Þeir atburðir sem eru að gerast í íslenskum stjórnmálum í dag og undanfarna daga eru vægast sagt furðulegir svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Á sama tíma og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs berst fyrir lífi sínu með því að skipta út forsætisráðherra og ætlast með því til að óánægjuöldurnar lægi í þjóðfélaginu, þá er hreint út sagt ömurlegt að fylgjast með hvernig íslenskir fjölmiðlar vinna sína vinnu samanborið við þá erlendu sem fylgjast með atburðunum. Það er eins og að horfa á amatöra við hlið fagmanna þegar kemur að því að ræða við stjórnmálamennina, sér í lagi ráðherra og valdamesta fólkið því enn skríða íslenskir fjölmiðlar eins og lúbarðir hundar ef einhver í valdastöðu hvæsir á þá og hvessir augun.
Helgi Seljan stóð sig reyndar vel gagnvart Bjarna Ben, fjármálaráðherra í Kastljósi í gær og það þýddi ekkert fyrir Bjarna að segja Helga að hann væri að skálda eitthvað upp enda Helgi með staðreyndirnar í höndunum, útprentaðar frá Alþingi.
Ég skora á fólk að horfa á þáttinn og sjá Bjarna tekinn aðeins á beinið eins og hann átti skilið.
En nú að flokki Pírata eins ég ætlaði mér í þessum pistli.
Það er ótrúlegt hvað fólk er almennt fáfrótt um stefnumál og grunnstefnu pírata en samt tilbúið að segja sína skoðun upphátt og opinbera þar með algjört þekkingarleysi sitt á Pírötum því Píratar eru komnir með fastmótaða stefnu í mjög mörgum málum, önnur eru í vinnslu en í heildina eru Píratar tilbúnir í kosningar hvenær sem er.
Við skulum byrja á því að skoða Píratakóðann og útskýra hann á mannamáli því hann er einfaldur og segir í raun allt sem segja þarf um það fólk sem kallar sig í dag Pírata. Ég ætla að setja mynd af kóðanum hérna inn, því það eru fáir sem fylgja tenglum sér til upplýsinga og fróðleiks, því miður.
Grunnstefna Pírata skiptist síðan í sex hluta þar sem dregin eru saman í hverjum hluta áherslur grunnstefnunar sem Píratar fara eftir og ég hvet fólk til að kynna sér hana áður en það fer að fabúlera um eitthvað sem það hefur ekki kynnt sér.
-
Gagnrýnin hugsun og upplýst stefna.
-
Borgararéttindi.
-
Friðhelgi einkalífsins.
-
Gagnsæi og ábyrgð.
-
Upplýsinga og tjáningafrelsi.
-
Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur.
Að lokum eru það stefnumál Pírata, en ótrúlegasta fólk, almenningur, fjölmiðlafólk og stjórnmálamenn, hafa ítrekað haldið því fram að Píratar séu stefnulaus flokkur sem viti ekkert hvað þeir ætli sér að gera ef þeir komist í meirihluta í þinginu eftir næstu kosningar. Ég persónulega held því fram að þetta fólk, sérstaklega fjölmiðlafólkið og þeir stjórnmálamenn sem svona láta út úr sér, séu einfaldlega hræddir einstaklingar sem þora ekki að kynna sér stefnu Pírata eða út á hvað grunnstefna þeirra og píratakóðinn gengur í raun og veru eða þá að þetta fólk hefur fyrirfram ákveðið að mistúlka hann sér og sínum til hagsbóta.
Það er óheiðarlegt og það gerir aðeins fólk sem getur horft á staðreyndir sem eiga eftir að koma sér illa fyrir „þeirra“ flokk í framtíðinni. Það er þessi þráhyggja fólks að líta á stjórnmál eins og einhverja keppni þar sem þeirra lið þarf að vinna svo þeir séu ánægðir. Slíkt fólk skilur ekki stjórnmál og á ekki að vera að tjá sig um þau því stjórnmál eru ekki keppni. Stjórnmál snúast um það að vinna í þágu lands og þjóðar, að allir landsmenn hafi það gott og geti lifað sæmilega áhyggjulausu lífi en þurfi ekki alltaf að hafa áhyggjur af framtíðinni, fjármálum eða heilsu sinni.
Það á að vera kappsmál allra þeirra sem fara í stjórnmál að vinna fyrir landsmenn alla, óháð stöðu þeirra eða menntunn, heilsu eða aldri þannig að allir hafi það gott á íslandi.
Þannig er það ekki í dag og því þarf að breyta og það geta Píratar gert ef þeir fá umboð til þess.
Skoðum nokkur atriði sem mest hefur verið talað um í „stefnuleysi“ Pírata.
- Píratar vilja að þú getir tekið þátt í ákvarðanatöku í málum sem þig varðar. Píratar vilja ekki að þú þurfir að framselja atkvæði þitt til fjögurra ára í einu. Í þessum tilgangi hafa Píratar búið til kosningakerfi sem miðar að því að tryggja lýðræðisleg vinnubrögð en jafnframt nýta tæknina upp að því marki sem mögulegt er. Haltu atkvæðinu þínu og taktu þátt í alvöru lýðræðissamfélagi.
