
segja að þó íslenska velferðarkerfið beri mörg merki skandinavísku kerfanna þá sé
það blandað og líka með engilsaxnesk einkenni, einkum á bótakerfinu. Útkoma er
síðan sú, að jöfnunaráhrif eru á heildina ekki jafn mikil í íslenska kerfinu og í þeim
skandinavísku. Lífskjör láglaunahópa og lífeyrisþega eru enn sem komið er ekki jafn
góð og hjá skandinavísku þjóðunum og umfang fátæktar virðist vera ívið meira á
Íslandi en í Skandinavíu, sem þýðir þó að fátækt er frekar lítil á Íslandi samanborið
við önnur vestræn þjóðfélög, svo sem í Norður Ameríku og á meginlandi Evrópu
(Stefán Ólafsson 1999). Skandinavísku þjóðirnar búa við minnstu fátæktina sem
finnst í hinum þróaða heimi.

Strax þarna er farið að bera á því að íslensk stjórnvöld eru farin að leita leiða frá hinu norræna velferðarkerfi sem hefur reynst það besta í heimi á hinum norðurlöndunum en þess í stað horft til Englands þar sem lífskjör lífeyrisþega hafa verið að skerðast í miklum mæli þegar þessi skýrsla var skrifuð fyrir níu árum síðan.
Síðan þá hafa lífskjörin hjá lífeyrisþegum á Englandi versnað mikið meðan hin norðurlöndin hafa séð sér hag í að búa betur að lífeyrisþegum í sínum löndum.
Á Íslandi hefur enska leiðin verið meira ráðandi síðustu tíu ár heldur en sú norræna og hefur það svo sannarlega komið niður á lífskjörum öryrkja á Íslandi sem í dag þurfa að lifa á tekjum sem eru langt undir viðmiðunarmörkum velferðarráðuneytisins og jafnvel neðan þeirra marka sem teljast til fátæktar.

En hverjar eru raunverulegar ástæður fyrir fjölgun öryrkja á Íslandi?
Ekki er það vegna þess að þeir hafi það svo gott tekjulega eins og ótrúlega margir vilja halda fram í hroka sínum og vanþekkingu á kjörum öryrkja.
Það hefur það enginn gott á tekjum sem eru langt undir fátæktarmörkum, því útborgaðar tekjur spanna þetta frá um 160 þúsund til 187 þúsund króna og það sér það hver heilvita einstaklingur að það lifir enginn á þeim tekjum.  Við sklum því renna beint í ástæður þess að öryrkjum fjölgar svona ört á íslandi.

1:  Langur vinnutími.
2:  Léleg laun.
3:  Ónóg hvíld og svefn.
4:  Óregla og slæmt mataræði.
5:  Þunglyndi og aðrir geðhvarfasjúkdómar.
6:  Stoðkerfissjúkdómar, slys og óhöpp.

Ég ætla að láta þetta duga end er þarna um helstu þættina að ræða þó vissulega megi týna ýmislegt fleira til sem gæti orsakað að fólk fer á ótímabæra örorku.  En það verður líka að skoða þetta í samhengi, ekki bara slíta þetta í sundur og einblýna á eitt stakt atriði eins og þessir svokölluðu „fræðingar“ gera svo mikið af í sinni rýni á hlutina.

Tökum dæmi af ungum manni sem hættir í námi átján ára gamall og fær almenna verkamannavinnu.  Grafa skurði, leggja skolplagnir eða í byggingavinnu svo fátt eitt sé tekið.
Hann þarf að fara á fætur klukkan sex á morgnanna til að vera kominn í vinnu klukkan hálf átta og vinnur frá mánudegi til fimmtudags til níu á kvöldin en á föstudögum til fjögur.
Á laugardögum vinnur hann svo frá hálf átta til sex á kvöldin en fer þá heim og tekur sig til og skreppur út á lífið með félögunum, fær sér í glas og fer jafnvel í partí á eftir sem stendur langt fram á sunnudagsmorgunn.
Sunnudagurinn fer síðan að mestu í svefn, sjónvarpsgláp með snakk og ruslafæðisáti þar til kominn er tími til að reyna að fá einhverja hvíld fyrir komandi vinnuviku.

