
„Af hverju borða þau ekki bara kökur?“
Þetta er fræg setning sem var að ósekju eignuð Marie Antonette Frakklandsdrottningu þegar soltinn almúginn kvartaði undan því að eiga ekki brauð.
Þess má geta að Franska byltingin hófst árið 1789 eftir áratuga langa kúgun yfirstéttarinnar á almúga landsins.
En í nútímanum er það Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins sem fer mikinn og segir vexti eins háa og raun ber vitni af því fólk leggi ekki fyrir í sparnað.
Það má kanski vera að eitthvað sé til í því að vextir séu háir af því fólk leggi ekki fyrir í sparnað, en hvernig á fólk sem er með útborgaðar tekjur upp á 160 til 180 þúsund krónur á mánuði að leggja fyrir í sparnað?
Það sér það hver heilvita maður sem á annað borð er fær um örlitla rökhugsun, að það gengur aldrei upp.
Þegar fólk er búið að borga húsaleigu, afborganir af lánum, (ef það er með lán) og önnur nauðsynleg útgjöld, þá segir sig sjálft að það er ansi lítið eftir þegar fólk á ekki einu sinni fyrir mat út mánuðinn.
Miðað við hvað þjóðin er eyðslugráðug og lítið gefin fyrir að spara, þá situr hún uppi með háa raunvexti.
Ég bendi fólki sem finnst raunvextir vera háir á að endilega fara að spara og njóta vaxtanna.
Þessar setningar hjá Pétri eru bara bein sönnun þess að maðurinn er algerlega ótengdur við þann veruleika sem almenningur á íslandi býr við og skyldi svo sem engan undra þar sem maðurinn er búinn að vera á vernduðum vinnustað í áratugi.
Á sama tíma og Pétur slær þessu fram, eru æ fleiri lífeyrisþegar að stíga fram fyrir skjöldu og opna sig um stöðu sína og segja frá því hvernig þeir berjast fyrir því að reyna að láta enda ná saman yfir mánuðinn og maður les oft á dag stöðufærslur og athugasemdir á samfélagsmiðlum frá fólki sem er orðið peningalaust um leið og það fær útborgað og þarf því að leita til hjálparmiðstöðva til að eiga fyrir mat út mánuðinn.
Jón Steinsson, dósent við Coumbia háskóla deilir fréttinni og skrifar við hana:
Það er nokkuð til í þessu. En þá er spurningin: Af hverju sparar fólk ekki á Íslandi. Hluti af skýringunni er án efa gott velferðarkerfi sem tryggir fólk fyrir áföllum. En annar hluti er ekki ósennilega slæm reynsla Íslendinga af því að spara. Fyrir tíð verðtryggingar brann sparnaður upp í verðbólgu og í seinni tíð fá þeir sem skulda „leiðréttingu“ á meðan þeir sem spara fá ekki slíka „leiðréttingu“. Og svo er þriðja skýringin líklega krónan. Ef þú værir á þeim buxunum að ætla að spara einhverjar verulegar fjárhæðir, myndir þú gera það í krónum (ótilneiddur)?

Þessu er auðsvarað, amk fyrsta spurningin.
Fólk sparar ekki af því það hefur ekki einu sinni efni á því að lifa sómasamlegu lífi.
Margir lífeyrisþegar sem áttu sparnað eftir hrunið hafa gengið á þennan sparnað sinn einfaldlega til að komast af út mánuðinn og því miður er það svo, að margt eldra fólk hefur nú þegar klárað þann sparipening sem það átti og hefur því neyðst til að fara að selja eigur sínar smátt og smátt, eins og skartgripi, málverk og mubblur til að eiga í sig og á.
Önnur skýring Jóns er þó rétt, því fyrir tíma verðtryggingarinar sá fólk sparifé sitt brenna upp sem síðan varð til þess að fólk hætti að treysta bankakerfinu hér á landi.
Þriðja skýringin er líka rétt hjá honum. Enginn heilvita maður færi að spara hjá íslenskum banka í íslenskum krónum enda sá gjaldmiðill ónýtur með öllu og aðrar þjóðir líta ekki við krónunni. Líta á hana sem rusl og þú finnur hana hvergi skráða í seðlabönkum annara landa enda ekki stefna þeirra að skrá spilapeninga sem eingöngu eru nothæfir í Mattador sem gjaldeyri.
