Það þarf snilling til að klúðra einföldum morgunverði en það tókst mér áðan af minni alkunnu snilld.
Ég ætlaði mér bara að fá mér tvær pylsur örbylgjuhitaðar til að narta í áður en ég kæmi mér í garmana og færi að hreinsa hjá köttunum, ryksuga og horfa svo á draslið í bílskúrnum og reyna að fá það til að raða sér upp með hugarorkunni einni saman, (veit að það gengur aldrei enda búinn að reyna svo oft) svo ég geti farið að gera Vírdó og Perluna vorklár.
En já, þetta með morgunverðinn.
Tók fram pylsupakkann og reif út þrjár og gerði mig kláran í að skera þær í tvennt þegar ég heyrði skrölt við hliðina á mér. Hafði rekið mig í litlu steikarpönnuna sem konan hafði notað kvöldið áður til að steikja, já þið megið giska á hvað. Jú. Pylsur.
Ákvörðun tekið og ekki aftur snúið. Pylsurnar voru saxaðar í litla bita og pönnunni komið fyrir á litlu hellunni og kveikt undir, smjör á og pylsurnar settar út á.
Gekk frá pyslupakkanum en rak þá augun í sveppi og nældi mér nokkra sem ég skar niður með eggjaskeranum og skuttlaði út á pönnuna og þegar ég aftur fór í ísskápinn blasti við mér pakki af baconi svo það varð að saxa niður nokkrar lengjur og skella með.
Nú úr því svona var komið þá hugsaði ég með mér að maður þyrfti nú egg með þessu svo það voru rifin út egg líka, þeim skellt í skál ásamt mjólk og kryddi og hrært rækilega í þar til þetta var orðin fínasta soppa og þar sem hitt dótið á pönnunni snarkaði glaðlega með nettum fitusprengingum á vegginn og eldavélina þá var eggjahrærunni skellt út á.
En þetta var ekki búið því þegar ég setti eggin inn í ísskáp rak ég augun í lítin poka af cheddar og mozarella og að sjálfsögðu var hann gripin og stráð yfir pönnuna og látin bráðna ofan í ommelettuna sem nú var alveg að verða tilbúin.
Nú sit ég og skrifa þetta alveg grautfúll út í mig fyrir að hafa látið freistast af minni alkunnu fljótfærni því að sjálfsögðu át ég þetta upp til agna og nú sit ég hérna pakksaddur og nánast afvelta af ofáti og kem sennilega ekki neinu í verk í dag fyrir vikið.
Ég mátti síst við þessu þar sem ég þarf að skafa af mér fjórðung af hundrði hið minnsta en ef ég fer ekki að taka mér tak þá enda ég með því að þurfa að keyra vömbina á undan mér í hjólbörum til að komast um og þá verður nú lítið hjólað í sumar.
Hversu mikill auli getur einn maður verið?
Farið vel með ykkur.