Á mánudeginum mætir hann í sína vinnu og er þreyttur og ósofin að mestu jafnvel með snert af tmiburmönnum eftir skrall helgarinar og afköstin í vinnunni eru þess vegna minni en ella.  Kanski svona 40 til 50% af því sem eðlilegt gæti talist og athyglin á því sem er að gerast í kringum hann svipuð.  Fullum afköstum nær hann svo kanski á miðvikudegi eða jafnvel ekki fyrr en á fimmtudegi en samkvæmt því sem ég hef lesið mér til um, þá nær viðkomandi aldrei meira heldur en 90% afköstum á svo löngum vinnudögum sem tíðkast hér á landi.  Þá er miðað við fullfríska einstaklinga í góðu líkamlegu og andlegu ástandi.

Síðan líða árin og þessi maður er orðinn 35 ára, enn í vekamanna / byggingavinnu en búinn að lenda í nokkrum smá óhöppum í vinnunni, fótbrotnan eftir fall af stillans, fékk grjót ofan á sig skurði eða rör í hausinn, bakmeiðsl vegna byltu, þrisvar hið minnsta, og svo má lengi telja.

Í nokkur ár hefur hann verið með mikla verki í baki, liðum og vöðvum án þess að neitt hafi komið út úr læknisheimsóknum eða rannsóknum sem hann hefur verið sendur í þar til einn daginn að ungur afleysingalæknir sendir hann í gigtarpróf.  Vinur okkar er nú ekki alveg á því og hlær að lækninum og segir að það geti ekki verið að hann sé með gigt, það sé sjúkdómur sem leggist bara á aldrað fólk.
Kanski það: segir læknirinn ungi, en eins og þú hefur unnið og farið með líkama þinn, þá bendir allt til þess að hann sé nær sjötugu heldur en að hann tilheyri 35 ára gömlum einstaklingi.
Vini okkar bregður við þetta og sættist á að fara í gigtarpróf þar sem niðurstöðurnar eru sláandi.  Ekki bara er hann með gigt, heldur skakkan hrygg, vefjagigt og slitgigt sem gerir það að verkum að hann er orðinn nánast óvinnufær langt fyrir aldur fram með tilheyrandi verkjum og þreytu sem kemur niður á vinnuafköstum hans.  Frá átján ára aldri til þrjátíu og fimm ára eru sautján ár og á þeim tíma tókst þessum manni að eyðileggja líkama sinn með því að misþyrma honum með vinnálagi og allt of lítilli hvíld.
Það er fullt af fólki sem eru öryrkjar í dag einmitt út af þessu.

Síðan eru það allir samverkandi þættirnir og nú verður að setja upp einfalt dæmi.

Langur vinnutími + léleg laun + ónóg hvíld og svefn + óregla og sæmt mataræði = stoðkerfissjúkdómar og slys + peningaáhyggjur = þunglyndi og aðrir geðhvarfasjúkdómar.

Þegar svo allt er lagt saman er útkoman sú að þegar allt þetta kemur saman á einn stað þá sitjum við uppi með einstakling sem er kominn á ótímabæra örorku langt fyrir aldur fram.

Það er löngu komin tími til að stjórnvöld og atvinnurekendur fari að átta sig á þeirri staðreynd, að langur vinnudagur starfsfólks er ekki að skila sér í aukinni framleiðni eða betri afkomu fyrirtækja, heldur þvert á móti skilar það verri afköstum, minni framleiðni og verri afkomu fyrirtækja auk heldur óánægðari starfsmanni sem hefur minni, eða jafnvel engan metnað til að skila miklu og góðu vinnuframlagi.

Að var flott grein á Mbl.is þann 23. þessa mánaðar, skrifuð af Jónu Ósk Pétursdóttur, þar sem farið er aðeins í saumana á þessu máli, (3) og vísun í mörg góð rök sem styðja það sem ég er að fjalla um hérna í þessum pistli.
Þar segir meðal annars:

Meðan ég bjó er­lend­is í nokk­ur ár, og einnig eft­ir að ég flutti heim, fór ég að sjá ým­is­legt í ís­lensku sam­fé­lagi með öðrum aug­um en ég hafði áður gert. Þegar búið er í öðru og ólíku landi verður maður nokk­urs kon­ar gest­ur í eig­in landi þegar komið er „heim“ í heim­sókn og maður skynj­ar hlut­ina á ann­an hátt. Á þar mál­tækið að glöggt sé gests augað vel við.

