Ha? Eiga útgerðirnar enga kvóta? Hvernig geta þær þá veitt ef þær eiga ekki kvótann?
Svarið er einfalt.
Þjóðin á auðlindina sem eru fiskimiðin í kringum landið, það segir fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða, þó svo ýmsir „málsmetandi“ menn haldi öðru fram.
En lögin eru skýr og þar segir:
1. gr. (1)Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. (2)Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. (3)Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Brjótum þetta aðeins niður í þrjú einföld atriði sem eru merkt með rauðu fyrir framan hvert þeirra.
- Fyrsta setningin er algerlega skýr því þar segir að miðin og allt sem er innan þeirra sé sameign allra íslendinga. Það þrætir enginn fyrir það.
- Markmið lagana er einnig skýrt en því miður ekkert farið eftir því þar sem við höfum sé dæmi um það þegar stórar útgerðir hætta með fiskvinnslur í smærri byggðarlögum úti á landi.
- segir einnig allt sem segja þarf og á ekki að þurfa að útskýra það neitt nánar. Útgerðirnar eiga ekki þann kvóta sem þeim er úthlutað og geta aldrei eignast hann eins og kemur skýrt fram í lögunum.
Félagar í Sóknarhópnum fóru í gær á fund þar sem Sigurður Ingi, sjávarútvegsráðherra sat fyrir svörum og það er skemmst frá því að segja að hann var skotinn algerlega í kaf eins og lesa má í þessum pistli og hlusta má á í meðfylgjandi myndbandi þar sem Ólafur Jónsson, Óli Ufsi fer yfir fundinn frá sínu sjónarhorni.
Hvet alla til að hlusta á þetta hjá Óla.
Óli talar líka um það í myndbandinu að það hafi verið gengið í skrokk á Sigðurði Inga, ekki þó í beinni merkingu þess orðs, heldur var skotið svo rosalega á hann með spurningum að hann gat hreinlega ekki logið sig út úr því og neyddist því til að svara sannleikanum samkvæmt, en það var um skilgreiningu fyrstu greinar laga um stjórn fiskveiða.
Sigurður ætlaði að reyna að snúa út úr því en komst ekki upp með það og með súrdoðasvip neyddist hann til að viðurkenna það sem satt var.
Í kvöld er síðan fundur með Sigurði Inga og félögum hans á hótelinu á Selfossi þar sem allir geta komið og ljáð máls á skoðunum sínum og spurt spurninga.
Ég hvet alla til að mæta, en fundurinn hefst klukkan 20.00.
Ég vil hvetja alla til að skoða sóknarhópinn, síðuna og hópinn og kynna sér út á hvað þetta allt saman gengur og taka þátt í því að koma í veg fyrir að fiskimiðin í kringum landið, þjóðarauðlindin, verði gefin stórútgerðunum til næstu 30 ára án þess að þjóðin, fólkið í landinu fái réttmætan arð af henni en að greifarnir fái að stinga þúsundum milljarða á ári í eigin vasa.
Deilið og ræðið.