Ég benti Jóni á að skoða það sem ég skrifaði um könnunina sem ég er með í gangi hér hægra megin á síðunni og svarið sem ég fékk varð til þess að ég missti talsvert álit á honum fyrir vikið.
Ekki vil ég gera lítið úr lágum launum. En fólk í fátækum löndum með 10 sinnum lægri laun en Íslendingar nær samt að spara stærra hlutfall launa sinna en margir Íslendingar. Svo ég er ekki sannfærður um að það sé skýringin.
Svoan útskýringar eru ekki marktækar að mínu mati enda liggja hreinlega engin rök að baki þessari fullyrðingu hjá Jóni og hann kom líka þar með upp um sig hvað hann er algerlega ótengdur við þann veruleika sem ég og aðrir lífeyrisþegar þurfum að lifa við.
Svar mitt til Jóns hljóðaði svona:
Þú verður að horfa líka til þess hað lægstu laun hér á landi eru og verðlag í samræmi við það.
Lífeyrisþegar hérna hafa þetta að jafnaði frá um 160 þús til 187 þúsund útborgað og þegar búið er að borga húsnæðiskostnað, rafmagn og tilbehojer, þá fer restin, (ef einhver er) í að kaupa nauðsynjar.
Um þetta getur fjöld fólks vitnað og þetta fólk er ekki að kaupa einhvern óþarfa, farandi í bíó, leikhús, út að borða, kaffihús eða neitt þannig því það einfaldlega hefur ekki efni á því og þaðan af síður hefur það efni á að leggja fjármuni í einhvern sparnað.
Fólk sem er á hærri launum en 500 þúsund verður hreinlega bara að koma niður á jörðina og sjá með eigin augum hvernig ástandið er hjá þúsundum íslendinga í raun og sann áður en það fer að tala í yfirlæti og hroka um að það sé ekkert mál að spara.
Það að benda á að fólk í fátækari löndum með 10 sinnum minni tekjur en íslendingar nái að spara er bara ekki til umræðu hér þegar ástandið á íslandi er með þeim hætti sem það raunverulega er.
ÉG ásamt þúsundum annara lifi nefnilega í þessum íslenska raunveruleika.

Mynd fengin af síðunni: Llju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra.
Það er sorgleg staðreynd, að allt of margir af þeim sem eru með hærri tekjur á íslandi en hálfa millu á mánuði, falla í þá gryfju að gera lítið úr erfiðleikum þeirra þúsunda íslendinga sem í hverjum einasta mánuði ársins þurfa að leita sér hjálpar til að eiga fyrir mat og öðrum nauðsynjum og í hroka sínum kalla fólk sem á ekki fyrir nauðsynjum, eyðslugráðugt.
Ég sé ekki marga lífeyrisþega á íslandi akandi um á 10 milljón króna jeppum þessa dagana þó svo Pétur H. segi þjóðina lifa við betri kjör en nokkurn tíma fyrr.
Staðreyndirnar tala sínu máli og því fleiri lífeyrisþegar sem stíga fram og segja frá því ástandi sem þeir þurfa að lifa við.
Því fleiri sem stíga fram og segja sína sögu verður nefnilega til þess að fjölmiðlar geta ekki þaggað þessa umræðu niður þegar þeir skipta hundruðum eða jafnvel þúsundum sem allir hafa sömu sögu að segja.
Launin dugi þeim í mesta lagi í tvær vikur af mánuðinum og eftir það þarf þetta fólk að lifa á hjálparsamtökum eða betli og sníkjum.
Það er ömurlegt og niðurlægjandi fyrir fólk að þurfa að lifa svona og fólk finnur til skammar vegna þess en fólk verður bara að hrista af sér þá skömm þar sem hún er ekki því að kenna, heldur er skömmin alfarið stjórnvalda sem halda fólki í helgreipum fátæktar og neyðar og gerir ekkert til að bæta hag þess hversu mikið sem þeim er bent á það.
Þess vegna skrifa ég til ykkar allra þarna úti sem náið ekki endum saman.
Skömmin er ekki ykkar heldur stjórnvalda.
Stígið fram og segið ykkar sögu því í krafti fjöldans er hægt að breyta því ástandi sem orðið er og laga kjör okkar.
En til þess að svo geti orðið þarft þú að leggja þitt af mörkum.
Stígðu fram strax í dag.