Eitt af því sem ég áttaði mig sér­stak­lega á er hversu risa­stór þátt­ur vinn­an er hjá flest­um Íslend­ing­um. Þá á ég ekki við hversu mik­il­vægt það er auðvitað að hafa vinnu held­ur hversu al­gengt það er að fólk skil­greini sjálft sig fyrst og fremst út frá starfi sínu. Og það að vera rosa­lega upp­tek­inn í vinnu þykir al­veg fer­lega flott. Því upp­tekn­ari sem þú ert og því leng­ur sem þú ert í vinn­unni því dug­legri og flott­ari ein­stak­ling­ur ertu.

Þarna kemur hrokinn hjá okkur íslendingum sterkast fram.
Þessi hroki að við séum alltaf best og duglegust í heimi en þessi sami hroki slær okkur nefnilega í gólfið þegar við skoðum heilsufar íslendinga, bæði andlega og líkamlega heilsu því við misþyrmum líkama okkar svo rosalega með svona vinnu að við eyðileggjum hann langt fyrir aldur fram.
Og erum við svo rosalega mest og best þegar kemur að andlega hlutanum?
Nei, svo sannarelega ekki.  Gáfurnar eru nefnilega lítið að þvælast fyrir okkur með þetta viðhorf sem minnst er á í greininni.

En höldum áfram:

Eðli­legt er að halda að með lengri vinnu­tíma verði af­köst­in meiri. Það er bara rök­rétt, ekki satt? Ekki al­deil­is – því það er víst al­veg kolrangt. Sam­kvæmt öll­um rann­sókn­um og töl­um um fram­leiðni erum við langt langt á eft­ir ná­grannaþjóðum okk­ar. Við vinn­um til dæm­is lengri vinnu­viku en flest­ar aðrar þjóðir í heim­in­um. Já þið lásuð rétt; leng­ur er flest­ar aðrar þjóðir. En öll þessi vinna skil­ar sér samt eng­an veg­inn því af­köst­in eru svo miklu minni hjá okk­ur en öðrum. Það er erfitt að kyngja þessu en þetta er al­veg dagsatt.

Þarna kemur hún inn á þennan punkt sem ég var að tala um áðan í dæminu af manninum sem fór að vinna 18 ára og búinn að benna sig út 35 ára.

Svo eru það atvinnurekendur og fyrirtækjaeigendur sem fá staðreyndaskell:

Sam­kvæmt sér­fræðing­um er staðreynd­in víst sú að við höld­um okk­ur ekki jafn vel að verki og aðrar þjóðir, sem þýðir auðvitað að við nýt­um tím­ann ekki nógu vel. Við erum því ekki jafn dug­leg og við sjálf höld­um. Á meðan Norðmenn vinna 1400 tíma á ári vinn­um við hér á landi tæpa 1900 tíma. Engu að síður er fram­leiðni okk­ar miklu lægri en þeirra. Í viss­um at­vinnu­grein­um erum við meira að segja með næst­um því 50% lægri fram­leiðni. Hvernig má það vera? Við sem erum svona töff og alltaf í vinn­unni.

Rann­sókn­ir benda til þess að á viss­um tíma­punkti þá skili meiri vinna minni fram­leiðni. Skila­boðin eru ein­föld; styttri vinnu­tími og að halda sér við efnið skila meiri af­köst­um. Það er ekk­ert skrýtið að ungt fólk flykk­ist til Nor­egs þar sem vinnu­dag­ur­inn er styttri og eng­inn þarf að vera í þess­um töffara­leik að vinna sem lengst.

Við verðum að bíta í það súra epli að við erum ekk­ert sér­stak­lega dug­leg, við bara höld­um það af því við erum alltaf í vinn­unni. Ég held reynd­ar að það unga fólk sem er ný­komið á vinnu­markaðinn, sem og næsta kyn­slóð, muni breyta þessu. Að öll­um lík­ind­um verða þau samt kölluð let­ingj­ar af þeim sem eldri eru og telja mikla vinnu vera hina mestu dyggð.  Þetta unga fólk skil­grein­ir sig á ann­an hátt en eldri kyn­slóðir.  Þau skil­greina sig meira út frá sjálf­um sér og út frá tím­an­um utan vinnu, en ekki út frá starf­inu sjálfu. Þau munu því lík­lega leit­ast við að sníða vinn­una að lífi sínu en ekki lífið að vinn­unni.
Al­veg eins og það ætti að vera.

Lokaorð:

Það er aðeins tæpt á helstu ástæðum fyrir að fólk greinist á íslandi með ótómabæra örorku, langt fyrir aldur fram en það vantar alveg heilan helling í þessa upptalningu.
Það vantar til dæmis börn og unglinga sem fara á örorku um leið og þau komast á fullorðinsár vegna ýmissa þátta í æsku þeirra, uppeldi og menntunarmálum en sú upptalning og úrvinnsla verður að bíða annars pistils þar sem þessi er þegar orðinn of langur.