- Píratar vilja að almenningur hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hann þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir og veitt stjórnsýslunni það aðhald sem hún þarf. Án gagnsæis er ekki alvöru lýðræði, ekki hægt að taka ákvarðanir um opinber fjármál, ekki hægt að koma í veg fyrir spillingu og ekki hægt að krefjast ábyrgðar.
Með opnum ríkisfjármálum má betur koma auga á sóun á fjármagni og uppræta spillingu í stjórnsýslunni.
- Píratar gera sér grein fyrir því að það þarf að uppfæra menntakerfið í heild sinni. Samfélagið og menntakerfið þurfa að vera samstíga frá leikskóla til háskóla. Tilgangur skólakerfisins er að kenna fólki á það hvernig samfélagið virkar og hvernig á að búa til nýja þekkingu. Allt of margir útskrifast úr háskólanámi án þess að hafa tækifæri á að finna starf á sínu sviði. Þetta vilja Píratar laga með því að gera nám á öllum skólastigum fjölbreytt, sveiganlegt, netvætt og beintengt við samfélagið.
- Píratar líta á jafnrétti sem spurningu um grundvallarréttindi sem tryggja ber bæði lagalega og samfélagslega. Ekki er nóg að einstaklingar njóti lagalegrar verndar gegn einu formi misréttis þegar annað þrífst óáreitt í samfélaginu – og misrétti verður aldrei upprætt að fullu með lagasetningu einni saman heldur þarf að vinna í hugarfari fólks með öllum tiltækum leiðum. Allar staðalmyndir og ranghugmyndir um einstaka samfélagshópa sem hamla gegn því að fólk geti notið sín á sínum eigin forsendum eru Pírötum á móti skapi. Píratar vilja ekki bara umburðarlyndi heldur að allir séu samþykktir og metnir að verðleikum.
- Píratar vilja samþykkja frumvarp til stjórnskipunarlaga sem er samhljóða frumvarpi Stjórnlagaráðs í öllum efnisatriðum.
- Píratar vilja ganga skal úr skugga um lögmæti verðtryggðra lána og Píratar munu styðja lántakendur í að sækja rétt sinn. Reynist lán ólögmæt skal gæta þess að dómum verði framfylgt. Lyklalög skulu heimila lántakendum, sem það kjósa, að gera upp húsnæðislán sín með því að afsala sér fasteigninni til bankans. Festa skal stimpilgjöld og lántökukostnað í fastri og eðlilegri upphæð svo lánhafar geti fært sig á milli lánastofnanna og til verði eðlilegur neytendamarkaður. Uppgreiðslugjald skal bannað á nýjum lánasamningum. Fólk almennt skal ekki gert gjaldþrota vegna bankahruns sem lánveitandi þeirra orsakaði.
- Stór fyrirtæki hafa fengið allt of mikla athygli á undanförnum árum, 99% fyrirtækja á Íslandi eru lítil eða meðalstór. Píratar vilja betrumbæta atvinnuumhverfi smáiðnaðar með einfaldara rekstrarumhverfi. Píratar sjá líka tækifærin sem felast í internethagkerfinu. Með því að hanna kjörlendi fyrir internetiðnað þá stækkar markaður núverandi og verðandi fyrirtækja á Íslandi gríðarlega og atvinnutækifærum fjölgar.
- Píratar leggja áherslu á að í stjórnarskrá verði fest ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í náttúru Íslands. Ríkið skal bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði fyrir hönd þjóðarinnar. Handfæraveiðar séu þó frjálsar fyrir þá einstaklinga sem kjósa að stunda þær. Allur afli skal fara á markað.
- Píratar vilja lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. Einfalda þarf framfærslukerfið og bjóða þarf bótaþegum, hvort sem það eru öryrkjar, fatlaðir eða atvinnulausir upp á fjölbreytta atvinnu, frístunda og menntunarmöguleika. Bæta skal aðstæður á almennum leigumarkaði með það að markmiði að húsnæði sem nú standa auð og án búsetu séu í boði á almennum markaði.
- Píratar nota kosningakerfi á netinu til þess að greiða úr ágreiningsmálum og komast að niðurstöðu samhliða reglulegum málefnafundum og framkvæmdafundum í kjötheimum. Það er helsti öryggisventillinn á að allir geti haft aðkomu að Píratamálum. Stefnumál eru meðal þess sem er kosið um í kosningakerfinu og því má sjá þar yfirlit yfir öll samþykkt stefnumál Pírata.
Hér að ofan eru bara stuttir úrdrættir út 10 stefnumálum en þau eru fleiri og ég hvet fólk til að kynna sér þau að fullu og ræða þau við okkur efnislega.
Að lokum vil ég bara segja þetta við fók. Ekki gera lítið úr ykkur með því að segja að við séum stefnulaus flokkur sem vitum ekkert hvað við erum að fara út í því það er svo mikið í gangi innan Pírata til að gera samfélag okkar betra og ísland að betra landi til að lifa í ef þið bara hjálpið okkur til þess því Píratar eru hér fyrir ykkur, fólkið í landinu til að hlusta á ykkur og vera ykkar þjónar á alþingi, ykkar starfsmenn á plani.