Ég held að ég hafi engan veginn átt von á því sem gerðist í gær vegna einfaldrar stöðufærslu sem ég skrifaði nývaknaður í gærmorgunn þegar ég minntist dánardægurs sonar míns og hugsaði um það hvað það eru margir foreldrar sem hafa séð á eftir börnum sínum í klær eiturlyfjafíknar og alls þess djöfulsskapar sem því fylgir. Margir hafa jafnvel horft á eftir börnum sínum í gröfina vegna fíknarinar, eins sorglegt og það nú er.
Þegar ég hafði skrifað þetta og deila á facebook fór ég að sinna mínum málum enda hef ég verið upptekinn við það undanfarna daga að klambra saman hurðum í hlöðudyr á hesthúsinu sem við hjónaleysin eigum hér á Selfossi og spáði því ekkert meira í þessari stöðurfærslu.
Síðan gerist það, að það hefur samband við mig blaðamaður frá Pressan.is og spyr mig hvort hann megi deila þesssari stöðufærslu ásamt myndinni og mynd af mér til að vekja athygli á því hvernig komið er fyrir geðheilbrigðismálum á Íslandi og eins til að gera tilraun til að opna einhverskonar umræðu um geðheilbrigðismál.
Að sjálfsögðu fékk hann mitt leyfi til þess og ekkert nema gott um það að segja enda gerði Kristján Kormákur þetta af stakri snilld þannig að eftir var tekið.
Síðar um kvöldið hafði samband við mig blaðamaður frá Vísir.is og bað um leyfi til að fá að birta þetta líka á Vísir.is og var það líka meira en sjálfsagt.
Það sem síðan gerðist var síðan alveg sláandi.
Þegar ég kom heim og fór inn á facebook beið eftir mér fjöldi einkaskilaboða og nokkrar vinabeiðnir.
Ég fór þegar í að svara þeim sem höfðu haft samband auk þess að skoða öll „lækin“ og athugasemdir við myndina og stöðufærsluna frá því um morguninn en þau skiptu mörgum tugum og auk þess var búið að deila myndinni og færslunni af fjölda fólks.
Á tímabili var ég að tala við 12 einstaklinga í einkaskilaboðum, fólk sem hafði reynslusögur að segja sem og fólk sem aðeins var að óska mér velfarnaðar og þakka mér fyrir að hafa vakið það til vitundar um hvað lífið getur verið hverfult og að óvæntir atburðir geri engin boð á undan sér.
Öllum þeim sem höfðu samband við mig, lækuðu myndina og stöðurfærsluna, deildu henni og skrifuðu umsögn, jafnvel bara eitt hjarta eða knús langar mig að þakka þeim fyrir falleg orð og hugsanir til okkar. Það er algerlega ómetanlegt að finna alla þá hlýju sem fólk gefur af sér með þessum hætti og á tímabili sat ég við tölvuna og tárin bara streymdu niður kinnarnar.
Af auðmýkt og þakklæti til ykkar allra.