Hér vantar einnig að fara yfir það ferli sem einstaklingur fer í gegnum þegar hann er metinn til örorku og það ferli getur tekið frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár ef því er að skipta og það ætti öllum að vera ljóst sem vilja halda því fram að það sé ekkert mál að verða öryrki, að þeir eru að segja það gegn betri vitund.  Hvort sem það er af vanþekkingu, fordómum eða hreinni og klárri heimsku skiptir ekki máli, því þetta ferli fer enginn í gegnum af fúsum og frjálsum vilja og allra síst vegna þess að öryrkjar hafi það svo gott.

Að lokum ætla ég að benda á jómfrúrræðu Halldóru Mogensen, pírata, sem hún flutti úr ræðustól alþingis þann 23. þm.

Virðulegi forseti. Andlegt álag, vanlíðan, skert sjálfsvirðing og niðurbrot á andlegu og líkamlegu heilsufari er meðal helstu afleiðinga fátæktar. Þeir sem glíma við fátækt skilja hvað ég á við. Þessi einkenni valda því að fátækt fólk dregst úr þátttöku í samfélaginu, missir samkeppnisfærni og nýtur þar af leiðandi ekki þeirra gæða og tækifæra sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu.

Hvernig viðhöldum við lífsgleði okkar þegar við vitum að svo mörg okkar, þar á meðal börn, hafa svo lítið að gleðjast yfir? Við gerum það með því að firra okkur ábyrgð og felum ríkinu og stofnunum þess hlutverk bjargvættarins. Þannig getum við lokað augunum fyrir neyðinni og hætt að hugsa um hana. En á meðan við neitum að taka ábyrgð erum við ekki eitt fólk heldur hópar fólks sem hafa litla tilfinningu fyrir því hvernig annar hópur en þeirra eigin lifir og upplifa enga ábyrgð á aðstæðum hver annars. Hvaða áhrif hefur það á lýðræðið þegar stór hópur fólks upplifir sig utan kerfis? Þessi hópur hefur andúð á kerfinu og þeim lögum og reglum sem viðhalda því, enda upplifir þessi hópur andúð kerfisins.

Hvað er matarskatturinn og hækkun hans annað en andúð kerfisins á fátæku fólki? Áhrif skattsins verða þau ein að færa til kostnað innan kerfisins því að ef fólk neyðist til að skipuleggja mataræði sitt og fjölskyldu sinnar út frá sparnaði í stað heilsu liggur í augum uppi að kostnaðurinn endar í heilbrigðiskerfinu. Einhverjir hagfræðingar og peningateljarar munu eflaust reikna þann kostnað í krónum og vega og meta en fyrir okkur, almenning í landinu, verður heilsa okkar og barna okkar ekki metin til fjár.

Þegar ég velti fyrir mér hvers konar samfélag ég vil taka þátt í að skapa hugsa ég til róttæku hugmyndarinnar hans Thomas More um samfélag þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með því að útrýma fátækt frekar en að byggja á refsikerfi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með ójöfnuði. Þegar ég spái í það er þetta alls ekki róttæk hugmynd heldur er það eðlilegt og rökrétt að vilja lifa í samfélagi þar sem fátækt og fylgikvillar hennar heyra sögunni til.

Með því að smella hérna má horfa og hlusta á ræðu hennar.

Við megum aldrei gleyma því að öryrkjar eru líka fólk og þeir eiga fullan rétt á því eins og hver annar að lifa mannsæmandi lífi án þess að þurfa stöðugt að hafa áhyggjur af því hvernig þeir eigi að komast í gegnum mánuðinn fjárhagslega.
Stjórnvöld bera ábyrgð á því og begðist þau skyldu sinni eru þau að bregðast allri þjóðinni.

Greinin birtist einnig í Kvenablaðinu.

 Heimildir:

1:  Fjölgun öryrkja á Íslandi, orsök og afleiðingar eftir Tryggva Þór Herbertsson frá árinu 2005

2:  Örorka og velferð á Íslandi og öðrum vestrænum löndum eftir Stefán Ólafsson frá árinu 2005

3:  Grein frá Jónu Ósk Pétursdóttur á mbl;  Er þjóðin að drepast úr leti?

 

Umsagnir

Umsagnir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrifa

Updated: 27. júlí 2016 — 18:34